Hvernig getur trúin verið “dauð”? Höfundur Jakobsbréfsins leiðbeinir um það hvernig kristinn maður heldur lífi í trú sinni.

Hver eru einkenni Jakobsbréfsins?

Af upphafi Jakobsbréfs má helst ráða, að það sé sendibréf ætlað öllum kristnum mönnum í gervöllu rómverska heimsveldinu (1.1). En þegar betur er að gáð, kemur í ljós, að það er öllu heldur bæklingur með leiðbeiningum um það, hvernig hinn kristni á að lifa og koma fram við aðra. Heilræðin eru vafningalaus og skýr: Örvæntu ekki, þótt þú hafir lítið handa á milli! Gefstu ekki upp þótt reyni á þolgæði þína og trú! Vertu seinn til reiði! Gerðu þér ekki mannamun ríkra og fátækra. Vertu hjálpsamur, gættu tungu þinnar og hafðu hemil á hvötunum. Reiddu þig á speki Guðs. Stattu í gegn hinu illa. Stærðu þig ekki af fyrirætlunum þínum. Sértu stöndugur, þá liðsinntu þeim sem minna mega sín. Vertu þolinmóður og góðviljaður og bið fyrir þeim sem þurfa á Guðs hjálp að halda.

Hver er meginboðskapur Jakobsbréfsins?

Höfundur Jakobsbréfs vill að menn sýni trú sína í verki, enda sé trúin dauð án verka. Hann hvetur lesendur sína til þess að hlýða “hinu konunglega boði Ritningarinnar: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig” (2.8)

Nánar um Jakobsbréfið

Bréfið er skrifað “þeim tólf kynkvíslum í dreifingunni” (1.1). Þetta orðalag á samt ekki við Ísraelsþjóðina, svo sem vænta mætti í fljótu bragði, heldur vísar það til hinna kristnu, sem litu á sig sem arftaka gyðingdómsins. Höfundur kveðst heita Jakob, hebreska nafninu, sem á grísku er Iakobos.

Jakobsbréfið hefur löngum verið talið ritað af Jakobi þeim, sem var bróðir Jesú, og Páll nefnir sem einn af máttarstólpum frumsafnaðarins í Jerúsalem. Margt í boðskap bréfsins minnir á spekirit Gamla testamentisins, en einnig á kenningu Jesú í guðspjöllunum. Málfar, stíll og framsetning gefur þó til kynna, að höfundur hafi verið kunnugur talsmátanum í veröld Grikkja á fyrstu öldinni eftir Krist burð. Það bendir til þess, að sá sem hér hélt á penna, hafi verið upp nokkru síðar en Jakob bróðir Drottins og nafni hans, Jakob postuli Sebedeusson (Matt 4.21).

Efnisskipan Jakobsbréfsins

Eftir stuttorða heilsun er tekið til við að ráða lesendum heilt um það, hversu þeir skuli ástunda Guði þóknanlegt líferni. Efnisyfirlitið er annars eftirfarandi:

  • Sækist eftir visku Guðs og æfið ykkur í þolinmæði (1.1-18)
  • Sýnið trú ykkar í verki (1.19-2.26)
  • Gætið tungu ykkar og reynið að hegða ykkur skynsamlega (3.1-5.6)
  • Verið þolinmóð, góðviljuð og staðföst í bæninni (5.7-20)