26.2 páskar: Páskar eru haldnir hátíðlegir til minningar um brottförina úr þrælahúsinu í Egyptalandi (2Mós 12.1-27). Hátíðin hefst í ljósaskiptunum á 14. degi fyrsta mánaðarins. Daginn eftir hófst hátíð ósýrðu brauðanna og varði í sjö daga (3Mós 23.4-8; 4Mós 28:16-25). Sjá og „Páskar og hátíð ósýrðu brauðanna“.
26.3 Æðstu prestarnir og öldungarnir…í höll æðsta prestsins: Rómverjar settu Kaífas til þess að vera æðsti prestur í Jerúsalem og gegndi hann embættinu frá 18 til 26 e. Kr. Starf hans var fólgið í því að hafa eftirlit með musterisprestunum auk þess sem hann var oddviti hins valdamikla ráðs sem í sátu heldri klerkar og fleiri leiðtogar gyðinga. Rómversku stjórnvöldin létu þessu ráði að mestu eftir heimastjórnina.
26.5 „Ekki á hátíðinni“: Margir af meðhaldsmönnum Jesú og þeim sem hrifust af kenningu hans mundu staddir í Jerúsalem að halda páskahátíðina. Leiðtogarnir vildu síður að sá mannfjöldi allur sæi Jesú tekinn höndum. Þeir óttuðust að þá kynni að verða uppþot meðal fólksins.
26.6 Betaníu: Sjá athugagrein við 21.17. Líkþráa: Sjá athugagrein við 10.8.
26.12 hellti þessum smyrslum…búa mig til greftrunar: Sjálfsagt þótti að búa hinum dauðu virðulega útför. Það var kallað „smurning“ þegar olía eða ilmsmyrsl voru borin á líkama manns (sjá athugagrein við 1.17, „Messías“). Stundum voru lík búin til greftrunar með því að smyrja þau með olíu og kryddjurtum til þess að tefja fyrir rotnun. Jesús kvað konuna undirbúa greftrun sína, en verknaður hennar minnir einnig á að Jesús er „hinn Smurði Drottins“.
26.14 Júdas Ískaríot: Sjá athugagrein við 10.4.
26.17 fyrsta degi ósýrðu brauðanna….páskamáltíðina: Sjá athugagrein við 26.2.
26.26-28 þetta er líkami minn…Þetta er blóð mitt: Á páskum var lambi fórnað og kjötsins neytt við hátíðarmáltíðina. Jesús notar brauð og vín sem tákn um fórnardauða sinn til fyrirgefningar syndanna. Á þeirri fórn rís hinn nýi sáttmáli milli Guðs og nýs lýðs hans. Kristnir menn minnast þessa atburðar með kirkjulegri athöfn sem kallast altarisganga, altarissakramenti, heilög kvöldmáltíð eða þakkargjörðarmáltíð.
26.30 Olíufjallsins: Sjá athugagrein við 24.3.
26.36 Getsemane: Orðið Getsemane er útlagt „olíupressa“. Ekki er vitað með vissu, hvar þessi trjágarður var, en líklegast var hann í námunda við Olíufjallið að austanverðu í Kedron-dalnum.
26.39 fari þessi kaleikur fram hjá mér: Sjá athugagrein við 20.22.
26.48 Sá sem ég kyssi: Alsiða var að vinir heilsuðust með því að kyssa hvor annan á vangann.
26.50 hví ertu hér? Eða: „Gerðu það, sem þú ætlaðir þér.“
26.57,58 til Kaífasar æðsta prests….að garði æðsta prestsins: Sjá athugagrein við 26.3 Orðið, sem hér er þýtt með „garður“ er stundum útlagt „höll“. Með því að þýða eins og hér er gert má skilja að Pétur hafi fylgt Jesú að húsagarði æðsta prestsins. Atburðirnir sem lýst er í þessum versum tveimur gerast því á einum og sama stað.
26.59,60 allt ráðið…..Loks komu tveir:Ráðið var, auk æðstu prestanna, skipað heimastjórnarmönnum og trúarleiðtogum gyðinga. Það réði sérmálum þjóðarinnar og skyldi jafnframt sjá til þess að lögunum væri hlýtt. Lögmál Móse mælti svo fyrir, að ekki mætti lífláta mann, nema framburður tveggja vitna um sekt hans lægi fyrir (sjá 4Mós 35.30).
26.63 Kristur, sonur Guðs: Sjá athugagrein við 1.17 (Messías). „Sonur Guðs“ var einn af konungstitlunum í Ísrael.
26.64 til hægri handar:Sjá athugagrein við 20.21.
26.65 reif æðstipresturinn klæði sín:Svo var kveðið á í lögmáli Móse, að æðsta prestinum væri óheimilt að syrgja með því að rífa klæði sín (sjá 3Mós 10.6; 21.10; 24.16). En hér kastaði tólfunum, að æðsta prestinum þótti. Hann skildi Jesú svo, að hann segðist vera sjálfur Guð, en slíkt var ægileg synd að Móselögum. Fyrir slíkt athæfi (guðlast) mátti dæma mann til dauða.