Merki og tákn þjóna því hlutverki að vísa veginn og leiðbeina. Þegar við lesum Jóhannearguðspjall skulum við taka vel eftir táknunum (kraftaverkunum) sem opna augu okkar fyrir því að Jesús er sonur hins lifanda Guðs.
Hver eru séreinkenni Jóhannesarguðspjalls?
Jóhannes guðspjallamaður segir frá lífi, starfi og prédikun Jesú með öðrum hætti en samstofna guðspjöllin, Matteus, Markús og Lúkas. Jóhannes getur höfuðviðburða í ævi Jesú, en leitast þó umfram allt við að svara þremur spurningum:
- Hver er Jesús? Í fyrsta kapítula guðspjalls síns kallar Jóhannes Jesús „Orðið,“ sem var hjá Guði þegar hann skapaði ljósið og lífið. Orðið varð hold, það varð maður (1.14), til þess að við fengjum að sjá nákvæmlega hvernig Guð er. Jóhannes skírari kallar Jesú „Guðs lamb sem ber synd heimsins“ (1.29). Filippus kemst fljótlega að þeirri niðurstöðu að Jesús sé sá „sem Móse skrifar um lí lögmálinu og einnig spámennirnir“ (1.45). Natanael segir við Jesú: „Þú ert sonur Guðs, þú ert konungur Ísraels“ (1.49). Í guðspjallinu segir Jesús um sjálfan sig, að hann sé Messías (4.25,26); brauð lífsins (6.35); uppspretta lifandi vatns (7.37-39); góði hirðirinn (10.14); sá sem reisir dauða til lífs að nýju (11.25); vegurinn, sannleikurinn og lífið (14.6) og hinn sanni vínviður (15.1). Jóhannes kann lika frá því að segja, að Jesús notar oft orðin „ég er“ um sjálfan sig sem verkfæri Guðs. Það minnir á orðin sem Móse var sagt að viðhafa þegar hann talaði um Guð (2Mós 2.12-15).
- Hvaða verk Jesú sanna að hann er Guðs sonur?Jóhannes hermir frá mörgum kraftaverkum („táknum“) sem skýra nánar hvað orð Jesú og verk merkja. Þegar hann breytir vatni í vín, lægir óveðrið á vatninu, mettar þúsundirnar, læknar sjúka og reisir dauða til lífs, þá sýnir hann að hann er Guðs sonur að vinna það sem honum var falið af Guði: að færa öllu fólki nýtt líf.
- Hvað bar þeim á milli sem vildu fylgja Jesú og hinum sem stóðu í gegn honum?Jóhannesarguðspjall skýrir núninginn á milli þeirra sem tóku nýjum kenningum Jesú tveim höndum og hinna sem töldu sig ekki geta það nema með því að óhlýðnast lögmáli Móse.
Af hverju var Jóhannesarguðspjall ritað?
Þeirri spurningu er svarað klárt og kvitt í 31. versi 20. kapítula guðspjallsins: „Þetta er ritað til þess að þið trúið að Jesús sé Kristur, sonur Guðs, og að þið í trúnni eigið líf í hans nafni.“
Hvenær er guðspjallið skrifað?
Jóhannesarguðspjall er til orðið meira en hálfri öld eftir dauða og upprisu Jesú og áreiðanlega eftir að Rómverjar bældu niður uppreisn Gyðinga og eyðilögðu musterið í Jerúsalem árið 70 e. Kr. Upp frá því var þeim Gyðingum, sem orðnir voru lærisveinar Jesú, bannað að sækja samkundurnar. Jóhannes nefnir þetta á þremur stöðum í riti sínu (9.22-23; 12.42; 16.1).
Hvernig er efni guðspjallsins skipað niður?
Sögusvið Jóhannesarguðspjalls er ýmist Galílea eða Jerúsalemsborg og nágrenni hennar. Margir atburðir eiga sér stað á hátíðum Gyðinga. Söguþráðurinn er í stórum dráttum þessi:
- Hver er Jesús (1.1-51)
- Sjö kraftaverk Jesú (2.1-11.57)
- Kraftaverkin urðu til þess að fólk tók að líta á Jesú annað hvort sem vin eða fjandmann.
-
- Brúðkaupið í Kana (2.1-12)
-
- Starf Jesú í Júdeu og Samaríu (2.13-4.42)
-
- Jesús læknar son konungsmannsins (4.43-54)
- Jesús læknar sjúka manninn við Betesda-laug (5.1-47)
- Jesús mettar fimm þúsund manns (6.1-15)
- Jesús gengur á vatninu (6.16-21)
-
- Jesús kennir í Galíleu og Júdeu (6.22-8.59)
-
- Jesús læknar mann, sem fæddur var blindur (9.1-41)
-
- Góði hirðirinn og hjörð hans (10.1-42)
-
- Jesús reisir Lasarus upp frá dauðum (11.1-44)
- Síðustu dagar Jesú (11.45-19.42)
- Aðdragandi að dauða Jesú (11.45-12.5o)
- Jesús býr lærisveina sína undir það sem koma skal (13.1-17.26)
- Handtaka, réttarhöld og krossdauði (18.1-19.42)
- Jesús birtist lærisveinum sínum (20.1-21.25)