Hvernig geta Guðs börn staðið fast á trú sinni, án þess þeim verði hnikað?  Vittu hvað Hið almenna bréf Júdasar segir um það.   

Hver eru einkenni Júdasarbréfsins?

Bréfritarinn hvetur lesendur sína til þess að falla ekki frá trúnni sem þeim hefur verið í hendur seld.   Hann varar þá jafnframt við óguðlegum mönnum, sem reyna að afvegaleiða lærisveina Drottins.  Þá vitnar hann gjarnan í helgirit Gyðinga (Gamla testamenti) og auk þess í tvö gyðingleg rit, sem ekki heyra Biblíunni til:  Himnaför Móse og  FyrstuEnoksbók.  Bréfið er mjög skylt Síðara Pétursbréfi (sbr. 2Pét 2.1-8 og Júd 4-16).

Hvert var tilefni bréfsins?

Höfundur hefur áhyggjur af óguðlegum mönnum, sem laumast hafa inn í söfnuðinn og segjast vera lærisveinar Krists.  Þeir halda því fram, að þeir geti óhræddir lifað í taumleysi, því að Guð muni í gæsku sinni fyrirgefa þeim hvaðeina.  Þeir afneita jafnvel Drottni, Jesú Kristi (4).  Lesendurnir eru áminntir um að vera á varðbergi fyrir slíkum villukenningum, og hvika í engu frá trú sinni.  Kristnum mönnum ber að lifa guðrækilega og „láta kærleika Guðs varðveita sig“ (21).  Þeir skulu forðast syndsamlegt líferni, sýna þeim mildi sem efast og koma þeim til hjálpar, sem frelsunar þurfa við.

Nánar um bréfið

Höfundur kveðst heita Júdas og vera bróðir Jakobs.  Hin hebreska mynd nafnsins er Júda, en svo hét einn af tólf sonum ættföðurins Jakobs (1Mós 29.35) og bar ættkvísl  Júda nafn hans.  Bæði Davíð konungur og sjálfur Jesús voru af þeim stofni (Lúk 3.33).

Í guðspjöllunum greinir frá bræðrum Jesú, þeim Jakobi og Júdasi (Matt 13.55;  Mrk 6.3).  Jakob var leiðtogi safnaðarins í Jerúsalem (sjá Post 15.13; Gal 1.19) og Júdas kann líka að hafa verið forvígismaður í gyðing-kristnu kirkjunni í Palestínu.

Óvíst er hverjir voru móttakendur bréfsins í öndverðu (1,2).  Það geta hafa verið gyðing-kristnir menn í frumkirkjunni, sem voru vel lesnir í helgiritum Gyðinga og kristnir menn kalla Gamla testamenti. Eða bréfið hefur verið skrifað síðar, eftir að bræður Jesú, þeir Jakob og Júdas, voru dánir.  Ýmis rök hníga að því, eins og bæði ritstíllinn og kringumstæðurnar, sem bréfið lýsir.   Hvort tveggja þetta virðist vera frá seinni tíma en þeim, þegar fyrsta kynslóð lærisveina Jesú var á dögum.   Fyrstu, kristnu söfnuðirnir áttu ekki heldur að heitið gæti í höggi við villukenningar eins og þær, sem fjallað er um í bréfinu.

Efnisyfirlit Júdasarbréfs

  • Ávarp og fyrirbæn (1.2)
  • Verjum trúna fyrir falskennendum (3-15)