Nýja testamentið er síðari hluti Biblíu kristinna manna.  Í ritum þess, 27 að tölu, er haldið áfram að rekja þá sögu Guðs lýðs, sem byrjað var á í Gamla testamenti (trúarriti Gyðinga).  Orðið „testamenti“ er latneskt að uppruna og merkir „vilji“, en það var notað til þess að þýða gríska orðið diatheke sem þýðir „vilji“ eða „sáttmáli“. Gamla testamentið skýrir þannig frá samningnum, sem Guð gerði við Ísraelsþjóðina.  Hann var að verulegu leyti reistur á lögmáli Móse.  Þeir, sem hlýddu raust Guðs og vildu miða lifnað sinn við þetta lögmál, voru lýður hans.  En um það bil 600 árum fyrir Krists burð boðaði Jeremía spámaður „nýjan sáttmála“ byggðan á andlegu samneyti mannsins við Guð sinn (Jer 31:31-34).  Hinir kristnu, sem rituðu Nýja testamentið, notuðu orðin „nýr sáttmáli“ til þess að lýsa þeirri gjörð Guðs að gefa einkason sinn heiminum (1Kor 8:7-13; 9:15-17; 11:25; 12:24-27).  Páll postuli segir, að þessi nýji sáttmáli sé ekki ritaður á bók, heldur gjöf Guðs anda og færi mönnunum nýtt líf  (2Kor 3:6-15; Gal 3:10-14).

Bækur Nýja testamentisins voru samdar á næstu hundrað árunum eftir upphaf aldatals okkar.  Allar fjalla þær með einhverjum hætti um Jesú frá Nasaret.  Hann var af gyðinglegu foreldri, en kristnir menn héldu því fram að hann væri Hinn smurði (útvaldi, „Messías“) og frelsari heimsins (Mark 8:29; 14:61,62; Lúkas 2:11; Jóh 20:30,31; Post 3:18-21). Guðspjöllin fjögur (kennd við guðspjallamennina Matteus, Markús, Lúkas og Jóhannes) segja frá ævi Jesú og kenningu hans, hvert með sínum hætti.  Postulasagan hermir frá prédikun postula Jesú og boðun fagnaðarerindisins fyrstu áratugina eftir upprisu hans.  Af sendibréfunum í Nýja testamenti sést hvernig fólk skildi boðskap Jesú í frumkirkjunni og með hverjum hætti hann var fluttur þegar gleðitíðindin um Jesú tóku fyrst að berast til annarra landa.  Af þeim má líka fræðast um líf og kringumstæður hinna fyrstu kristnu manna. Opinberun Jóhannesar, síðasta riti Nýja testamentisins, lýkur með því að látin er í ljósi sú von, að framtíðin mætti bera í skauti sér nýja veröld Guðs, nýjan himin og nýja jörð.

Ekki er unnt að segja nákvæmlega til um aldur einstakra rita Nýja testamentisins, en flestir fræðimenn hallast að því að sum Pálsbréfanna muni þeirra elst. Guðspjöllin og Postulasagan urðu til síðar.  Markúsarguðspjall, sem talið er elsta guðspjallið, var trúlega skrifað ekki löngu eftir að Rómverjar lögðu musterið í Jerúsalem í eyði árið 70 e. Kr.

