Hernaður, hörmungar, hungur og Harmagedón!
Opinberunarbók Jóhannesar greinir frá því er Guð vinnur fullnaðarsigur á hinu illa og kemur á fót nýjum og öruggum samastað friðar og fagnaðar handa sínum útvöldu.
Hver eru einkenni Opinberunarbókar Jóhannesar?
Orðið, sem á íslensku er þýtt með „opinberun“ (1.1) er á grísku apokalypsis og merkir uppljóstrun, afhjúpun eða auglýsing. Opinberun Jóhannesar er af þeim meiði bókmennta, sem nefnist opinberunarrit. Þau leitast við að birta mönnum hulda dóma himinsins og fjalla oft um endalok mannkynssögunnar. Venjulega skiptist alheimur þá í tvö lið, gott og illt. Við lok tímanna má hið illa, undir stjórn Satans, lúta í lægra haldi fyrir því góða, sem Guð stýrir. Að því búnu kallar Guð fram nýja sköpun og allir þeir sem verið hafa trúir munu eignast eilíft líf með honum. Í öðrum ritum Biblíunnar er einstaka kafla að finna, sem heyra til opinberunarbókmenntum, svo sem Daníel 7-12 og 13. kapítula Markúsarguðspjalls, en Opinberunarbók Jóhannesar er hið eina, sem eingöngu hefur inni að halda efni af þessum toga.
Opinberunarbókin höfðar mjög til ímyndunaraflsins. Hún lýsir hinum komandi degi Drottins með æsilegu myndmáli. Teflt er fram mörgum og mismunandi táknum eins og t.d. fólki í gervi villidýra, og litum og tölustöfum sem búa yfir dulinni merkingu sem spáir fyrir um það hvenær Guði muni láta verða endi veraldar.
Bókarhöfundur var gagnkunnugur helgiritum Gyðinga (Gamla testamenti). Meira en helmingur allra versa Opinberunarbókarinnar byggir á efni úr Gamla testamenti, beint eða óbeint. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga til þess að skilja boðskap hennar.
Hvers vegna var Opinberunabókin skrifuð?
Við lok fyrstu aldarinnar eftir Krists burð var öllum þegnum rómverska heimsveldisins skipað að tilbiðja keisarann og færa honum fórnir, enda höfðu þá keisararnir lýst sjálfa sig guði. Þeir, sem ekki hlýddu þessu, voru álitnir sitja á svikráðum við ríkið og máttu búast við því að verða teknir af lífi. Kristnir menn veltu því fyrir sér í fyllstu alvöru, hvort mótþrói þeirra yrði til þess, að kirkjan liði undir lok. Og bliknaði þá ekki sú von, að Drottinn kæmi til skjalanna og tæki sér öll völd á jörðu, og yrði að engu? Höfundur Opinberunarbókarinnar fékk sérleg boð frá Guði sem höfðu inni að halda svör við þessum spurningum. Þeim kom hann á framfæri við 7 söfnuði í Asíu, en boðskapurinn á reyndar enn í dag erindi við alla kristna menn. Hann er í stórum dráttum í þrennu lagi:
- Ill öfl eru að verki í heiminum og kristnir menn mega búast við þjáningum og dauða;
- Jesús er Drottinn og hann mun sigra allar þjóðir og valdhafa, sem setja sig upp á móti Guði – að rómverska heimsveldinu meðtöldu; og
- Guð mun launa þeim ríkulega, sem reynast trúir, einkum þeim sem láta lífið vegna hollustunnar við hann.
Þetta var kröftugur boðskapur vonar til handa hinum kristnu í frumkirkjunni, fólki, sem mátti þjást og láta lífið fyrir trú sína. Efni Opinberunarbókarinnar færði því heim sanninn um það, að þrátt fyrir grimmd og valdníðslu rómverska heimsveldisins, mundi Jesús (Guðs lambið) vinna hinn endanlega sigur.
Skyggnst á bak við tjöldin
Ekki er vitað hver sá Jóhannes var, sem Opinberunarbókin er við kennd. Nafnið Jóhannes var algengt meðal Gyðinga og kristinna manna, og hvergi kemur fram, að höfundur bókarinnar sé einn af postulunum tólf. Auðveldara er að geta sér til um hvenær bókin var skrifuð, þótt ekkert sé þó fullvíst um það. Dómitíanus keisari, sem ríkti frá 81 til 91 e. Kr., var fyrsti keisarinn í Róm, sem krafðist þess að menn dýrkuðu sig eins og guð, og kristnir menn meðtaldir. Trajanus keisari gaf síðar út tilskipun þess efnis, að mönnum bæri einnig að tilbiðja látna keisara. Þar sem Opinberunarbókin beinir orðum sínum til kristinna manna, sem sæta ofsóknum fyrir það að vilja ekki göfga keisarann, hallast sumir fræðimenn að því, að hún hafi verið rituð seint á ríkisárum Dómitíanusar eða að öðrum kosti á valdatíma Trajanusar. Aðrir telja aftur á móti að hún hafi orðið til miklu fyrr, eða skömmu áður en Jerúsalem var lögð í eyði árið 70 e. Kr.
