2.1 Kapernaúm:Sjá athugagrein við 1.21 (Kapernaúm).
2.4 þekjuna:Húsin í þorpum Palestínu voru venjulega með flöt þök. Lágu gjarnan tröppur utan á húsunum upp á þökin. Þau voru smíðuð úr bjálkum eða röftum og hrís og greinar lagt yfir. Þetta var síðan þakið með leir og mold. Sjá mynd hér að neðan.
2.5 “syndir þínar eru fyrirgefnar”:Sjá athugagrein við 1.4 (láta skírast). Lögmálskennararnir hneyksluðust á þessum orðum Jesú, enda trúðu þeir því að Guð einn gæti fyrirgefið syndir (2.1; Jes 43.25).
2.10 Mannssonurinn: Sjá “Mannssonurinn”.
2.14 Leví Alfeusson:Hann var líka nefndur Matteus (Matt 9.9-13). Hann hefur trúlega setið við að innheimta vegatoll í einhvers konar skýli við þjóðveginn.
2.15 tollheimtumenn: Tollheimtumenn kröfðu yfirleitt um hærri upphæðir en þeir skiluðu Rómverjum og héldu mismuninum eftir handa sér. Þeir fóru líka höndum um hluti, sem gyðingar álitu “óhreina” svo sem myntir með myndum af heiðnum goðum. Flestum gyðingum var mjög í nöp við tollheimtumenn.
2.16 Fræðimenn af flokki farísea: Orðið “farísei” er komið úr hebresku og mun þýða “hinir aðskildu” eða “hinir hreinu”. Þeir vildu hlýða guðslögum til hins ýtrasta.
2.17 syndara: Synd er sérhvert brot móti Guðs heilaga vilja. Lögmálskennarar gyðinga brýndu fyrir nemendum sínum að hafa alls ekkert samneyti við þá sem brytu gegn lögmáli Drottins.
2.18 “fasta læriseinar Jóhannesar og lærisveinar farísea”:Sjá athugagrein við 1.4 (Jóhannes skírari). Jóhannes kann að hafa verið nasírei, en þeir unnu eið að því að neyta ekki ákveðins matar og drykkjar (4.Mós 6.1-4) og helguðu líf sitt hlýðni við Drottin. Vel má vera að þeir hafi einnig talið sig auðsýna guðrækni með því að neyta engrar fæðu um tiltekinn tíma (það er kallað að “fasta”).
2.19 brúðguminn:Brúðkaup var tilefni veisluhalds og gleðskapar og það hefði verið álitin móðgandi framkoma af vinum brúgumans að velja sér þá stund og stað til þess að fasta. Jesús gefur hér í skyn að hann sé brúðguminn og brúðkaupsgestirnir þurfi ekki að fasta á meðan hann er hjá þeim.
2.21,22 óþæfðum dúk…gamla belgi:Bót úr nýjum, óþvegnum dúk var líkleg til þess að hlaupa í þvotti. Væri hún notuð til þess að bæta rifu á gömlu klæði var hætta á að við þetta yrði úr enn verri rifa. Vín var látið á belgi úr skinni. Loft myndaðist er vínið tók að gerjast og belgirnir tútnuðu út. Það sakaði ekki ef þeir voru af nýrri húð. En væri nýtt vín sett á gamla belgi og skinn þeirra orðið þurrt og skorpið, þá vildu þeir rifna við gerjunina.
2.23 lærisveinar hans tóku að tína kornöx:Það var til siðs í Ísrael að leyfa soltnum ferðalöngum að tína kornöx sem með vilja voru skilin eftir handa þeim á akrinum eftir uppskeruna (5Mós 24.19-22).
2.24 kornöx…á hvíldardegi: Farísearnir skilgreindu þessa tínslu lærisveinanna sem vinnu og töldu þess vegna að þeir brytu hvíldardagshelgina með athæfi sínu.
2.25,26 hvað Davíð gerði:Jesús vitnar hér til frásagnar í 1Sam 21.1-6. Þar kemur raunar við sögu Ahímelek æðstiprestur, faðir Abíatars þess, sem hér er nefndur. Þetta misræmi kann að stafa af fleiri en einni heimild um hinn forna atburð. Háttsemi Davíðs var óvenjuleg, því að prestarnir einir (afkomendur Arons, bróður Móse) máttu eta hið helga brauð (3.Mós 24.8,9).
2.28 Mannssonurinn einnig Drottinn hvíldardagsins:Sjá athugagreinar við 1.10 (Mannssonurinn) og 5.22 (Sabbatinn). Það sem Jesús, Mannssonurinn, segir og gerir, hefur miklu meira vægi en jafnvel lögmál Móse, að meðtöldu boðorðinu um að halda hvíldardaginn heilagan.