13.1 Pílatus: Rómverjinn Pontíus Pílatus var landshöfðingi í Júdeu frá 26 til 36 e. Kr. Hann sat í Sesareu við strönd Miðjarðarhafsins. Þegar hann var á ferðinni í Jerúsalem dvaldi hann í Antoníusar-virkinu, þaðan sem sá yfir musterissvæðið úr norðvestri. Söguritarar Gyðinga frá 1. öldinni e. Kr. gefa Pílatusi þann vitnisburð, að hann hafi verið harðbrjósta og borið takmarkaða virðingu fyrir musterinu og trúarbrögðum Gyðingaþjóðarinnar. Að öðru jöfnu skiptu rómversk yfirvöld sér þó lítt eða ekki af helgihaldinu. Sjá “Pontíus Pílatus”. Áletrunin er úr heiðnu hofi í Sesareu og má hér m.a. sjá nafn Pílatusar.
13.2 syndarar: Þeir sem rísa gegn Guði og óhlýðnast boðum hans. Það var almenn trú að syndurum hefndist fyrir afbrot sín. Jesús segir, að allir hafi syndgað og þurfi að snúa sér til Guðs. Sjá og athugagrein við 11.4.
13.4 turninn féll yfir í Sílóam: Turninn var líklega við Sílóamlaug, innan við suðaustur borgarmúr Jerúasalem. Orð Jesú eru eina heimildin um þennan atburð.
13.6 fíkjutré gróðursett í víngarði sínum: Sjá athugagrein við 6.44.
13.10 hvíldardegi í samkundu: Sjá athugagreinar við 4.15 (samkunda) og 4.16 (hvíldardagur).
13.14 læknaði á hvíldardegi: Það var brot á lögmáli Gyðinga að starfa á hvíldardeginum og voru þá lækningar ekki undanskildar. Sjá athugagrein við 6.9. Sjá og 2Mós 20.9,10; 5Mós 5.13,14.
13.15 naut sitt eða asna: Báðar þessar skepnur komu að miklum notum við búskapinn á dögum Jesú. Uxanum var beitt fyrir plóginn og hann látinn draga þreskisleða um þreskivöllinn. Asninn var burðardýr og gerði í þá veru mun meira gagn en bæði hross og úlfaldar. Stundum kom hann líka við sögu þar sem akuryrkjan var annars vegar.
13.16 Satan: Sjá athugagrein við 4.3. Satan og árar hans voru oft taldir valda sjúkdómum og geðtruflunum. Sjá “Kraftaverk, töfrar og læknisdómar”.
13.18 Guðs ríki: Sjá athugagrein við 4.43.
13.19 mustarðskorni: Þetta örsmáa svarta korn (sinnep) var notað til þess að geyma matvæli og bragðbæta. Í því er olía og það var líka notað við lyfjagerð. Mustarðjurtin verður ekki eins hávaxin og mörg önnur tré, en getur þó orðið hærri en meðalmaður. Stundum verður stofninn á við handlegg manns að gildleika.
13.21 súrdeigi: Ger er agnarlítill gulur sveppur. Þegar hann er settur saman við hveiti og vatn, lyftir deigið sér, þannig að ekki verður úr flatbrauð þegar bakað er. Þetta er kallað súrdeig. Þrír mælar mjöls, sem nefndir eru í þessu versi, hafa verið heilmikið magn, einir 144 bollar af hveiti, nóg til þess að baka á milli 30 og 40 brauð af þeirri stærð sem nú er algengust hjá bökurum.
13.28 Abraham, Ísak: Áheyrendur Jesú vissu, að Guð gerði í fyrndinni sáttmála við Abraham, ættföður Gyðingaþjóðarinnar (1Mós 12.1-3; 17.1-9). Sjá og Matt 22.13; 25.30 og “Abraham“.
13.29 sitja til borðs í Guðs ríki: Hér er átt við þann dag í framtíð, þegar Guð safnar saman öllu trúu fólki, ekki aðeins af Ísraelsætt heldur öllu þjóðerni. Jesús líkir þessu við veislufagnað.
13.31 farísear: Sjá athugagrein við 5.17.
13.31 Heródes: Sjá athugagreinar við 3.1 og 9.7 (Heródes Antípas). Vera má, að farísearnir hafi ætlað að hræða Jesú, svo að hann flýði suður í Júdeu.
13.32 segið ref þeim: Svo sem verið hefur um allar aldir töldu menn refinn kænan og brögðóttan.
13.33 Jerúsalem: Sjá athugagrein við 9.51. Margir sendiboðar höfðu verið drepnir þegar þeir fluttu vondar fréttir til Jerúsalem.
13.35 musteri: Heródes mikli reisti musteri það, sem hér um ræðir. Framkvæmdir hófust árið 20 f.Kr. og stóðu enn yfir á dögum Jesú (Jóh 2.20). Musterið var reist á gríðarmiklum kletti, sem var um hálfur annar kílómetri að ummáli. Enn má sjá tilhöggna steinhnullunga úr undirstöðuvegg Heródesar, en musterið sjálft var gjöreyðilagt þegar rómverski hershöfðinginn Títus tók Jerúsalem herskildi árið 70 e.Kr.