Í Opinberunarbókinni eru margir tölustafir notaðir sem tákn, eins og t.d. talan sjö, sem þýðir algjörleika eða fullkomnun. Fleiri og annars konar tákn er og að finna í bókinni. Þannig táknar borgin „Babýlon“ þau öfl, sem setja sig upp á móti Guði. Kristnir lesendur vissu, að hér var átt við Rómaborg. Þeir vissu líka, að þegar í bókinni stóð „lambið“, að þá var átt við Jesú Krist.
Efnisyfirlit Opinberunarbókar Jóhannesar
Þetta margslungna rit hermir frá stríði kirkjunnar við andstæðinga Guðs. Fyrst er sagt frá baráttu sjö kirkjusafnaða í Asíu. En bókinni lýkur með því að hinum glæsta sigri Guðs er lýst í mikilfenglegri sýn og gefur þar að líta nýjan himin og nýja jörð framtíðarinnar.
- Spádómsorð Jóhannesar og fyrirbæn (1.1-8)
- Kirkjusöfnuðirnir sjö í sýn (1.9-3.22)
- Vitrun um Guð og lambið (4.1-5.14)
- Innsiglin sjö opnuð (6.1-8.5)
- Básúnurnar sjö (8.6-11.19)
- Andstæðingar Guðs (12.1-13.18)
- Vitranir um dóm Guðs og vernd hans (14.1-16.21)
- Óvinir Guðs að velli lagðir (17.1-20.15)
- Guð gjörir alla hluti nýja (21.1-22.5)
- Fyrirheit að lokum, blessunar- og varnaðarorð (22.6-21)
* Alfa og Ómega: Fyrsti og síðasti bókstafurinn í gríska stafrófinu (eins og A og Ö hjá okkur). Þeir voru stundum hafðir til þess að tákna „það fyrsta“ og „það síðasta“ í upptalningu á hlutum eða fyrirbærum. Jóhannes grípur tvisvar sinnum til þessa í Opinberunarbókinni: í upphafi (1.8,17) og nálægt lokum (21.6). Spámaðurinn Jesaja notar sama orðalag, þegar hann lýsir alveldi Guðs (Jes 44.6; 48.12).
* gerði oss að…prestum, Guði sínum og föður til handa: Í Jóhannesarguðspjalli kallar Jesús Guð gjarnan föður sinn (3.35; 5.17-30; 15.1,16; 17). Um leið gefur hann ótvírætt til kynna, að samband hans við Drottin sé með sérstökum hætti og sér sé fengið ákveðið vald yfir Guðs lýð (Sjá Slm 2.6-8).
Karlmönnum af ættbálki Leví var falin prestsþjónusta, fyrst í tjaldbúðinni og síðan musterinu í Jerúsalem. Meðal þess, sem þeir áttu að inna af hendi, var að færa Guði fórnir fyrir hönd alls Ísraelslýðs. Sjá „Prestar í Ísrael“ á bls. 2249. Höfundur Fyrra Pétursbréfs kallar hinn nýja lýð Guðs, kirkjuna, „heilagan, konunglegan prestdóm“ (1Pét 2.5,9), sem beri fram andlegar fórnir fyrir Jesú Krist, Guði velþóknanlegar (þ.e. lifi guðrækilega).
* á hlutdeild með yður í þrengingunni:Kristnir menn, sem neituðu að tilbiðja keisarann í Róm, voru látnir sæta refsingum (sjá 1Pét 4.12-19). Þannig var Jóhannes sendur til eyjarinnar Patmos af því að hann prédikaði Guðs orð og bar vitni sannleikanum um Jesú. Yfirvöldunum hefur mislíkað, að Jesús skyldi vera kallaður konungur, en ekki keisarinn.
* lífsins tré: Sjá 2.7. Í 1Mós 2.9 segir frá þessu tré, sem óx í aldingarðinum Eden. Vegna óhlýðni sinnar var Adam og Evu bannað að eta af því ávöxtinn (1Mós3.22-24). Lífsins tré var mikið tákn í Austurlöndum nær til forna og enn í dag kemur það oft fyrir í list Gyðinga og kristinna manna, eins og t.d. á fatinu sem hér sést á myndinni (frá 1923 eftir Bernard Leach). Tréð er og nefnt í 22.2,19, þar sem blöð þess eru sögð til lækningar þjóðunum. (Sjá í Septúagintu: Esk 28.13; 31.8).