5.1 bók: Bókrolla, roðull, þ.e. pappír (papýrus) eða skinn (pergamenti, bókfell unnið úr kinda- eða geitaskinni), sem ritað var á og síðan vafið upp á kefli. Rollunni var gjarnan lokað með einu eða tveimur innsiglum af vaxi.

5.2 sterkan engil…“Hver er þess verður“: Sjá athugagrein við 1.1 (engil sinn). Bókrollan merkir fyrirætlanir Guðs í framtíð. Þær verða að veruleika þegar innsigli bókarinnar er rofið. En enginn maður skilur þær fyrirætlanir né getur hrint þeim í framkvæmd. Það getur aðeins lambið, sjálfur Jesús Kristur.

 5.5 ljónið af Júda ættkvísl: Í 1Mós 49.9 er ættkvísl Júda kölluð ljónshvolpur. Davíð konungur var afkomandi Júda. Sjá og athugagrein við 3.7 (lykil) og Jes 11.1,10.

5.5 rótarkvistur Davíðs: Messíasartitill sbr. Jes 11.1,10.

5.6 sjö andar: Í sumum handritum „andar.“

5.6 lamb: Þótt Jóhannes kunni að hafa búist við að sjá ljón, þá sá hann í staðinn lamb, sem virtist hafa verið slátrað. Jesús Kristur er Guðs lamb, eins og segir í Jóh 1.29. Sú líking er að hluta til byggð á Jes 53.7, þar sem ræðir um hinn líðandi þjón Drottins sem lýkur ekki upp munni sínum fremur en lamb sem leitt er til slátrunar. Hugmyndina um það að Jesús sé lamb sem fórnað hafi verið til þess að friðþægja fyrir syndir mannkynsins er og að finna annars staðar í Nýja testamenti (sjá 1Kor 5.7; 1Pét 1.19).

5.8 verurnar fjórar og öldungarnir tuttugu og fjórir: Sjá athugagreinar við 4.4-10 (Öldungarnir) og 4.6-9 (fjórar verur). Það var til siðs í Rómaborg að þegnarnir féllu á kné frammi fyrir keisaranum. Jóhannes gefur lesendum sínum til kynna, að lambið sé æðra hinu veraldlega yfirvaldi, þar eð verurnar og öldungarnir krjúpa niður og lúta því djúpt.

5.8 reykelsi: Reykelsi er hvítt kvoðukennt efni, sem verður til í vissum trjátegundum í Arabíu. Úr þessu er framleitt verðmætt, ilmandi duft sem notað var í helgihaldi Gyðinga (2Mós 30: 34-38). Reykelsi er m.a. unnið úr myrru, nardus, kanil, ilmkvoðu og salti. Stundum táknar reykelsi bænir safnaðarins, sem berast þá eins og reykelsi fyrir auglit Drottins (Slm 141.2).

5.9,10 keyptir þú Guði til handa…þeir munu ríkja á jörðunni: Ólíkt Guðs börnum til forna, sem urðu að hlýða konungum og prestum, er hinum nýja Guðs lýð fengin völd í hendur („þú gerðir þá að konungum“) og hann getur snúið sér til Guðs án meðalgöngu annarra („þú gerðir þá að…prestum“). Sjá 2Mós 19.6; Opb 1.6. Nýjum söfnuði Guðs heyra eigi aðeins til Ísraelsmenn, heldur og allra þjóða fólk sem trúir á Jesú.

5.14 Amen: Já, það er vissulega satt!