Guð úthellir heilögum anda sínum
Samkvæmt fyrirheiti sínu úthellir Guð anda sínum yfir postulana. Þeir öðlast kraft og hugrekki til þess að prédika fagnaðarerindið. Útlendingar heyra boðskapinn á sínu eigin tungumáli og þrjú þúsund manns taka skírn á einum degi.
2.1 hvítasunnudagur: Hátíð hvítasunnunnar, öðru nafni uppskeru- eða viknahátíð, var haldin 50 dögum eftir páska. Voru þá Guði þakkir færðar fyrir fyrstu hveitiuppskeruna (sjá 3Mós 23.15-21; 5Mós 16.9-11). 49 dögum fyrr, daginn eftir páskadag, hafði Jesús látið lífið á krossinum.
2.4 heilögum anda: Sjá nánar um Heilagan anda.
2.5 Í Jerúsalem dvöldust Gyðingar, guðræknir menn: Jerúsalem var í þennan tíma enn þá helsta miðstöð tilbeiðslu Gyðinga og bjuggu þar margir guðhræddir menn. Auk þess var nú kominn þar fjöldi pílagríma vegna hvítasunnuhátíðarinnar.
2.7 Galíleumenn: Sjá athugagrein við 1.11. Mannfjöldann furðaði á því, að óskólagengnir menn skyldu hafa vald á mörgum framandi tungum.
2.9-11 Partar…Kríteyingar og Arabar: Sjá landabréf á bls. 2373. Ríki Parta var ógn rómverska heimsveldinu á austurmærum þess. Medar og Elamítar voru í verunni úr sögunni á þessum tíma, en konungsríkin við þá kennd voru hluti af ríki Parta sem og Mesópótamía. Jerúsalem heyrði rómverska skattlandinu Júdeu. Flest hin plássin sem hér eru nefnd voru lönd og héruð í Austurlöndum nær eða við Miðjarðarhafið. Kýrene og Róm voru mikilsháttar borgir.
2.11 Gyðingar og þeir sem tekið hafa trú Gyðinga: Flestir þeir sem játuðu trú Gyðinga voru af gyðinglegu foreldri, en aðrir höfðu snúist til gyðingatrúar. Karlmenn, sem ekki voru af gyðingaættum, en tóku gyðingatrú, urðu að láta umskerast (sjá athugagrein við 7.8).
2.14 Pétur: Símon Pétur, sem Jesús kallaði fyrstan lærisveina sinna (ásamt með Andrési, bróður hans. Matt 4.18-22). Gríska nafnið Petros og arameíska mynd þess, Kefas, þýða bæði “klettur”.
2.17 á efstu dögum: Sumir yngri spámanna Ísraels kenndu, að einn dag í framtíð kæmi Drottinn að dæma heiminn. Því trúðu margir Gyðingar. Sá stórviðburður þýddi lok þessa jarðlífs, þar eð endurkoma Drottins hefði í för með sér algera endursköpun lífs og heims (1.20).
2.22 Jesús frá Nasaret: Jesús var gjarnan kenndur við heimabæ sinn, enda átti hann marga nafna og alnafna.
2.29-31 ættföðurinn Davíð…vissi að Guð hafði með eiði heitið honum: Davíð var talinn mestur konunga í Ísrael. Margir trúðu því, að Messías (hinn útvaldi) yrði af ætt Davíðs (Slm 132.11; 2Sam 7.12,13). Pétur segir, að Davíð hafi verið spámaður. Hann á við það, að Davíð hafi dyggilega gengið erinda Guðs í sálmunum, sem við hann eru kenndir. Hann heldur því og fram, að Davíð hafi séð fyrir upprisu Krists.
2.33 til hægri handar: Það var heiðurssæti valdamanns.
2.35 geri óvini þína að fótskör þinni: Til forna sátu konungar í Austurlöndum nær í hásætum er þeir hlýddu á ráðgjafa sína eða undirsáta, er ýmist stóðu eða krupu. Sá sem “er gerður að fótskör höfðingjans” er algerlega á valdi hans og á allt sitt undir honum.
2.36 Drottni og Kristi: Sjá “Drottinn (Eitt af virðingarnöfnum Jesú).” Kristur er sama og gríska orðið christos, sem þýðir “hinn Smurði” eða hinn útvaldi. Kristur samsvarar hebreska heitinu Messías.
2.38 Takið sinnaskiptum: Merking þessara orða er hin sama og í sögninni “að iðrast.” Þá snúa menn baki við syndinni, láta sættast við Guð og hefja nýtt líf.
2.38 öðlist fyrirgefningu syndanna: Syndin er það sem skilur okkur frá Guði og öðrum mönnum. Hún er óhlýðni við lögmál Guðs. Fyrirgefningin máir burt syndina. Við skírn í nafni Jesú rætist fyrirheit Guðs um fyrirgefningu syndanna. Sjá “Synd”.
2.40 rangsnúnu kynslóð: Átt er við þau, sem trúðu ekki á Jesú og voru því fylgjandi að hann væri tekinn af lífi.
2.42 brotning brauðsins: Jesús og postular hans neyttu brauðs og víns er táknaði líkama hans og blóð, fórnina sem færð var til fyrirgefningar syndanna. Á þeirri fórn rís hinn nýi sáttmáli (samningur) á milli Guðs og hins nýja lýðs hans (Matt 26.26-29; Lúk 22.14-122; 1Kor 11.23-26). Þessa minnast kristnir menn er þeir hafa sakramenti kvöldmáltíðarinnar um hönd, ganga til altaris, neyta máltíðar Drottins.
2.47 er frelsast létu: Annað orðalag, sem Lúkas notar um það að þiggja skírn í Jesú nafni og öðlast fyrirgefningu syndanna. Sjá og “Kærleikur Guðs frelsar (Hjálpræði)”.