Þótt Jesús og lærisveinar hans hafi talað arameísku, voru rit Nýja testamentis upphaflega skrifuð á „hversdags“-grísku þess tíma. Höfundarnir þekktu til grískrar þýðingar á helgiritum Gyðinga (sem kölluð er Septúaginta).  Margar tilvitnanir í Nýja testamenti eru teknar orðrétt úr þeirri þýðingu, en öðrum var snúið á grísku úr hebreskunni sem er tungumál Gamla testamentis.  Frumhandrit Nýja testamentis létu fljótlega á sjá, skemmdust eða voru eyðilögð einhvern tíma í fyrndinni.  En um allar aldir skrifuðu menn textann sífellt upp, æ að nýju.  Elsta eintakið af gríska Nýja testamentinu í heild sinni er frá fjórðu öld, en elsta handrits-brotið sem varðveist hefur er frá því kringum 125 e. Kr.  Fræðimenn á sviði biblíuvísinda hafa haft mikið gagn af fornum þýðingum á ritum Nýja testamentis á koptísku, sýrlensku og latínu.  Meira en þrjú hundruð ár liðu áður en ritin 27, sem Nýja testamenti okkar samanstendur af, urðu það viðurkennda helgiritasafn, sem við höfum búið við síðan og allt fram á þennan dag.

Guðspjöllin og Postulasagan

Guðspjöllin fjögur (kennd við Matteus, Markús, Lúkas og Jóhannes) segja hvert sína sögu af lífi og starfi Jesú Krists.  Postulasagan hermir frá því af mikilli nákvæmni sem dreif á daga sumra af fyrstu lærisveinum Jesú þegar þeir héldu frá Jerúsalem til annarra landa rómverska heimsveldisins að breiða út boðskapinn um hann.

Orðið „guðspjall“ er skylt gamla, enska orðinu „gospel“ sem þýðir „góðar fregnir“.  Gríska orðið sem við þýðum með orðinu „guðspjall“ er evangelion(sjá Mark 1:1).

Guðspjöllin voru líklega skrifuð upp í núverandi mynd sinni á kringum sextíu ára bili eftir að Jesús var krossfestur.  Þar sem Jesús lét sjálfur ekki eftir sig neitt skrifað, rekja guðspjöllin frásagnir og lýsingar sjónarvotta á atburðum, sem gengið höfðu manna á milli árum saman.  Í fyrstunni voru lærisveinarnir svo áfram um að flytja öðrum boðskapinn um Jesú að þeir hirtu ekki að skrifa upp það sem hann hafði sagt og unnið.  En svo liðu árin og hinir fyrstu lærisveinar eltust og dóu. Og þá varð ljóst að nú reið á að eiga á bókum frásögnina af því sem Jesús gerði og kenndi, og hvernig dauða hans bar að höndum og að Guð reisti hann aftur til lífsins.

Þótt önnur fleiri guðspjöll um Jesú væru skrifuð og þeim dreift, voru engin nema Matteusar-, Markúsar-, Lúkasar- og Jóhannesarguðspjöll talin alveg ábyggileg og var það samþykkt af allri kirkjunni með afli atkvæða. Ekki er vitað fyrir víst hverjir skráðu þessi fjögur guðspjöll, af því að rithöfundarnir láta sín að engu getið.  Sennilegast er að þau hafi verið samin af mönnum, sem voru meðal fyrstu eftirfylgjenda Krists og höfðu sjálfir heyrt einn eða fleiri af lærisveinum hans segja frá.

Efni guðspjallanna er greinilega sótt í margar heimildir. Einkum munu höfundarnir hafa búið að skrám yfir ummæli Jesú og uppskriftum á frásögnum af honum.  Margt af því sem haft er eftir Jesú er mjög keimlíkt hjá Matteusi og Lúkasi.  Það bendir til þess að þeir hafi haft aðgang að sömu heimild.  Þá virðast þeir líka báðir hafa haft Markúsarguðspjall til hliðsjónar við byggingu rita sinna.  En þeir Matteus og Lúkas hafa greinilega haft undir höndum tvær ólíkar frásagnir af fæðingu Jesú, enda getur Markús bernsku Jesú að engu.  Í guðspjöllum Matteusar, Markúsar og Lúkasar er svo mikið af sameiginlegu efni og gerð ritanna þriggja er svo lík innbyrðis, að þau eru stundum nefnd „synoptísku“ (samstofna) guðspjöllin (af gríska orðinu synopisis sem þýðir „að sjá saman“).

