6.1,2 byrjendafræðslunni: Til undirstöðuatriða telst að dómi höfundar: “að hverfa frá breytni sem leiðir til dauða,” “trú á Guð,” vitneskja um það, hvernig menn verða hólpnir (Ef. 2.8-10), “skírnin,” sem er “bæn til Guðs um góða samvisku fyrir upprisu Jesú Krists” (1Pét 3.21), “yfirlagning handa,” sem viðhöfð er þegar maður er að Guði kjörinn til þess að gegna ákveðnu starfi (vígsla); og trú á “upprisu dauðra” og “eilífan dóm”, þegar Jesús kemur aftur að dæma lifendur og dauða (Matt 13.47-50; 25.31-46; Fil 1.10; 2.16; 3.20,21; 1Þess 4.13-18).
6.2 skírnir: Orðrétt “hreinsanir”.
6.4-6 upplýstir…heilögum anda: “Upplýstir” með ljósinu, sem er fagnaðarboðskapurinn um Jesú Krist. Sjá og athugagrein við 2.4 (heilags anda).
6.4-6 Þeir eru að krossfesta son Guðs: Menn, sem komist hafa til trúar, en falla síðan frá, eru engu betri en þeir sem krossfestu Krist. Sjá athugagrein við 2.9 (…dauða hans) og 4.14. Sjá og „Krossfesting“.
6.8 að verða brennd: Kveikt var í ökrum, sem ekki báru annað en illgresi, þyrna og þistla. Á myndinni hér að neðan er svonefndur Krategus-þyrnir, sem algengur er í Palestínu. Sumir þyrnar voru gróðursettir í þéttri röð og voru þá girðingar utan um nátthaga búfjár, en aðrir voru þurrkaðir og hafðir í eldinn.
6.9 ykkur er betur farið: Þið trúið á Jesú og réttið þurfamönnum hjálparhönd.
6.12 breytið eftir þeim sem trúa: Hér kann einnig að vera átt við elstu ættfeður Ísraelsþjóðarinnar (sjá 11.1-40).
Fórn Jesú – Nýr sáttmáli
Í löngu máli er skýrt frá því í Hebreabréfinu að Guð hafi sent Jesú til þess að gjöra nýjan sáttmála við lýð Guðs. Í honum gefur Guð nýtt fyrirheit og er það betra en þau fyrirheit, sem hann gaf Móse og Ísraelsþjóðinni forðum. Hinn fyrri sáttmáli var byggður á lögmáli Drottins, en sá nýi rís á fórninni, sem Kristur bar fram fyrir syndir mannanna.
6.17 með eiði: Eiður, svarinn við Drottin, var bindandi fyrir þann sem sór og varð ekki rift (2Mós 22.10). Guð gat ekki heldur tekið aftur það, sem hann hét Abraham forðum (1Mós 12.1-3).
6.19 von…nær alla leið inn fyrir fortjaldið: Í tjaldbúðinni, helgidómi Ísraelsmanna til forna (2Mós 25-27), var hið heilaga og hið allrahelgasta skilið að með veggtjaldi. Inn í hið allrahelgasta mátti enginn fara nema æðsti presturinn. Þar bar hann fram syndafórn einu sinni á ári. Kristnir menn hafa góða von, “sem nær alla leið inn fyrir fortjaldið,” af því að Jesús varð æðsti prestur, afmáði syndina með fórn sinni og gékk inn í sjálfan himininn.