Guð gjörir alla hluti nýja
Guð hefur borið sigurorð af dauða og djöfli. Í sýn Jóhannesar er því nú lýst, er Guð skapar nýjan himin og nýja jörð, og ennfremur nýja Jerúsalem sem táknar endurnýjun gjörvallrar sköpunarinnar. Guð og lambið munu búa hjá fólki sínu, þar sem hvorki er harmur né kvein og dauðinn ekki framar til. Eftir miðju stræti borgarinnar rennur fljót lífsvatnsins. Á báðum bökkum þess grær lífsins tré, sem ber ávöxt árið um kring.
21.1 nýjan himin og nýja jörð: Í þessari sýn er horfin hin fyrri jörð með styrjöldum sínum illsku, sjúkdómum og mengun. Ný jörð kemur í hennar stað.
21.2 nýja Jerúsalem…búna sem brúði: Jerúsalem var miðstöð guðsdýrkunar Ísraelsmanna og þar höfðu þeir reist Drottni musteri. „Helg“ er borgin kölluð, af því að hún var tekin frá handa Guði, enda var musterið með sérstökum hætti bústaður Guðs. Jóhannes sér borgina „stíga niður af himni frá Guði“. Eins kemur Guð „niður“ til þess að búa hjá fólki sínu. Þá er og borginni líkt við brúði, sem er í þann veginn að giftast unnusta sínum (Guði). Tökum eftir því, að í 21.3,4 er ekkert minnst á musteri, því að í hinni nýju Jerúsalem er ekki musteri að finna. Á nýrri jörð undir nýjum himni býr Guð hjá mönnunum, hvarvetna (21.3,22).
21.5 Sá sem í hásætinu sat: Guð (sjá 4.2).
21.8 díkinu sem logar af eldi og brennisteini…hinn annar dauði: Sjá athugagreinar við 9.1 (stjörnu er fallið hafði) og 14.10 (vín…eldi og brennisteini); og athugagrein við 2.11 (sá annar dauði).
21.9 einn af englunum sjö…brúðina, eiginkonu lambsins: Sjá athugagreinar við 15.7 (gullskálar); 19.7 (brúður); og 5.6 (lamb).
21.10 í anda…borgina helgu, Jerúsalem: Sjá athugagreinar við 1.10 (í anda) og 21.2 (nýja Jerúsalem).
21.11,18-21 jaspissteinn…ametýst…skíru gulli: Hinir dýrmætu og fágætu steinar, sem taldir eru upp í þessum versum, eru í ýmsum litum. Jaspis er rauð- eða grænleitt afbrigði af kvarsi; safír er blátt afbrigði gimsteinsins kórúnds; kalsedón (glerhallur) er ofursmákristallað afbrigði af kvarsi; smaragður er fagurgrænn, gagnsær gimsteinn, afar verðmætt afbrigði af berýl; sardónyx er með mislitum rákum; sardis er ýmist skærrauður eða ljósrauður; krýsólít er olífugrænn málmsteinn, notaður til álvinnslu; beryll er grænn eða blágrænn gimsteinn úr kísilsúru beryllíni (frumefni, tákn: Be) og áli; tópas er tær eða hálfgagnsær brún-, gul- eða bláleitur gimsteinn; krýsópras er grænn; hýasint er rauð-appelsínugulur og ametýst er blákvars, fjólublár að lit.
21.12,14 tólf kynkvísla…tólf postula: Sjá athugagrein við 7.5-8 og 18.20. Allir þeir, sem treysta Guði, jafnt Ísraelsþjóðin og kristin kirkja, eiga athvarf í hinni helgu borg.
21.16 Lengd hennar og breidd og hæð voru jafnar: Hér er teningi lýst; sú rúmmynd var álitin hið fullkomna form til forna.
21.22,23 musteri…dýrð Guðs: Sjá athugagrein við 21.2. Fyrrum máttu prestar einir ganga inn í hið heilaga og hið allrahelgasta í musterinu. Í hinni nýju Jerúsalem lofsyngur allur lýðurinn Guði augliti til auglitis.
21.25 Hliðum hennar verður ekki lokað…þar mun aldrei koma nótt: Hliðin eru einlægt opin af því að Guð býður af miskunn sinni alla þá velkomna, sem eiga nöfn sín skráð í lífsins bók. Óþarfi er að loka hliðunum, enda kemst ekkert illt og enginn vondur maður inn í borgina (21.27). Nóttlaus dagsbirtan ber þess vott að öfl myrkurs og illsku hafa verið gjörsigruð í eitt skipti fyrir öll.
21.27 lífsins bók: Sjá athugagrein við 3.5.