12.1 fór Jesús um sáðlönd:Það var til siðs í Ísrael að leyfa soltnum ferðalöngum að tína kornöx sem höfðu orðið eftir á akrinum um uppskeruna.

12.1 á hvíldardegi:Að hvílast, hætta að vinna, er á hebresku „sabbat.“ Sabbatinn er hvíldardagur gyðinga og hefst við sólsetur á föstudagskvöldi og lýkur þegar sól sest laugardaginn eftir. Allir gyðingar urðu að virða hvíldardagshelgina (2Mós 20.8-11). Hér sést að sumir farísear töldu það vera starf að tína kornöxin og þess vegna vanhelgun á hvíldardeginum.

12.2 farísear:Sjá athugagrein við 16.1.

12.3 hvað Davíð gerði:Jesús rifjar hér upp að prestur gaf Davíð konungi og fylgdarmönnum hans heilagt brauð (skoðunarbrauð) úr musterinu af því að þeir voru hungraðir á ferð (3Mós 24.5-9; 1Sam 21.1-6).

12.8Mannssonurinn:Sjá athugagrein við 8.20.

12.14 farísearnir….tóku saman ráð sín gegn honum:Farísear nutu virðingar margra gyðinga af því að þeir lögðu stund á lögmál Drottins og leiðbeindu öðrum um það hversu þeir skyldu haga lífi sínu samkvæmt því. Þegar Jesús bauð skoðunum þeirra og kennivaldi birginn ákváðu sumir faríseanna að koma honum fyrir kattarnef af því að þeir álitu að hann ógnaði veldi þeirra og stöðu í samfélaginu.

12.16 lagði ríkt á við þá að þeir gerðu hann eigi kunnan:Þegar Jesús læknaði, bað hann oft viðkomandi að gera ekkert uppskátt um það. Ef til vill gerði hann það til þess að aðrir kæmu ekki þá til hans í þeim tilgangi einum að verða aðnjótandi lækningakraftaverks, en einskis meir.

12.23 Hann er þó ekki sonur Davíðs? Eða: „Heldur Jesús að hann sé sonur Davíðs?“ Sjá athugagrein við 9.27.

12.24 Beelsebúls, höfðingja illra anda:Sjá 10.25 og athugagrein við 9.34.

12.31-32 Mannssyninum:Sjá athugagrein við 8.20.

12.36 Á dómsdegi:Sjá athugagrein við 7.22.

12.39-41 Jónasar spámanns…Nínevemenn:Guð sendi Jónas spámann til Níneve, höfuðborgar Assýríu, til þess að segja íbúunum að biðjast fyrirgefningar Guðs. Jónas vildi ekki að Guð fyrirgæfi óvinum Ísraels í Assýríu, og reyndi því að fela sig fyrir Guði um borð í skipi (Jónas 1.3). Þá lét Guð fárviðri skella á hafinu svo að Jónas fór fyrir borð og stórfiskur gleypti hann (Jónas 1.12-17). Hann var í kviði fiskjarins í þrjá daga („Jónas í hvalnum“) áður en fiskurinn spjó honum upp á þurrt land (Jónas 2.11). Jesús líkir hér þeim dögum sem hann mun dvelja í gröf sinni við dægrin sem Jónas var í kviði fiskjarins. Sjá og Matt. 15.4; Mark 8.12; Jónas 3.5.

12.42 Drottning Suðurlanda…..að heyra speki Salómons:Hér er átt við drottninguna af Saba í Suður-Arabíu. Hún tók sér ferð á hendur til þess að hlýða á speki Salómons, konungs í Ísrael (sjá 1Kon 10.1-10; 2Kron 9.1-12). Jesús bendir hér á það, að fyrst heiðingi á borð við drottninguna af Saba gat lært af konungi í Ísrael forðum daga, þá ættu framámenn gyðinga að bera kennsl á boðskap Guðs, borinn fram af samlanda þeirra, Jesú.