18.1 Korintu: Korintuborg stóð um 80 km. vestur af Aþenu, á eiðinu milli Eyjahafs og Adríahafs, sem tengir meginland Grikklands við Pelopsskaga. Á dögum Páls postula léku um borgina margir menningarstraumar. Þar voru sjónleikahús, markaðstorg og musteri, og auk þess ýmisleg dultrúarbrögð og launhelgar. Í Korintu var lækningaguðinn Asklepíos mjög í heiðri hafður. Sjá og innganginn að Fyrra Korintubréfi.

18.2 Akvílas…Priskillu…Kládíus: Kládíus keisari rak Gyðinga og kristna menn burt úr Rómaborg af því að þeir deildu um það hver tilheyrði Guðs lýð og hver ekki. Þetta mun hafa átt sér stað einhvern tíma á árabilinu 41 til 49 e. Kr. Sjá og athugagrein við 11.28 (Kládíus).

18.3 tjaldgerðarmenn: Í þennan tíma voru tjöld oft saumuð úr leðri. Páll víkur sums staðar í bréfunum að handverki sínu (1Kor 4.12; 1Þess 2.9; 2Þess 3.8). Pétur kveðst á einum stað hafa dvalið hjá Símoni nokkrum sútara (9.43).

18.4 samkunduhúsinu: Sjá athugagreinar við 13.14 og 9.20.

18.5 Sílas og Tímóteus: Sjá athugagreinar við 15.22 (Sílas) og 16.1 (Tímóteus).

18.5 Kristur: Sjá athugagrein við 2.36.

18.6 hristi hann dustið af klæðum sínum: Sjá athugagrein við 13.51.

18.7 Títus Jústus: Að líkindum heiðingi, sem sótt hafði samkunduhús Gyðinga og tekið þátt í helgihaldi þeirra.

18.8 Krispus: Hann var samkundustjóri, sá um samkunduhúsið og útvegaði kennara og prédikara. Sjá 1Kor 1.14.

18.12 Gallíón var landstjóri í Akkeu: Gallíón var bróðir heimspekingsins fræga, Lúsíusar Anneusar Seneca (4 f. Kr. – 65 e. Kr.), en hann var einn hinna yngri Stóumanna. Forn áletrun í Delfí leiðir í ljós að Gallíón var landstjóri í Akkeu árið 51-52 e. Kr. Þetta skiptir miklu máli, þegar hugað er að tímaákvörðun á ferðum Páls.

18.13 dýrka Guð á þann hátt sem stríðir gegn lögmálinu: Leiðtogar Gyðinga sökuðu Pál postula um brot á rómverskum lögum, sem bönnuðu mönnum að telja fólk á að skipta um trú (sjá athugagrein við 16.21). Páll kom að þessu sinni engum vörnum við, en síðar átti hann eftir að benda á, að fagnaðarerindið um Jesú Krist ætti rætur í trú Gyðinganna, forfeðra hans (24.14-15; 26.6-7). Því væri pédikun hans ekki ný trúarbrögð, heldur reist á grunni helgirita Gyðinga og kenninga þeirra.

18.17 Sósþenes: Ekki er ljóst hvort Gyðingurinn Sósþenes sætti barsmíð af hendi Grikkja eða landa sinna.

18.18 Priskilla og Akvílas: Sjá athugagrein við 18.2.

18.18 skera hár sitt: Hjá Gyðingum tákn þess að staðið hafi verið við unnið heit. Páll hafði lofað að vera „Nasírei“, en svo voru þeir nefndir, sem vígðir höfðu verið til ýmiss konar þjónustu við Guð um lengri eða skemmri tíma. Á meðan máttu þeir hvorki neyta víns né skera hár sitt. Jóhannes skírari mun hafa verið Nasírei. Sjá 4Mós 6.18.

18.19 Efesus: Efesus var höfuðborg rómverska skattlandsins Asíu og mikill verslunarstaður. Sjá nánar innganginn að Efesusbréfinu.

18.22 Sesareu…Antíokkíu: Sjá athugagreinar við 8.40 (Sesarea) og 6.5 (Antíokkía).

18.23 Galataland og Frýgíu: Sjá athugagrein við 16.6.

18.24 Apollós: Apollós ólst upp í Alexandríu í Egyptalandi, þar sem Gyðingar voru fjölmennir. Það kemur ekki á óvart að Apollós skyldi vera vel að sér í helgiritum Gyðinga. Sjá og 1Kor 1.12; 3.4-6.

18.25 veg Drottins: Sjá athugagrein við 9.2 (vegurinn).

18.25 skírn Jóhannesar: Sjá athugagrein við 1.5 (skírði með vatni).

18.27 Akkeu: Í rómverska skattlandinu Akkeu (í suðurhluta Grikklands) voru Aþena og Korinta helstu borgir.

18.28 ritningunum:Sjá athugagrein við 8.35.