Innsiglin sjö opnuð

Þegar innsiglin sjö á bókinni eru rofin, kemur í ljós það sem Guð hefur í hyggju til þess að sigra hin illu öflin. Jóhannes sér að auki tvær sýnir, á meðan verið er að rjúfa innsiglin: 144 þúsund menn, sem teknir eru frá af ættkvíslum Ísraels (7.1-8) ogaragrúa fólks af öllum þjóðum, sem lofsyngur Guði (7.9-17).

 6.1 lambið…innsiglunum sjö: Sjá athugagreinar við 5.6 (lambið) og 5.1 (bók). Þegar innsiglin eru rofin kemur það fram, sem sagt hefur verið fyrir um.

6.2 Hvítur hestur: Hesturinn og bogi knapans tákna sigursæld í hernaði. Parþar bjuggu við austurmæri Rómaveldis og stóð nágrönnunum mikil ógn af bogum þeirra. Hér má vera að gefið sé í skyn, að Parþar kunni að ráðast inn í heimsveldið og bera sigur úr býtum. Kórónan merkir yfirvald og sigurvinning.

Hrossin sem birtast þegar innsiglin eru brotin (Opb 6.1-8) minna á hestana í áttundu sýn Sakaría spámanns (Sak 6.1-6; sjá og Sak 1.7-8).

6.4 annar hestur rauður: Þessi færir stríð og blóðuga byltingu.

6.5 Svartur hestur og sá er á honum sat hafði vogarskálar í hendi sér: Svarti hesturinn á trúlega að tákna mannfelli af völdum matarskorts. (Sjá athugagrein við 6.6; sjá og Sak 6.2,6). Svarti liturinn og dauðinn tvinnast víða saman, enda var talið að ekki sæi handa sinna skil í dánarheimum (Hades) fyrir brúnamyrkri. Sjá athugagrein við 1.18.

6.6 Mælir hveitis…víninu: Rómverskur silfurpeningur, sem nefndist denar, jafngilti daglaunum verkamanns. Fyrir hann mátti í þann tíð kaupa sér átta til sextán sinnum það magn af hveiti, sem um ræðir hér í versinu. Í hallæri rauk svo verðið á hveiti og byggi upp úr öllu valdi. Hér er horft fram til þess tíma þegar skortur verður á algengum fæðutegundum, en gnægð af ýmsu öðru, sem ekki er jafnnauðsynlegt (olía og vín). Áminningin að spilla ekki olíunni og víninu kann að lúta að því, að þessi hungursneyð verði ekki svo langvarandi, að allir íbúar jarðar deyi.

6.8 Bleikur hestur…Dauði, og Hel: Bleikt er litur rotnandi holds. Hér er dregin upp mynd af líkum dauðra manna, sem liggja út um allar jarðir af völdum styrjalda, hungurs og drepsótta, og villidýr rífa í sig náina. „Dauði“ er hér sama og „Hades“ (undirheimar). Þar finnur enginn fyrir neinu; þar ríkir órofin þögn og þar vita menn hvorki í þennan heim né annan. Sjá athugagrein við 1.18 og „Helja„.

6.9,10 sálir…hefnir blóðs vors á íbúum jarðarinnar: Píslarvottarnir spyrja Drottin hvenær hann ætli að dæma þá sem tóku þá af lífi, og refsa þeim. Á þessum dögum hafa margir kristnir menn átt ættingja, vini og nágranna, sem máttu þola fangavist, pyndingar og líflát fyrir þá sök, að þeir neituðu að tilbiðja keisarann.

6.11 hvít skikkja…enn hvílast litla hríð: Sjá athugagrein við 3.4. Þeir, sem dóu píslarvættisdauða, öðluðust hvíld og frið og eilíft líf eftir dauðann. Fleiri munu deyja þannig áður en endirinn kemur.

6.12 hærusekkur: Voð úr hrosshári eða togi, geitarull eða kameldýra, notuð til þess að búa til úr henni mjölpoka (hærusekki). Syrgjendur bjuggust þess konar grófum strigaklæðnaði og jusu ösku yfir höfuð sér.

6.13 fíkjutré: Fíkjutré hafa greinar og lauf, sem ná allt niður á jörðu. Þau geta orðið allt að 9 metrar á hæð og bera ávexti tvisvar á ári. Vorfíkjur þroskast í júní og eru etnar nýjar. Hinar síðvöxnu, haustaldinin, eru tíndar í ágúst og september. Þær voru þurrkaðar á flötum húsþökunum og geymdar til vetrarins. Fíkjur voru drjúgur hluti af daglegri fæðu manna í löndunum kringum Miðjarðarhafið. Eins og vínviðurinn er fíkjutréð tákn friðar og allsnægta.

6.14 bókfell: Sjá athugagrein við 5.1.

6.16 ásjónu hans sem í hásætinu situr og fyrir reiði lambsins: Átt er við Drottin Guð og Jesú Krist (sjá athugagrein við 5.6).

6.17 Hinn mikli dagur: Dómsdagur (sjá athugagrein við 3.10).