13.1 dýr stíga upp af hafinu: Dýrið kann að tákna rómverska heimsveldið, sem sendi herdeildir sínar yfir hafið að ráðast hluta Litlu-Asíu. Höfuðin, hornin og ennisdjásnin eiga líklega að vera rómversku keisararnir, er guðlöstuðu með því að krefjast tilbeiðslu, sem guðir væru. Sjá innganginn að Opinberunarbókinni. Dýrið (Róm og keisarar rómverska heimsveldisins) þiggur vald sitt af drekanum (Satan), 13.4.
13.3 Eitt af höfðum þess: Þetta höfuð táknar vísast rómversku keisarana, baráttu þeirra til þess að öðlast og halda völdum, og orrusturnar mörgu, sem þeir háðu í því skyni.
13.5 fjörutíu og tvo mánuði: Heimsveldi Rómverja skyldi standa í þrjú og hálft ár enn, þ.e. helminginn af hinni heilögu tölu „sjö“, en sú tímalengt jafngildir einmitt 42 mánuðum. Sjá athugagrein við 11.2.
13.6,7 lastmæla Guði…bústað hans…heyja stríð við hina heilögu: Rómverjar lögðu musterið í Jerúsalem í rúst árið 70 e. Kr., en samkvæmt trúarhugmyndum Gyðinga var musterið sjálfur bústaður Guðs á jörðinni. Með því að lastmæla Guði lastmælti dýrið um leið öllum þeim sem strítt höfðu og fallið af tryggð við hann. Keisararnir í Róm og yfirvöldin í skattlöndum þeirra hnepptu í fangelsi og refsuðu harðlega þeim sem neituðu að taka þátt í keisaradýrkuninni.
13.8 lífsbók lambsins: Sjá athugagreinar við 3.5 (bók lífsins) og 5.6 (lamb).
13.11 annað dýr…tvö horn lík lambshornum: Þetta dýr á trúlega að vera landstjóri einn í austurhluta rómverska heimsveldisins, sem skikkaður hafði verið til þess að þröngva fólki, einkum kristnum mönnum, til þess að taka þátt í helgiathöfnum þar sem keisarinn var tilbeðinn eins og guð.
13.13-15 Síðara dýrið gerir tákn mikil…leiðir afvega…dýrinu sem sárið fékk: Þessi undraverk eru að líkindum vandlega undirbúin töfrabrögð til þess að hræra í fólki. Hugsanlegt er að fylgt hafi búktal svo að líkneskin virtust mæla. Þeir sem neituðu að falla fram fyrir hjáguðunum áttu vísa refsingu eða jafnvel líflát.
13.16,17 setja merki á hægri hönd sér…nafn dýrsins: Hér er trúlega um að ræða einhvers konar merki til þess að sýna að viðkomandi tæki þátt í keisaradýrkuninni. Má og vera, að átt sé rómverska, slegna mynt, en á henni var mynd af keisaranum. Ef kristnir menn neituðu að nota myntina, urðu þeir að leggja af rekstur sinn og hætta viðskiptum.
13.18 tölu dýrsins…sex hundruð sextíu og sex: Tala dýrsins táknar misbrest og ófullkomleika af því að sex er hin heilaga tala sjö, en – vel að merkja – að frádreginni tölunni einum. Talan sex er endurtekin þrisvar sinnun til þess að leggja áherslu á hið gallaða og hálfkaraða. Bókstafirnir í stafrófum Grikkja og Rómverja voru einnig notaðir sem tölustafir. Sumir fræðimenn telja, að talan 666 eigi að tákna Neró keisara.