8.2 básúnur: Sjö lúðrar eru fengnir jafnmörgum englum og þegar englarnir þeyta lúðrana eru dómar felldir yfir þeim sem óhlýðnast hafa Guði. Blásið var í lúðra (básúnur) þegar lýður Guðs var kallaður saman til stórhátíða Gyðinga (4Mós 10.3,10; 29.1) og ennfremur þegar kunngjört var að nýr konungur hefði sest að völdum (1Kon 1.34,39; 2Kon 9.13; sjá og 1Þess 4.16).

8.3 reykelsi: Sjá athugagrein við 5.8.

Básúnurnar sjö

Jóhannes sá engla þeyta lúðra og boðaði lúðurhljómurinn að óvinum Guðs yrði refsað. Fjórir englanna tyftuðu náttúruna með ógurlegum hamförum, en þrír hegndu andstæðingum Guðs grimmilega. Sumt þetta kvalræði minnir á plágurnar, sem Drottinn sendi yfir Egyptaland mörgum öldum fyrr (2Mós 7-10). En hinum trúu þjónum Guðs, sem höfðu innsigli hans á enni sér, var hlíft.

8.6 englarnir sjö: Hér er vísast átt við sérstakan hóp engla, sem samkvæmt fornum arfsögnum Gyðinga voru öðrum englum æðri.

8.8 fjalli, logandi af eldi…varpað í hafið: Opinberunarbók Jóhannesar er að öllum líkindum skrifuð eftir að eldfjallið Vesúvíus gaus árið 79 e. Kr., lagði í eyði Pompei-borg og sökkti fjölda skipa í höfninni. Eflaust hafa lýsingar á þessum hörmungum borist fólki í borgum Litlu-Asíu til eyrna. Eldgos og jarðskjálftar voru til forna álitin refsing guðanna.

8.10,11 féll stór stjarna af himni…Remma: Gríska orðið, sem á íslensku er þýtt með „Remma“ er Absinþos, og hljómar líkt og nafnið á jurt einni í Palestínu (malurt). Þetta er lækningajurt af körfublómaætt og í rótum hennar er beiskur vökvi. Í Mara kastaði Móse tré í rammt vatnið og þá varð það ferskt (2Mós 15.22-25). Hér verða vötnin aftur á móti beisk. Sjá og Jer 9.15.

8.12 dagurinn missti…birtu sinnar: Það sem hér um ræðir minnir á tungl- eða sólmyrkva. Hin dýpri merking er sú, að margur maðurinn verður sviptur ljósi Guðs.