Samstofna guðspjöllin líkjast miklu meira hvert öðru heldur en nokkurt þeirra aftur Jóhannesarguðspjalli.  Matteus, Markús og Lúkas herma mest frá kenningu Jesú, er hann flutti opinberlega í Galíleu, og frá kraftaverkum hans.  En Jóhannes kann frá ýmsu að segja, sem Jesús tók sér fyrir hendur í upphafi starfsferils síns í Júdeu.  Hann heldur líka til haga ýmsum orðum Jesú,  sem ekki er að finna í hinum guðspjöllunum þremur.  Þar á meðal eru hin svonefndu „ég er“ ummæli hans, eins og t.d. „ég er brauð lífsins“ (Jóh 6:35) og „ég er ljós heimsins“ (Jóh 8:12).  Og röð atburða í ævi Jesú er ekki hina sama í Jóhannesarguðspjalli og samstofna guðspjöllunum.  Ekki skráir Jóhannes heldur neina af þeim sögum, sem Jesús sagði (dæmisögum) og getur að lesa hjá hinum guðspjallamönnunum.  Nánar er fjallað um sérkenni guðspjallanna í innganginum að hverju og einu þeirra.

Þótt ekki sé vitað hver ritaði Postulasöguna eru fræðimenn sammála um að það sé sami höfundurinn og skráði Lúkasarguðspjall.  Í upphafsorðum beggja verkanna kemur fram að þau séu ætluð manni að nafni Þeófílus (Lúkas 1:1-4; Post 1:1).  En auk þess er stíllinn á grískunni í þessum ritum nær bókmáli heldur en í hinum guðspjöllunum og raunar nokkru öðru riti í Nýja testamenti. Efnislega eiga þau líka margt sameiginlegt er bendir til eins og sama höfundar.  Betur er greint frá þessu í formálsorðum fyrir Lúkasarguðspjalli og Postulasögunni.

Bréf  Páls postula

Sum Pálsbréfin eru elsta efni Nýja testamentisins. Þau eru skrifuð á árunum 50 til 60 e. Kr., áratugum á undan guðspjöllunum, Postulasögunni og öðrum ritum Nýja testamentisins.

Páll var hálærður í helgiritum Gyðinga og farísei, en þeir voru flokkur manna sem kenndi lögmál Drottins og vildi af fremsta megni lifa eftir því (Gal 1.14; Fil. 3.5).  Í bréfum sínum viðurkennir Páll, að hann hafi í eina tíð ofsótt söfnuð Jesú, „kirkjuna“, af því að hann taldi að húna gerði lítið úr lögmáli Drottins og kysi heldur lifa eftir nýrri kenningu Jesú.  En þegar Guð sýndi Páli hver Jesús var (Gal 1.15,16), fór hann að prédika og boða fagnaðarerindið um Jesú.

Í bréfum sínum kemur Páll aftur og aftur að nokkrum meginatriðum.   Hann segir t.d. í Róm 3.24-26:  „Guð bendir á blóð hans (Krists) sem sáttarfórn þeim sem trúa.“  Og ennfremur:  „Guð réttlætir þá (mennina), án þess nokkur verðskuldi það.“ Hann segir líka, að enginn réttlætist með því einu  að hlýða lögmálinu (Gal 3.11; Róm 3.23), eða með öðrum orðum:  „Maðurinn réttlætist ekki af lögmálsverkum heldur fyrir trú á Jesú Krist“ (Gal 2.16).  Þeir sem treysta Jesú njóta ekki einungis góðs af fórn hans, heldur verða þeir líka hluttakendur í því nýja lífi, sem hann öðlaðist þegar hann var reistur upp frá dauðum (Róm 6.5-11).  Páll brýndi fyrir kristnum mönnum að lifa í heilögum anda, sem gefur þeim margvíslega náðargáfur til þess að þeir geri öðrum gagn (Róm 12.6-21; 1Kor 12-13; Gal 5.16-25).  Hann vænti endurkomu Drottins (Fil 3.20; 4.5; 1Þess 4.13-18), og hvatti lærisveina Jesú til þess að lifa eins og hann kynni að birtast á hverri stundu (1Þess 5.1-8; 1Kor 7.29-39).

