11.1-2 Lasarus…Maríu og Mörtu: Nafnið Lasarus er hebreskt að uppruna og merkir “Guð hjálpar.” Marta og María eru nefndar í Lúk 10.38-42. María er sú sem smyr fætur Jesú og getið er um í 12.3.
11.1-2 Betaníu: Betanía er bær í hlíðum Olíufjallsins um 3 km í austur frá Jerúsalem. Núna heitir hann El-‘Azariyeh eftir Lasarusi (Jóh 11.1) og sagt er að þar sé gröf hans að finna.
11.7 Förum aftur til Júdeu: Jesús hefur verið staddur austan við ána Jórdan, þegar hann fékk fregnina af veikindum Lasarusar (10.40).
11.11 Lasarus…er sofnaður: Jesús á við að Lasarus sé dáinn (11.13). Síðar átti hann eftir að reisa Lasarus upp frá dauðum.
11.16 Tómas: Tómas var einn postula Jesú. Nafnið er arameískt og þýðir “tvíburi.” Hann er nefndur þar sem hinir tólf postular Jesú eru taldir upp (Matt 10.3; Mrk 3.18 og Lúk 6.15). Tómas neitaði í fyrstu að trúa því að Jesús hefði verið reistur upp frá dauðum; hann er “lærisveinninn, sem efaðist” (20.24-29).
11.17 gröfinni: Meðal gyðinga var ekki óalgengt að menn legðu sína dauðu til hinstu hvílu í grafhýsum sem höggvin voru í mjúka kalksteinskletta. Flest voru þau fleiri en eitt herbergi með meira en eitt grafstæði. Grafarmunninn var varla nema metri á hlið. Utan við hann var höggvin rauf í klettagólfið og í henni komið fyrir kringlóttum steini sem velta mátti frá og fyrir.
11.18 Betanía: Sjá athugagrein við 11.1,2.
11.24 rís upp í upprisunni á efsta degi: Marta ól í brjósti vonina um líf eftir dauðann. Sjá athugagrein við 3.14 og “Eilíft líf” á bls. 1976. Sjá og athugagrein við 6.39 (á efsta degi).
11.27 Kristur, Guðs sonur: Sjá athugagreinar við 1.41 (Kristur) og 1.34 (Guðs sonur), og “Guðs sonur“.
11.39 komin nálykt af honum: Marta vissi, að lík manns sem hafði verið dauður í fjóra daga hlaut að vera byrjað að rotna. Því mátti búast við megnri nálykt út úr gröfinni – og hún hefur orð á því.
11.44 líkblæjum: Á dögum Jesú voru líkklæði venjulega úr líni. Líkin voru stundum smurð ilmsmyrslum og kryddjurtum. Sveitadúkur var notaður til þess að hylja ásjónu hins látna. Sjá og “Greftrun”.
11.46,47 farísea…ráðið: Sjá athugagreinar við 1.24 (farísear), 7.32 (æðstu prestarnir) og 7.50 (ráðið).
11.48 taka bæði helgidóm okkar og þjóð: Leiðtogar Gyðinga óttuðust að Jesús mundi æsa meðhaldsmenn sína til uppreisnar gegn Rómverjum og rómverski herinn ráðast á þjóð þeirra og leggja musterið í rúst. Þeir voru líka hræddir um að eigið vald þeirra yrði að engu, ef þeim fjölgaði sem fylgdu Jesú að málum.
11.49 Kaífas: Kaífas var æðsti prestur í Jerúsalem frá 18 til 37 e. Kr. Hann var yfirmaður musterisprestanna og stórveldi meðal trúar- og stjórnmálaleiðtoga Ísraels.
11.52 safna saman…dreifðum börnum Guðs: Ísrael (Gyðingaþjóðin) var að vísu Guðs útvalda þjóð, en Guðs lýður stendur allt um það öllum þjóðum opinn.
11.53 ráðnir í að taka hann af lífi: Sjá athugagrein við 7.50 (ráðið). Prestarnir hafa trúlega hugsað sér að handtaka Jesú og taka af lífi á komandi páskahátíð.
11.54 Efraím: Þetta þorp var líklega norður af Jerúsalemsborg á mótum óbyggða Júdeu og Jórdandalsins.
11.55 páskar: Sjá athugagrein við 3.13.
11.55 til að hreinsa sig: Gyðingar urðu að kaupa sér eitthvað til þess að færa í fórn ellegar elda ákveðna rétti í því skyni að undirbúa sig undir guðsdýrkunina á páskahátíðinni.
11.57 æðstu prestar og farísear: Sjá athugagreinar við 1.24 (farísear) og 7.32 (æðstu prestar).