Trú manna segir mikið um það, hverjir þeir eru. Lesum það hvers vegna Páll postuli varð að halda uppi vörnm fyrir sig og boðskap sinn um Krist.
Hver eru sérkenni Galatabréfsins?
Bréf Páls postula til Galatamanna er mjög persónulegt og sýnir glöggt hverju Páll trúði og hvern mann hann hafði að geyma. Í því er líka að finna upplýsingar um fortíð hans. En einkum og sérílagi er bréfið áreiðanleg heimild um alvarlegan ágreining í frumkirkunni. Þessi óeining og viðbrögð Páls við henni ollu miklu um innihald prédikunarinnar um Jesú Krist. Páll hélt því statt og stöðugt fram, að menn yrðu börn Guðs fyrir trúna á Jesú (3.26), en ekki fyrir hlýðni við lögmál Móse. Kristur frelsaði menn undan oki lögmálsins (5.1), en heilagur andi leiddi þá á réttan veg (5.16) og hjálpaði þeim til þess að lifa guðrækilega og í kærleika og góðvild til annarra (5.22,23).
Tilefni Galatabréfsins
Páll ritaði Galatamönnum þetta bréf til þess að sannfæra þá um, að hann væri með réttu postuli Krists og boðskapur hans sannur (1.6-9). Hann hafði áður komið til þeirra og boðað þeim fagnaðarerindið (1.7,8). Í bréfinu er hann gramur yfir því að aðvífandi persónur hafa haldið því að söfnuðunum í Galatíu, að nauðsynlegt sé að hlýða lögmáli Móse til þess að kallast rétt Guðs barn. Þessir falskennarar héldu því fram að þeir færu að dæmi leiðtoga hinna kristnu í Jerúsalem, meira að segja Jakobs, bróður Jesú (1.19). Páll segir Galatamönnum, að postularnir í Jerúsalem taki sig gildan sem postula. Þeir séu honum og sammála um það, að heiðingjar (þeir, sem ekki voru Gyðingar) geti vel heyrt til Guðs lýð án þess að hlýða lögmáli Móse og erfikenningum Gyðinga.
Hvernig var ástatt í Galatalandi, þegar bréfið var skrifað?
Galataland, eða Galatía, nefndist hérað í norðurhluta Litlu-Asíu miðjum (núna Tyrkland). Margir íbúanna voru afkomendur Galla eða Kelta, sem settust þarna að á 3. öldinni f. Kr. Á dögum Páls réðu Rómverjar landinu og gaf Ágústus keisari því nafnið Galataland árið 25. f. Kr. Ekki er fullljóst, hvar eða hvenær Páll postuli skrifaði Galatabréfið.
Efnisskipan bréfsins
Bréfið hefst á heilsun (1.1-4) og lýkur með stuttri kveðju (6.18). Meginefni þess er andmæli Páls gegn villukenningum þeirra, sem boðuðu „annars konar fangnaðarerindi.“ Þá heldur hann og uppi vörnum fyrir sig og boðskap sinn um Jesú Krist. Efnisyfirlit bréfsins:
- Páll áréttar postuladóm sinn og kenningu (1.2)
- Þeir sem trúa á Krist eru Guðs börn (3.4)
- Kristur veitir frelsi. Heilagur andi leiðir á réttan veg (5.1-6.10)
- Lokaorð (6.11-18)