Jesús læknar marga og vinnur kraftaverk

Jesús heldur áfram starfi sínu í Galíleu. Hann læknar marga og vinnur mörg kraftaverk. Hann velur Matteus til þess að verða einn af lærisveinum sínum.

8.2-4 líkþrár…þeim til vitnisburðar: Líkþráan mann varð prestur að skoða og úrskurða að honum væri bötnuð líkþráin (hann orðinn „hreinn“). Fyrr var honum ekki heimilt að hafa umgengni við þá sem heilbrigðir voru. Síðan skyldi hann færa tvö lömb að fórnargjöf, ásamt mjöli blönduðu ólífuolíu. Sjá 3Mós 14.1-32 og athugagrein við 10.8 (líkþrá).

8.5 Kapernaúm:Sjá athugagrein við 4.13.

8.5 hundraðshöfðingi:Rómverskur liðsforingi, sem þjálfaði og stýrði sveit hundrað hermanna, sem voru reiðubúnir að berjast og falla að skipun hans. Hundraðshöfðingar skyldu þjóna aldarfjórðung í hernum.

8.11 sitja til borðs…í himnaríki:Hér er því líkt við veislu og hátíðarhöld, er Guð mun í framtíð safna saman öllum þeim sem treysta Jesú, ekki aðeins fólki af gyðingaættum, heldur líka öllum þjóðum. Sjá og Jes 25.6-8; Lúk 13.29.

8.12 myrkur:Þetta orð bregður upp annarri mynd af staðnum þar sem þeim verður refsað sem gjöra illt. Sjá athugagrein við 5.22.

8.14 Péturs:Sjá athugagrein við 10.2 (Pétur).

8.16 Illu andana rak hann út:Illir andar í þjónustu djöfulsins. Menn töldu þá valda margs konar sjúkdómum og geðtruflunum.

8.19 fræðimaður:Kennari, sem fræddi um lögmál Móse, sérfræðingur í helgiritum gyðinga. Fræðimennirnir rannsökuðu ritningarnar og útskýrðu lögmálið til þess að fólk kæmist að raun um hvernig lifa bæri lífinu.

8.20 Mannssonurinn:Vera má, að Jesús sé að kveða skýrt á um að hann sé manneskja af holdi og blóði, þegar hann kallar sig Mannsson. Meira um þetta í „Mannssonurinn.

8.22 lát hina dauðu jarða sína dauðu: Gyðingum hefur alltaf verið mikið í mun að búa látnum virðulega útför. Hér er Jesús hugsanlega að benda á, að það að fylgja sér eftir sé jafnvel enn þýðingarmeira en að tryggja dauðum góða jarðarför.

8.28 byggð Gadarena (Í sumum handritum Gergesa, í öðrum Gerasa.)var fyrir austan ána Jórdan og fyrir sunnan Galíleuvatn. Íbúarnir voru flestir Grikkir svo sem sást á byggingum þeirra og lífsháttum.

8.28 gröfunum:Grafir í Palestínu voru stundum höggnar inn í mjúka veggi kalksteinskletta. Þær voru því líkar hellum og rúmuðu jarðneskar leifar margra.

8.30 mikil svínahjörð: Samkvæmt lögmáli Móse voru svín talin „óhreinar“ skepnur og því var bannað að eta svínakjöt (3Mós 11.4-8; 5Mós 14.8). Þessi mikla svínahjörð sýnir að í byggð Gadarena hafa fæstir íbúanna verið gyðingar. Sjá og „Hreinsanir (hreint og óhreint)“.