Við verðum Guðs börn fyrir trúna á Krist

Páll gjörþekkir lögmál Móse og getur óhikað fullyrt að enginn verði Guði þóknanlegur með einni saman hlýðni við boðorð þess og reglur. Við verðum Guðs börn fyrir trúna á Jesú Krist. En allir sem eiga þessa trú eru börn Abrahams ættföður Gyðinga, sem fyrstur manna öðlaðist fyrirheit frá Guði.

3.2 andann: Páll minnist oft á heilagan anda í Galatabréfinu. Sjá „Heilagur andi„.

3.3 byrja í heilögum anda…fullna það í eigin mætti: Einhverjir safnaðarmenn í Galatalandi hafa, að því er virðist, látið umskerast til þess að „fullna“ það sem byrjaði í heilögum anda.

3.7 niðjar Abrahams: Guð útvaldi Abraham og samkvæmt því voru allir niðjar Abrahams Guðs börn.

3.13 bölvun lögmálsins: Páll telur bölvun hljótast af lögmálinu af því að enginn maður er fær um að hlýða ákvæðum þess til hlítar. En Jesús tók á sig syndir allra manna, dó á krossinum og „keypti“ þá sem á hann trúa „undan bölvun lögmálsins.“

3.16 Abraham og niðja hans: Gríska orðið yfir „niðja“ eða afkvæmi getur hvort heldur er þýtt einn afkomanda eða fleiri. Hér notar Páll það um Jesú Krist.

3.17 fjögur hundruð og þrjátíu árum síðar: Mörgum öldum eftir að Guð gerði sáttmála sinn við Abraham gaf hann lögmálið Móse og Ísraelsþjóðinni.

3.19 Hvað er þá lögmálið: Sjá athugagrein við 2.16 (Lögmálið).

3.19 niðjinn: Jesús Kristur. Sjá athugagrein við 3.16.

3.19 Englar sáu um að semja það: Þótt hvergi standi skrifað í Heilagri ritningu var það trú manna samkvæmt erfikenningu Gyðinga, að englar hefðu átt hlut að tilurð lögmálsins á Sínaífjalli (5Mós 33.2).

3.27 eruð skírð: Við skírnina er vatnið tákn þess að skírnarþeginn verður nýr maður og einn af heimilismönnum Guðs. Í Rómverjabréfinu líkir Páll skírninni við það að deyja og vera grafinn með Kristi (Róm 6.3-5). Það líf deyr, sem hneppt var í þrældóm syndarinnar og nýr maður fæðist. Sjá og „Skírn„.

3.29 niðjar Abrahams: Sjá athugagrein við 3.7.