24.1,2 helgidómsins…ekki steinn yfir steini:Musteri Heródesar í Jerúsalem. Það var hlaðið úr höggnu grjóti og voru sumir steinarnir nær tíu metrar á lengd. Ummál þess var rúmlega hálfur annar kílómetri og það stóð á sömu traustu undirstöðu og musteri Salómons konungs níu öldum fyrr. Árið 70 e. Kr. hernámu Rómverjar Jerúsalemsborg og lögðu musteri Heródesar í rúst.
24.3 Olíufjallinu:Olíufjallið, skammt fyrir austan musterissvæðið í Jerúsalem, er fjögurra kílómetra langur hryggur og hluti af fjallgarði sem liggur eftir endilangri Palestínu. Nafn sitt dregur það af olíuviði sem dafnar í sólríkum hlíðum þess.
24.15 viðurstyggð eyðileggingarinnar:Hér ítrekar Jesús spádóm Daníels (sjá Dan 9.27; 11.31; 12.11). Antíokkus IV. Epífanes, konungur á Sýrlandi, reisti Seifi, sem var æðstur guða með Grikkjum og Rómverjum, altari í musterinu árið 168 f. Kr. Gyðingar náðu helgidóminum á sitt vald aftur áður en þrjú ár voru liðin frá þessari vanhelgun og mölvuðu hið heiðna altari.
24.17 uppi á þaki:Í Palestínu tíðkuðust flöt húsþök. Upp á þau lágu tröppur utan á húsunum. Þökin voru gerð úr bjálkum eða röftum og hrís og greinar lagt yfir. Þetta var síðan þakið með leir og mold og troðið þar til það varð að harðri og þéttri skán. Þegar fólk vildi komast út undir bert loft fór það ýmist út í húsagarðinn eða upp á þakið.
24.20 um vetur eða á hvíldardegi:Vetur í Palestínu eru löngum kaldir og votviðrasamir og voru því fyrr meir lítt fallnir til ferðalaga. Gyðingur, sem vildi vera hlýðinn lögmáli Móse, mátti ekki ferðast lengra en vel innan við eins kílómetra vegalengd á hvíldardeginum. Það var því ekki hlaupið að því að flýja undan óvinum, hvorki að vetri til né á sabbatsdaginn.
24.23-26 Kristur:Sjá athugagrein við 1.17.
24.27 Mannssonurinn: Sjá athugagrein við 8.20.
24.28 Þar munu ernirnir safnast sem hræið er:Hér er átt við hræfugla. Þeir eru fljótir að koma auga á dauða skepnu. Þessi ummæli gætu merkt að ill tíðindi eru óðara á allra vitorði og þá skunda forvitnir á vettvang. En rómverski herinn hafði líka mynd af erni í skjaldarmerki sínu og má því vera, að orðunum sé beint til hans.
24.29 stjörnurnar munu hrapa:Til forna var því trúað að stjörnur himinsins væru goðmögn.
24.32 fíkjutrénu: Sjá athugagrein við 7.16.
24.37 á dögum Nóa:Nói var grandvar og réttlátur maður. Guð fól honum að smíða stórt skip (örk) til þess að bjarga mannkyninu og öllum skepnum jarðarinnar frá tortímingu í syndaflóðinu.