Orð skulu standa segir gamalt máltæki. Loforð ber að halda. Lesið Matteusarguðspjall með það í huga, að Guð efndi ævafornt heit er hann sendi Jesú til þess að verða frelsari heimsins.
Sérkenni Matteusarguðspjalls
Svo sem við á um guðspjöllin öll segir Matteusarguðspjall frá lífi og kenningu Jesú. Það fjallar líka um það hvað í því felst að tilheyra Guðs lýð. Ennfremur er að finna í guðspjallinu leiðbeiningar um Guði þóknanlegt líferni.
Hvers vegna var Matteusarguðspjall samið?
Höfundur Matteusarguðspjalls hafði í huga lesendur gagnkunnuga helgiritum Gyðinga, sem kristnir menn nefna Gamla testamenti. Hann kemur að því aftur og aftur hve ákaflega menn væntu Messíasar Guðs, að því er lesið verður í þessum fornu textum, og hann segir Jesú vera þennan fyrirheitna frelsara.
Hvert er baksvið Matteusarguðspjalls?
Samkvæmt guðspjalli Matteusar byggir boðskapur Jesú á lögmáli og kenningum Gamla testamentis. Móse hafði af Guði verið birt lögmálið á Sínaífjalli, þau boðorð, sem ísraelska þjóðin skyldi hafa í heiðri. Í Matteusarguðspjalli er varðveitt Fjallræða Jesú. Þar stígur Jesús upp á fjall og leggur fyrir áheyrendurna hversu þeir skuli haga lífi sínu samkvæmt vilja Guðs. Sá hluti Matteusarguðspjalls sem segir frá starfi Jesú og kenningu hans er í fimm köflum alveg eins og lögmál Móse í Gamla testamenti eru fimm bækur: Genesis, Exodus, Leviticus, Numeri og Deuteronomium. Matteusi er í mun að sýna fram á að árhundruðum áður en Jesús fæddist höfðu spámenn Ísraels sagt fyrir um margt af því sem hann sagði og gerði og hann segir Jesú orða upp á nýtt þá von að allar þjóðir mættu verða hluttakendur í trú Ísrales (t.d. Jes 2:2,3). Boðskapur Jesú var líka nýr að því leyti að hann stóð öllu fólki til boða, ekki aðeins þeim sem lifðu eftir lögmáli Móse. Jesús vildi kenna öllum að treysta Guði, þjóna honum og elska náungann.
Hvernig er Matteusarguðspjall sett saman?
Eftirfarandi efnisyfirlit Matteusarguðspjalls sýnir byggingu þess:
- Jesús, Hinn smurði Drottins (Messías), er sendur af Guði (1:1-4:11)
- Uppruni Jesú (1:1-2:23)
- Greiðið Jesú veg (3:1-4:11)
- Jesús boðar fagnaðarerindið í Galíleu og Júdeu (4:12-25:46)
- Jesús prédikar og kallar fyrstu lærisveinana (4:12-25)
- Jesús kennir á fjallinu (5:1-7:29)
- Jesús læknar marga og vinnur kraftaverk (8:1-9:38)
- Jesús sendir postulana tólf (10:1-42)
- Jesús svarar spurningum andstæðinga sinna (11:1-12:50)
- Jesús segir dæmisögur um Guðs ríki (13:1-58)
- Jesús er Hinn smurði Drottins, Messías (14:1-17:27)
- Jesús fræðir þá sem fylgja honum (18:1-34)
- Jesús frammi fyrir andstæðingum sínum í Júdeu (19:1-23:39)
- Jesús prédikar um komandi Guðs ríki (24:1-25:46)
- Jesús deyr og er reistur upp frá dauðum samkvæmt fyrirætlun Guðs (26:1-28:20)