27.1 ákveðið var að við skyldum sigla til Ítalíu:Sjá athugagreinar við 16.10 (Vér-kaflarnir) og 28.14 (Róm).

27.1 hundraðshöfðingja er Júlíus hét, úr hersveit keisarans: Júlíus er hvergi nefndur á nafn í Postulasögunni nema hér. Orðið, sem haft er um hersveitina (cohort), á sérstaklega við hersveit keisarans.

27.2 Adramýttíum…Asíu: Hér fer Páll um borð í skip frá Adramýttíum, hafnarbæ á vesturströnd skattlandsins Asíu, nærri Tróas og Assus. Það kom við á nokkrum stöðum á Asíuströnd.

27.2 Aristarkus…frá Þessaloníku: Sjá athugagrein við 19.29. Sjá og Kól 4.10, þar sem helst er að skilja, að Aristarkus þessi hafi verið með Páli í Rómaborg. Sjá athugagrein við 17.1 (Þessaloníka).

27.3,4 Sídon…Kýpur: Sídon var hafnarbær í Fönikíu, stífa 110 km. norður af Sesareu. Sjá athugagrein við 11.19,20 (Fönikía, Kýpur). Hvassviðri hefur verið á vestan, úr því að þeir félagar leituðu skjóls undir Kýpur.

27.5 Kilikíu og Pamfýlíu…Mýru í Lýkíu: Sjá athugagreinar við við 6.9 (Kilikía) og 13.13 (Pamfýlía). Páll var frá Tarsus í Kilikíu. Mýra var bær í Lýkíu, sem var skattland í Asíu. Í Mýru voru miklar kornhlöður og þar var viðkomustaður skipa á langferðum um Miðjarðarhafið.

27.6 Alexandríu…Ítalíu: Alexandría, stórborg við ósa Nílar í Egyptalandi. Sjá athugagreinar við 6.9 og 18.24. Róm, á Ítalíu, var áfangastaður reisubræðranna.

27.7,8 Knídus…Laseu: Knídus var um 140 km. vestur af Mýru. Vestangarrinn gerði ferðafélögunum nær ókleift að sigla beint á Akaiu og þaðan til Ítalíu og brugðu þeir því á það ráð að stefna á eyjuna Krít austanverða þar sem hét Salmónehöfði. Síðan létu þeir horfa vestur með suðurströnd Krítar og lögðust að í Góðhöfnum, um sjö og hálfan kílómetra í vestur frá Laseu.

27.9 föstu: Föstuna fyrir friðþægingardag Gyðinga, í lok september. Sjóferðir þóttu ótryggar er leið að septemberlokum og frá því um miðbik nóvembermánaðar fram í miðjan mars lagði enginn óvitlaus maður frá landi.

27.12 Fönix: Fönix var tæpa 130 km. fyrir vestan Góðhafnir á suðurströnd Krítar. Þar voru hafnarskilyrði snöggtum betri en í Góðhöfnum.

27.12 útsuðurs og útnorðurs: Eða „norðaustur og suðaustur.“

27.14 landnyrðingur: Aftakaveður, líkast hvirfilbyl, og kallast „Euroaquilo“ (af latnesku orðunum eurus [austan eða suðaustanvindur] og aquilo [norðanvindur]; aust-norðaustanáttin, sem hrakti Pál og förunauta hans frá landi.

27.16 Káda: Lítil ey um 36 km. suður af Krít. Reisubræðurnir láta reka með suðurströnd Krítar á meðan þeir reyra skipið köðlum til þess að verja það broti, en sigla svo undir eyna.

27.17 reyrðu skipið köðlum: Kaðlar voru reyrðir á milli stafns og skutar, trúlega þó ofan þilja, til þess að varna því að skipið brotnaði í tvennt.

27.17 Syrtuflóa: Syrtuflói gékk inn í norðurströnd Afríku, vestan við Kýrenaíku-hérað. Þar voru stórhættulegar sandgrynningar.

27.23 engill: Sjá athugagrein við 5.19.

27.24 keisarann: Keisari í þennan tíma var Neró (54 til 68 e Kr.) Hann var sonur Agrippínu, fjórðu eiginkonu Kládíusar keisara. Sjá athugagrein við 11.28 (Kládíus). Neró umgékkst fjárhirslur keisaradæmisins af fullkomnu virðingarleysi, en var daufur að heyja stríð. Af þessu var hann í litlum metum bæði hjá hernum og broddborgurum Rómar. Meginið af Rómaborg brann til kaldra kola árið 64 e. Kr. og kenndi Neró kristnum mönnum um. Voru þeir ofsóttir í kjölfarið á eldsvoðanum og er talið, að postularnir Pétur og Páll hafi þá báðir látið lífið. Sjá og athugagrein við Opb 13.18.

27.27 Adríahaf: Miðjarðarhaf skilur að heimsálfurnar Afríku og Evrópu. Rómaborg er á Ítalíuskaga nálægt miðju þessa hafs, og löndin kringum það lutu í þennan tíma rómverska heimsveldinu. Ferðir kaupskipa um Miðjarðarhafið hófust á öðru árþúsundinu fyrir Krists burð og höfðu aldrei verið tíðari en á dögum Páls.

27.28 reyndist dýpið: Skipverjar vörpuðu grunnsökku fyrir borð til þess að mæla dýpið.

27.31 hundraðshöfðingjann: Má vera, að átt sé við Júlíus þann, sem nefndur er í 27.1.

27.38 kasta kornfarminum í sjóinn: Sum skip gátu lestað allt að þrjú þúsund ámur korns. Hér léttist skipið, þegar nokkru af farminum er varpað fyrir borð. Það ristir þá ekki eins djúpt og getur þarafleiðandi siglt nær landi.