23.2 Ananías æðsti prestur: Ananías, sonur Nedebeusar, var æðsti prestur frá 48 til 58 e. Kr., en þá var embættið tekið af honum. Hann var að sögn grimmdartól. Fyrir þá sök, og ennfremur af því að hann hafði komið sér í mjúkinn hjá rómversku yfirvöldunum, drápu hann uppreisnarmenn, landar hans, í byrjun Gyðingastríðsins 66.-70 e. Kr.

23.3 kalkaði veggur: Úlfur í sauðargæru, maður, sem þykist betri en hann er. Sjá og Matt. 23.27,28.

23.5 ritað er: Sjá athugagrein við 8.35. Páll vitnar hér í lögmálsgrein í 2Mós 22.28.

23.6 saddúkear…farísear: Sjá athugagreinar við 4.1 (saddúkear) og 5.34 (farísear). Páll vissi, að verða mundu greinir með þessum tveimur flokkum manna, ef hann nefndi upprisu dauðra. Sjá og Post 26.4,5; Fil 3.5.

23.10 hersveitarforinginn: Sjá athugagrein við 21.31.

23.10 kastalann: Sjá athugagrein við 21.34.

23.14 æðstu prestanna og öldunganna: Sjá athugagrein við 4.1. og 4.5.

23.15 ráðið: Sjá athugagrein við 22.30.

23.16 systursonur Páls: Ekki er vitað um nafn þessarar systur Páls postula, né heldur hvað sonur hennar hét.

23.17 einn hundraðshöfðingjann…hersveitarforingjans: Sjá 22.25 (centurion). Sjá og athugagrein við 21.31 (kílíark).

23.23 Sesareu: Sjá athugagrein við 8.40. Rómverski landstjórinn hafði aðsetur í Sesareu.

23.24 Felix landstjóra: Kládíus keisari skipaði Antoníus Felix landstjóra rómverska skattlandsins Júdeu árið 52 e. Kr. Hann gegndi embættinu um átta ára bil. Gyðingar reiddust honum mjög, þegar hann lét drepa hóp manna, sem beið komu Messíasar í óbyggðum Júdeu. En honum auðnaðist ekki að ráða niðurlögum svonefndra „sicarii“ (morðingja), flokks hermdarverkamanna sem líflétu þá sem grunaðir voru um að vera hallir undir Rómverja. Felix vissi margt um hreyfingu fylgismanna Jesú (veginn, sjá 24.22) og sat gjarnan á tali við Pál, en hélt honum engu að síður föngnum (25.24). Mynt úr bronsi var slegin á stjórnarárum Felix (í kringum 64 e Kr.). Til þess að espa ekki Gyðinga umfram nauðsyn var höfð á peningnum mynd af pálmatré heldur en að steypa á hann andlitsmynd af landstjóranum.

23.26 Kládíus Lýsías: Sjá athugagrein við 21.31.

23.27 rómverskur: Sjá athugagrein við 22.25 (rómverskan mann).

23.29 kærður vegna ágreinings um lögmál þeirra: Rómverjar leyfðu Gyðingum að dæma í málum, sem heyrðu undir eigin lög þeirra og siði, svo fremi ekki bryti í bága við Rómarréttinn ellegar ylli uppþotum. Þar eð Páll postuli var rómverskur borgari, leit hersveitarforinginn á það sem skyldu sína að standa vörð um réttindi hans.

23.31 Antípatris: Herstöð fyrir norðan Jerúsalem, sem Heródes mikli reisti úr rústum og nefndi eftir Antípater, föður sínum.

23.33 landstjóranum: Sjá athugagrein við 23.24.

23.34 Kilikíu: Sjá athugagreinar við 6.9 (Kilikía) og 9.11 (Tarsus).

23.35 höll Heródesar: Á þessari stóru og ríkmannlegu höll, sem Heródes mikli lét reisa, voru þrír háir turnar. Umhverfis hana voru lystigarðar, sundlaugar og gosbrunnar. Innan dyra voru veislusalir og gestaherbergi handa um hundrað manns. Á dögum Páls postula höfðust þar við rómversku landstjórarnir í Palestínu. Að lokinni uppreisn Gyðinga 66.-70 e. Kr. var ekkert eftir heilt af höllinni nema turnarnir, en einnig þeir voru eyðilagðir síðar.