Hvað gera menn til þess að hljóta náð fyrir augliti Guðs? Lesum nú um það sem Páll postuli sagði gyðing-kristnum og heiðin-kristnum mönnum um kraft Guðs til hjálpræðis og syndafyrirgefningar og hversu hann vill vera Guð þeirra og taka við þeim sem sínum lýð.

Hver eru einkenni Rómverjabréfsins?

Í bréfi Páls postula til Rómverja er að finna nákvæmasta yfirlit höfundar yfir fagnaðarerindið um Jesú Krist. En Rómverjabréfið er meira en sendibréf. Það er ritgerð, og hún meira að segja meistaralega byggð. Í frumkirkjunni urðu stundum greinir með gyðing-kristnum og heiðin-kristnum mönnum um það, hvernig menn öðluðust velþóknun Guðs og hvernig lærisveinar Krists ættu að haga lífi sínu. Í Rómverjabréfinu er Páll ekkert að vefja það, að fagnaðarerindið sé „kraftur Guðs sem frelsar hvern þann mann sem trúir, Gyðinginn fyrst og aðra síðan“ (1.16).

Hvers vegna var Rómverjabréfið skrifað?

Páll skrifaði Rómverjabréfið einhvern tíma á árunum 55-56 e. Kr. Vildi hann með því kynna sig fyrir lærisveinum Krists í Rómaborg. Meðal þeirra voru bæði heiðin-kristnir menn, nýir í trúnni, og gyðing-kristnir, sem snúið höfðu aftur til borgarinnar eftir að hafa verið gerðir brottrækir þaðan nokkrum árum fyrr (sjá hér að neðan). Þetta fólk, alveg eins og kristnir menn í öðrum löndum kringum Miðjarðarhafið, túlkaði fagnaðarerindið með ýmsum, mismunandi hætti. Gyðing-kristnir í Róm og Jerúsalem héldu enn fast við lögmál Móse, en það gerðu heiðin-kristnir menn ekki. Og hvorir höfðu nú á réttu að standa? Skipti lögmál Móse máli fyrir heiðin-kristna? Eða kom það heim við fyrirætlun Guðs, að Ísraelslýður eignaðist hlutdeild í fagnaðarerindinu?

Páll kennir í Rómverjabréfinu, að fagnaðarerindið sé í öndverðu reist á fyrirheitinu sem Guð gaf Abraham ættföður Ísraelsþjóðarinnar. Abraham trúði Guði og það var honum til réttlætis reiknað (4.3). Seinna var lögmálið gefið Móse og Ísraelsþjóðinni. Þar var rakið hversu Guðs lýður skyldi lifa og hegða sér. Enn síðar sendi Guð Jesú Krist til þess að fyrirgefa syndir og gefa mönnum, fyrir trú þeirra og þó óverðskuldað, rétt til þess að verða Guðs börn. En þessu hafði lögmálið, eitt og sér, ekki getað komið til leiðar (3.21-26). Þetta bar samt ekki að skilja svo að lögmálið væri einskis nýtt, eða að fólkið sem lifði eftir því (Ísrael) heyrði ekki lengur til Guðs lýð. Páll heldur því samt fram, að þeir einir sem trúi á Jesú Krist réttlætist fyrir Guði.

Hvernig var ástatt í Rómaborg, þegar bréfið var skrifað?

Löngu áður en Páll postuli ráðgerði að halda til Rómaborgar hafði sprottið þar upp hópur manna, sem trúði á Jesú Krist. Á árunum 49 til 50 e. Kr. risu svo mjög úfar með þessum mönnum og Gyðingum, að Kládíus keisari sá þann kost vænstan að gera hvora tveggju brottræka úr borginni (sjá Post 18.1-4). Meðal hinna útlægu voru hjónin Priskilla og Akvílas, sem bæði voru lærisveinar Jesú. Með þeim starfaði Páll postuli síðar að tjaldgjörð í Korintu og Efesus (Post 18.3; 1Kor 16.19; Róm 16.3). Þar kom, að nokkuð af þessu fólki sneri aftur til Rómar. Nú vonaðist Páll til þess að ná fundum þess á leið sinni til Spánar, þar sem hann hugðist boða fagnaðarerindið (15.28). En áður en hann gat lagt af stað í þá ferð, vildi hann fyrir alla muni fara til Jerúsalem með söfnunarfé, sem kristnir menn er áður höðfu verið heiðingjar í Makdóníu og Akkeu höfðu látið af hendi rakna til safnaðarins í Jerúsalem (15.26-29). Það var von hans, að kenningarnar í Rómverjabréfinu fyndu náð fyrir augum hinna gyðing-kristnu manna í Jerúsaelm (15.30-32). Höfundur Postulasögunnar kann frá því að segja, að Páll hafi um síðir komist til Rómaborgar sem fangi keisarans (Post 27,28). En ekkert verður um það lesið í Nýja testamenti, hvort hann boðaði fagnaðarerindið á Spáni, eða hvort hann yfirleitt komst þangað.

Efnisskipan bréfsins

Rómverjabréfið er skrifað í hefðbundnum, grískum sendibréfastíl fyrstu aldarinnar eftir Krists burð. Fyrst var til siðs að geta þess, hver sá væri sem hér héldi á penna (1.1-6). Síðan var vikið að þeim, sem bréfið var ætlað (1.7). Því næst var venjulega heilsun. Í Rómverjabréfinu, eins og í flestum bréfum Páls, kemur þakkarbæn á eftir heilsuninni (1.8-15) og bréfinu lýkur með kveðju og blessunaróskum (16.1-27).

Helstu efnisþættir Rómverjabréfsins eru þessir:

  • Páll kynnir sig og fagnaðarerindið (1.1-17)
  • Allir menn eru syndugir í augum Guðs (1.18-3.20)
  • Hvernig réttlætast menn fyrir Guði? (3.21-4.25)
  • Hið nýja líf í trú á Krist (5.1-8.39).
  • Guð miskunnar einnig Ísraelslýð (9.1-11.36)
  • Lífið í líkama Krists (12.1-15.13)
  • Fyrirætlanir Páls, kveðjur og blessunarbænir (15.14-16.27).