Páll postuli er efalaust höfundur að nær helmingi af ritum Nýja testamentisins.  Hann er nefndur á nafn í heilsun þrettán bréfanna, sem við hann eru kennd, en ýmsir fræðimenn telja þó að hann muni ekki hafa skrifað þau öll.  Þeir eru þó allir samdóma um það, að Páll hafi ritað Rómverjabréfið, Fyrra og Síðara Korintubréf, Galatabréfið, Filippíbréfið, Fyrra Þessaloníkubréf og Fílemonsbréfið.   Þrjú bréf til viðbótar hafa inni að halda margar meginkenningar Páls, en í þeim verður auk þess vart hugmynda, sem ekki er að finna í bréfunum sjö, sem öruggt er álitið að Páll hafi skrifað.  Þetta, og auk þess annar og ólíkur ritstíll og orðaforði, hefur orðið til þess að sumum nýjatestamentisfræðingum hafa komið til hugar aðrir höfundar að Efesusbréfinu, Kólossubréfinu og Síðara Þessaloníkubréfi.  Þá   er í efni hirðisbréfanna þriggja (Fyrra og Síðara Tímóteusarbréfs og Títusarbréfsins) gert ráð fyrir kringumstæðum safnaðarleiðtoga, sem ekki komu upp fyrr en einni eða tveimur kynslóðum eftir að Páll var allur, þegar söfnuðum og safnaðarfólki hafði fjölgað.  Þótt venja sé að líta svo á, að Páll hafi ritað þessi bréf og þau séu raunar kennd við hann, þá er meira en líklegt að höfundar þeirra séu menn sem voru gagnkunnugir skrifum Páls og kenningum hans og vildu heimfæra það sem þeir höfðu af honum lært upp á nýjar aðstæður og áður óþekkt vandamál, sem upp komu í söfnuðunum þegar tímar liðu fram.  Sjá nánar innganginn að bréfunum.

Það leikur ekki á tveim tungum, að Páll postuli var langáhrifamestur forystumaður kristninnar í frumkirkjunni.  Hann kenndi og prédikaði mjög víða í löndunum kringum Miðjarðarhaf. Sum af bréfum sínum skrifaði hann fólki og söfnuðum sem hann hafði þegar kynnst á ferðum sínum og boðað fagnaðarerindið um Jesú Krist.  Önnur sendi hann mönnum sem hann vonaðist til að eiga eftir að hitta síðar.  Þessi óviðjafnanlegu bréf veita okkur innsýn í daglegt líf og hugsun manna í frumkirkjunni, fólks, sem reyndi af fremsta megni að komast til skilnings á því hvaða merkingu Jesús og kenning hans hefði í þessum heimi og hinum komanda.  Guðfræði Páls speglar menningu og mannfélag samtíma hans.  Hún birtir okkur  skilning hans á helgiritum Gyðinga og þekkingu hans á grískri heimspeki.  Páll nýtti allt sem hann vissi og allt sem hann hafði reynt til þess að prédika fagnaðarerindið um Jesú Krist.  Hann leit réttilega svo á, að hann hefði verið útvalinn til þess að útbreiða „kraft Guðs sem frelsar hvern þann mann sem trúir“ (Róm 1.16).

