23.4 binda þungar byrðar og leggja mönnum á herðar:Farísear og fræðimenn (lögmálskennarar) kenndu fólki að fara eftir lögmálinu og þjóna þannig Guði. Reglur lögmálsins voru ýmsum erfiðar og þungbærar. Jesús segir, að þessum kennurum sé tamt að brýna reglur fyrir öðrum, án þess þó að hjálpa þeim að halda þær.
23.5 breikka minnisborða sína og stækka skúfana:Margir rétttrúaðir gyðingar höfðu í heiðri 5Mós 11.18 og báru á sér skrifuð ritningarvers í litlum leðurhylkjum. Sumir farísear í samtíma Jesú kunna að hafa reynt að ganga í augun á fólki með því að hafa hylkin stærri en þurfti. Skúfar voru settir á fald sumra klæða og áttu menn að minnast boða Drottins þegar þeim varð litið á skúfana. Sjá og 5Mós 6.8; 4Mós 15.38.
23.13,14 Sum handrit sleppa 14. versinu.
23.23 Þér gjaldið tíund af myntu, anís og kúmeni:Fræðimennirnir hlýddu lögmálinu og skiluðu Drottni tíundahluta afraksturs jarðyrkjunnar (sjá 3Mós 27.30; 5Mós 14.22), jafnvel líka tíund af kryddjurtum í görðum sínum. En Jesús segir að miklu meira ríði á að rétta öðrum hjálparhönd.
22.34 síið mýfluguna en svelgið úlfaldann:Flugur (rykmý) voru allra kvikinda smæstar, en úlfaldar stærstir (3Mós 11.20-33; 3Mós 11.4).
23.25 hreinsið bikarinn og diskinn utan:Jesús vísar hér til eins hinna mörgu hreinsunarsiða sem farísear og fræðimenn höfðu í heiðri. Sjá og Mrk 7.3,4.
23.27 hvítum kölkuðum gröfum:Grafir voru hvítþvegnar til þess að hafa þær svo áberandi að engum yrði á að snerta þær. Sá sem kom við gröf varð óhreinn og mátti ekki taka þátt í helgihaldinu eða umgangast nágranna og vini fyrr en hann hafði gengist undir sérstaka hreinsunarathöfn samkvæmt ákveðnu ritúali. Sjá og Post 23.3.
23.29 Þér hlaðið upp grafir spámannanna:Fornleifafræðingar hafa fundið menjar um minningamörk sem reist voru í Palestínu á dögum Jesú spámönnum til heiðurs.
23.35 Abels….Sakaría:Í Fyrstu Mósebók (Genesis), sem er fyrsta ritið í Gamla testamenti, segir frá Abel, syni Adams og Evu, sem myrtur var fyrstur manna (1Mós 4.1-16). Síðari Kroníkubók er síðust í helgiritasafni Hebrea. Síðasta mannvíg sem sagt er frá í ritinu var drápið á Sakaría, bróður Jórams konungs (2Kro 24.20,21).
23.37 grýtir þá sem sendir eru til þín:Óvíst er hvaða spámenn Jesús hefur í huga hér, sjá þó 1Kon 19.10; Jer 2.30; 26.20-23. Dauðasekir menn í Ísrael voru teknir af lífi með því að þeir voru grýttir.