19.2 heilagan anda: Sjá um Heilagan anda.
19.6 kom heilagur andi yfir þá: Heilagur andi kom yfir þessa lærisveina, þegar þeir höfðu verið skírðir til nafns Drottins Jesú og Páll hafði lagt hendur yfir þá. Hér eru nefndar tvær andagáfur, sem þeir hlutu: spádómsgáfa og tungutal. Sjá og Post 2.4,11; 10.44-46.
19.8 Guðs ríki: Sjá athugagrein við 1.3.
19.9 veginum: Sjá athugagrein við 9.2 (vegurinn).
19.9 í skóla Týrannusar: Trúlega er átt við alkunnan fyrirlestrasal í umsjá eða eigu Týannusar einhvers, sem kann að hafa verið heimspekingur og kennari sjálfur.
19.10 Asíu: Sjá athugagrein við 16.6 (Frýgíu og Galataland…Asíu).
19.14 synir…Skeva: Skeva og synir hans kunna að hafa verið skyldir fjölskyldu æðsta prestsins í Jerúsalem, en æðsti prestur voru hvorki hann né synir hans.
19.17 Grikkjum: Svo í handritum. Sjá athugagrein við 14.1.
19.19 farið höfðu með kukl: Rifrildi af fornum handritum hafa fundist í Efesus og er helst að sjá að skrifaðar hafi verið á þau einhvers konar töfraþulur og dulmál. Af þessu hafa menn þóst mega ráða, að galdrakindur og seiðskrattar hafi hafst við í borginni.
19.21 Makedóníu og Akkeu….Jerúsalem…Róm: Sjá athugagreinar við 16.9 (Makedónía) og 18.27 (Akkea). Á annarri kristinboðsferð sinni hafði Páll farið um Akkeu og vildi nú koma þar við aftur og vita hvernig söfnuðunum farnaðist áður en hann héldi til Jerúaselm að segja postulunum frá ferðum sínum og hvern árangur þær hefðu borið. Sjá og athugagrein við 28.14 (Róm).
19.21 tók Páll þá ákvörðun: Eða „blés heilagur andi Páli því í brjóst.“
19.22 Tímóteus og Erastus: Sjá athugagrein við 16.1 (Tímóteus). Erastus getur verið sá sem minnst er á í Róm 16.23-24 og var borgarféhirðir Korintu. Sjá og 2Tím 4.20.
19.23 veginum: Sjá athugagrein við 9.2 (þessa vegar).
19.24 Demetríus…silfursmiður…Artemisar: Demetríus silfursmiður hefur rekið sitt eigið verkstæði og haft menn í vinnu eða að öðrum kosti farið fyrir hópi starfsbræðra sinna sem allir smíðuðu úr silfri eftirlíkingar af musteri Artemisar. Efesus var víðfræg um alla Litlu-Asíu fyrir tignun gyðjunnar. Grikkir litu á veiðigyðjuna Artemis sem goð frjósemi, barneigna og ungviðis, ekki ólíka Kybele. Musteri Artemis í Efesus var mjög tilkomumikil og fögur bygging með 127 hvítum marmarasúlum. Þar undir þaki var líkneskja af gyðjunni og var talið að hún hefði fallið af himnum ofan (19.35).
19.29 Gajus og Aristarkus: Aftur er minnst á Gajus í 20.4. Aristarkus er sagður hafa verið förunautur Páls á ferð hans frá Korintu til Jerúsalem (20.3-4) og aukin heldur siglt með honum frá Jerúsalem til Rómaborgar (27.1-2). Sjá og Kol 4.10 og Fílm 24.
19.33 Gyðingar…Alexander: Þessir framámenn Gyðinga, andvígir Páli, vildu trúlega að Alexander gerði Efesusbúum það ljóst, að Páll væri ekki „ósvikinn Gyðingur.“ Þeir kærðu sig ekki um að taka á sig neitt af því sem Páll var sakaður um. Líka getur verið, að þeir hafi vonað að þetta uppþot yrði til þess að þeir losnuðu við Pál fyrir fullt og allt.
19.39 á löglegu þingi: Hér er gríska orðið yfir „þing“ ekklesía,sem líka merkir söfnuður eða kirkja. Hér er átt við ráð eða dóm, sem reglulega kom saman til þess að rannsaka ákærur og skera úr deilumálum.
19.40 sakaðir um uppreisn: Efesus laut rómverska heimsveldinu og hlaut því að fara að lögum Rómar. Samkvæmt þeim lá blátt bann við uppreisn gegn ríkinu. Borgarritarinn varaði þess vegna við háreysti og gauragangi, slíkt gæti egnt yfirvöldin gegn lýðnum.