11.1 mælistika: Gríðarmikill reyrstafur hafður fyrir mælikvarða. Reyrinn vex í fenjum og getur orðið allt að 7 metrar á hæð.

11.1 mæl musteri Guðs: Musterið táknar hér samanlagða Guðs kristni. Hún mun verða fótum troðin af heiðingjum, líkt og forgarður musterisins (11.2). Jóhannes á að bregða máli á lýð Guðs til þess að vita hvort hann sé Guði trúr. Sjá 1Kor 3.16; 2Kor 6.16; 1Pét 2.5; Ef 2.21.

11.2 í fjörutíu og tvo mánuði: Herforingjar Alexanders mikla og niðjar þeirra stjórnuðu Palestínu um langt skeið og fluttu með sér gríska (helleníska) menningu. Einn þeirra, af ætt Selevkída (Antíokkus IV. Epífanes) reyndi að þröngva hellenskum lífsháttum upp á Gyðinga. Hann lét koma fyrir líkneskjum af heiðnum goðum í musterinu árið 168 f. Kr. og skipaði heimamönnum að tilbiðja það. Stóð svo í þrjú og hálft ár. Þá ærðist fólkið og gerði uppreisn. Undir forystu Júdasar Makkabeusar vann gyðingaþjóðin sigur á her Antíokkusar, náði musterinu aftur á sitt vald og hreinsaði það. Sjá Dan 12.7.

11.3 tvo votta mína: Ekki er vitað hverjir þeir voru. Olíuviðirnir tveir í 11.4 eru eins og olíuviðirnir í sýn Sakaría spámanns (Sak 4.3,11-14), sem táknuðu „tvo smurða“ (útvalda) er endurreisa skyldu musterið og hreinsa Guðs lýð. Kraftarnir, sem um ræðir í 11.5,6, minna á það þegar Drottinn refsaði fjandmönnum á dögum Elía spámanns (2Kon 1.10; 1Kon 17.1), en leiða og hugann að plágum Egyptalands (2Mós 7.17-19).

11.3 klædda hærusekkjum: Sjá athugagrein við 6.12.

11.7 dýrið, sem upp stígur úr undirdjúpinu: Sjá athugagrein við 9.1 (brunni undirdjúpsins). Dýrið er andstæðingur Guðs lýðs (sjá og 13.11-18).

11.8 borgarinnar miklu…Sódóma og Egyptaland: „Borgin mikla“ er Jerúsalem. Hún var áður borgin, þar sem Guð var í helgidómi sínum, musterinu. En nú, samkvæmt sýn Jóhannesar, er hún orðin tákn hins illa og andstöðunnar við Guð, ekki síður vond og ósiðleg en Sódóma forðum og Egyptaland, sem til forna kúgaði Ísraelsþjóðina (sjá 1Mós 18.16-19.29 og 2Mós 1.)

11.14 Önnur plágan: Fyrsta plágan var hríð eyðileggingarinnar, sem dundi yfir eftir að fimmti engillinn blés í básúnu sína. Önnur plágan var dráp dýrsins á vottum Drottins tveimur.

11.15 Kristur: Jesús, hinn smurði (útvaldi), á grísku „christos“, á hebresku „Messías.“ Sjá „Messías (hinn útvaldi)“.

11.16 öldungarnir tuttugu og fjórir: Sjá athugagrein við 4.4-10.

11.18 tíminn til að dæma hina dauðu: Sjá athugagreinar við 3.10 og 6.17.

11.19 sáttmálsörk: Sáttmálsörkin var tákn návistar Guðs.