5.1 ein af hátíðum Gyðinga…Jerúsalem: Sjá athugagrein við 2.23 (Jerúsalem). Hátíðin var annað hvort laufskálahátíðin eða páskarnir. Laufskálahátíðin var haldin þegar haustuppskeran var komin í hús (2Mós 23.16; 3Mós 23.33-36; 5Mós 16.13-17). Þá fluttist fólkið í fábrotin skýli úr laufguðum greinum og minntist þess hversu Guð hjálpaði á eyðimerkugöngunni heim frá Egyptalandi. Sjá og athugagarein við 2.13 (páskar).

5.2 Við Sauðahliðið…laug…Betesda…fimm súlnagöng: Betesdalaug var skammt fyrir norðan musterissvæðið og hafa fundist menjar um hana.

5.7 þegar vatnið hrærist: Vera kann, að stundum hafi hreyfing komist á vatnið fyrir áhrif uppsprettu. Ýmsir trúðu því, að engill Drottins færi öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið.

5.9 hvíldardagur: Hvíldardagurinn (sabbatinn) var 7. dagur vikunnar, dagurinn þegar Guð hvíldist frá sköpunarverki sínu (1Mós 2.2,3). Sabbatinn er helgidagur gyðinga og hefst við sólsetur á föstudagskvöldi og lýkur með sérstakri blessun þegar sól sest laugardaginn eftir. Hebreska orðið „sabbat“ þýðir hvíld og það var ófrávíkjanleg regla hjá gyðingum að vinna ekki á hvíldardeginum (2 Mós 20.8-11; 5Mós 5.12-15). Það taldist starfi að bera rekkju sína og var því óheimilt á hvíldardegi.

5.10 menn: Sjá athugagreinar við 1.19,20 (ráðamenn) og 4.1 (farísear).

5.14 Syndga ekki framar: Við syndgum þegar við snúum baki við Drottni og óhlýðnumst vilja hans. Þessi varnaðarorð Jesú við manninn sem sjúkur hafði verið í 38 ár ber ekki að skilja svo að veikindin hafi stafað af syndum hans. Sjá og athugagrein við 9.2 og „Kraftaverk, töfrar og læknisdómar“.

5.16 gerði þetta á hvíldardegi: Samkvæmt lögmáli Móse var sérhver starfi sem unninn var á hvíldardegi alvarlegt brot (2Mós 31.14,15; 35.2). Í valdatíð rómverska heimsveldisins höfðu Gyðingar samt ekki heimild til þess að refsa fyrir þetta með lífláti. Ekki er fyllilega ljóst, hvernig þeir hófu „að ofsækja Jesú.“

5.17 Faðir minn: Í Jóhannesarguðspjalli kallar Jesús Guð oft föður sinn (3.35; 5.20-3-; 15.1-16; 17). Um leið gefur hann ótvírætt til kynna, að samband hans við Drottin sé með sérstökum hætti og sér sé fengið ákveðið vald yfir Guðs lýð (Slm 2.6,7). Leiðtogar Gyðinga trúðu því ekki að nokkur maður gæti verið jafn Guði. Því töldu þeir Jesú vanvirða lögmál Móse þegar hann kallaði Guð föður sinn (5.18).

5.19 sonurinn…föðurinn: Hér kallar Jesús sjálfan sig son Guðs (1.1-3,16,18).

5.21 faðirinn vekur upp dauða og lífgar: Hér ræðir Jesús um eilíft líf (sjá athugagrein við 3.15).

5.25 Sú stund kemur og er þegar komin: Jesús segir, að þeir sem heyra orð hans um fyrirgefningu og lífið nýja hafi þegar eignast líf sem engan enda tekur. Þar með eru og taldir allir þeir sem dáið hafa í Drottni. Sjá og 1Kor 15.12-57; 1Þess 4.13-18.

5.27 Mannssonur: Sjá athugagrein við 1.51.

5.35 logandi og skínandi lampi: Sjá athugagrein við 1.6 (Jóhannes skírari).

5.39,40 Þér rannsakið ritningarnar…öðlast lífið: Ritningarnar eru helgirit Gyðinga, sem kristnir menn nefna Gamla testamenti. Lögmálskennararnir fóru að fyrirmælum ritninganna til þess að lifa samkvæmt vilja Guðs. Jesús segir, að þessar sömu ritningar bendi á að hann sé vegurinn sem liggur til eilífs lífs (14.6). Sjá og athugagrein við 3.15.

5.45-47 á hann vonið þér: Hér á Jesús við Móse og lögmál hans (sjá athugagrein við 1.17), sem var þungamiðjan í helgiritum Gyðinga. Móse var leiðtoginn mikli sem leiddi Ísraelsmenn út úr þrælahúsinu í Egyptalandi og honum var af Guði fengið lögmálið sem þjóðin skyldi lifa eftir. Þegar Jesús segir um Móse „um mig hefur hann ritað,“ þá á hann við heildarboðskap fyrstu fimm bókanna í helgiritum Gyðinga, sem vant er að kalla Mósebækurnar eða Fimmbókaritið.