Almennu bréfin og Opinberunarbók Jóhannesar

 Síðustu níu rit Nýja testamentis eru sundurleit verk ýmissa höfunda.  Hin fyrstu átta (frá Hebreabréfinu til og með Júdasarbréfi) eru oft nefnd almennu bréfin.  Sum þeirra eru í formi sendibréfs líkt og bréf Páls postula.  Svo er um Jakobsbréfið, Fyrra og Síðara Pétursbréf, Annað og Þriðja Jóhannesarbréf og Júdasarbréfið.  Hebreabréfið er líka talið með, af því að ritinu lýkur með fyrirbæn og hefðbundnum kveðjum, en í raun er það miklu líkara mikilfenglegri prédikun eða jafnvel röð prédikana.  Fyrsta Jóhannesarbréf hefst ekki á venjulegri heilsun eins og tíðkaðist að hafa í sendibréfum, en um leið og bréfritari veitir lesendum sínum ýmsa ráðgjöf, ávarpar hann þá mjög innilega, eins og þegar vinur skrifar vinum.

Til þess að hinir fyrstu kristnu menn samsamist ekki með öllu  fjölskrúðugu umhverfi sínu í andlegum og veraldlegum efnum, eru lesendur Almennu bréfanna mjög varaðir við villukennendum (2Pét 2.1-3; 1Jóh 2.18-26; 4.1,2; Júdas 3.13), hvattir til heilags lífernis og góðra verka (Jak2.14-26; 1Pét 1.13-16; 2Pét 1.5-11) og minntir á að elska hver annan (Heb 13.1,2; 1Jóh 3.11-19; 2Jóh 5,6).  Þeir eru kallaðir  útvalinn „Guðs lýður“ (Heb 3.1; 1Pét 2.9,10), en er ítrekað að útvalningin þýði ekki, að þeir komist hjá þjáningum ellegar að yfir þá komi ekki mörg eldraunin (Heb 13.3; Jak 1.12; 1Pét 1.5-7; 3.13-17; 4.12-14).  Ofsóknir Rómverja á hendur hinum kristnu munu hafa stóraukist á ofanverðri fyrstu öldinni eftir Krists burð, þegar Domitíanus var keisari. Í mörgum almennu bréfanna er fjölyrt um þrengingarnar, sem kristnir menn urðu að þola á þessum tímum, og má af því ráða að þau hafi verið skrifuð á síðustu áratugum fyrstu aldarinnar eða stuttu síðar.

Af Opinberunarbók Jóhannesar verður sérstaklega ljóst hversu stirt var á milli hinna kristnu og andstæðinga þeirra.   Greint frá vitrunum Jóhannesar á Patmos-eyju og þar er og að finna nokkur bréf, sem rituð voru söfnuðunum í Litlu-Asíu (Opb 2,3).  Ritið er dæmi um svonefnd opinberunarrit, er byggjast að nokkru á eldri ritum Gyðinga af líku tagi, svo sem Daníel og Esekíel.  Í þessum bókmenntun er lýst sífelldri baráttu á milli Guðs og illra afla og tekið fram, að Guð bera hærra hlut að lokum. En á meðan endanlegur sigur hefur ekki enn verið unninn, mega þeir sem fylgja Guði að málum búast við snörpum andbyr og jafnvel lífláti af hendi fjandmanna hans.  Í opinberunarritunum úir og grúir af sýnum, sláandi táknum og stórbrotnum líkingum, og eru dýrin í 13. kapítula gott dæmi um það.  Þetta torræða efni áttu Guðs vinir að skilja, en andstæðingarnir ekki.  Annað dæmi um þetta „dulmál“ er sú forna borg, „Babýlon hin mikla“ (Opb 17.5-18.24).  Kristnir lesendur Opinberunarbókarinnar fóru ekki í grafgötur um það, að átt var við Róm, sem þeir töldu orðið mikinn óvin Guðs og barna hans.

Eins og í mörgum öðrum ritum af þessari tegund er í Opinberunarbók Jóhannesar að finna feiknlegar lýsingar á efsta dómi. Megintilgangur slíkra rita er samt að glæða von hinna kristnu og hvetja þá til þess að falla ekki frá á róstutímum. Í lokaköflum bókarinnar er dregin upp stórkostleg mynd af nýjum himni Guðs og nýrri jörð hans við endi aldanna.