3.1 samkunduhús:Sjá athugagrein við 5.22.
3.2 læknaði hann á hvíldardegi:Sjá athugagrein við 1.21 (Sabbatinn). Það taldist vinna að lækna á hvíldardegi og því brot á boðorðinu að halda hvíldardaginn heilagan.
3.6 Heródesarsinnum:Meðhaldsmenn Heródesar Antípasar í stjórnmálum. Hann var sonur Heródesar mikla og ríkti í Galíleu og Pereu frá 4 f.Kr. til 39 e. Kr. Hann var í raun fjórðungsstjóri, sem kallað var, en almenningur nefndi hann stundum konung.
3.7,8 Galíleu…Júdeu…Jerúsalem, Ídúmeu…byggðum Týrusar og Sídonar:Sjá athugagreinar við 9.30 (Galílea), 1.5 (Júdea og Jerúsalem). Ídúmea var fjallahéraðið suður af Dauða hafinu, í Gamla testamenti kallað Seír eða Edom (1Mós 32.3; 4Mós 20.14-21). Týrus og Sídon voru blómlegar hafnarborgir við Miðjarðarhafið í Norður-Palestínu, þar sem nú er Líbanon. Flestir íbúanna voru heiðingjar. Sjá kort á bls. 2375.
3.11 óhreinum öndum: Sjá athugagrein við 3.30.
3.11 sonur Guðs:Sjá „Guðs sonur„.
3.12 gerðu hann eigi kunnan:Sjá athugagrein við 1.43.
3.14 „og vera postular hans“ stendur í sumum handritum.
3.16-19:þá tólf (postula):Lærisveinn er nemandi lærimeistara, en postuli sá sem sendur er að reka ákveðið erindi. Postularnir voru tólf eins og ættkvíslir Ísraelsmanna. Jesús fól þeim að prédika og gaf þeim vald til að reka út illa anda. Sjá og Matt 10.1,2 og Lúk 6.13-16.
3.18 vandlætara:Á grískunni „kananea“, sem liklega er dregið af hebresku orði sem þýðir „hinn ákafi“ (Lúk 6.15). Símon tilheyrði þeim flokki manna, sem kallaður var „selótar“ og barðist gegn Rómverjum.
3.19 Ískaríot:Gæti þýtt „maðurinn frá Karíot“ (staður í Júdeu) eða „maður, sem sveik.“
3.20 kemur heim: Eða „kemur inn“ (ef til vill í hús Símonar Péturs).
3.22 fræðimennirnir:Sjá athugagrein við 12.38.
3.22 Jerúsalem: Sjá athugagrein við 1.5.
3.22 Beelsebúl….höfðingja illra anda:Sums staðar nefndur Beelsbúb eða Satan (sjá athugagrein við 1.13).
3.28 fyrirgefið, allar syndir þeirra: Sjá athugagrein við 1.4 (láta skírast til fyrirgefningar synda).
3.29 heilögum anda: Sjá athugagrein við 1.8. Sú synd að lastmæla gegn heilögum anda jafngildir því að snúa að fullu baki við Guði. Þeir, sem það gera, forsmá líka um leið fyrirgefningu hans. Sjá og Lúk 12.10.
3.30 Óhreinn andi: Óhreinir andar voru taldir þjóna Satan (sjá athugagrein við 1.13). Á dögum Jesú álitu menn að óhreinir andar yllu sjúkdómum og geðtruflunum. Gyðingur, sem menn héldu haldinn illum anda, var talinn „óhreinn“ og mátti ekki matast með öðrum eða taka þátt í helgihaldinu. Fólk óttaðist að það kynni að „smitast“ af hinum sjúku og því voru þeir látnir sæta einangrun, voru útilokaðir frá samfélaginu við aðra.
3.31 móðir Jesú og bræður: Móðir Jesú var María í Nasaret (Lúk 1.26-2.52). Hún og synir hennar reyndu að koma vitinu fyrir Jesú, sem þau töldu genginn af göflunum (3.21). Í Mrk 6.3 eru fjórir bræður Jesú nefndir á nafn og sagt að hann hafi líka átt systur.