Hver eru börn ljóssins, og hver börn myrkursins? Fyrsta Jóhannesarbréf svarar þeim spurningum.
Hver eru séreinkenni Fyrsta Jóhannesarbréfs?
Þótt Fyrsta Jóhannesarbréf sé kallað því nafni, vantar í það margt af því sem einkenndi sendibréf í Grikklandi til forna, t.d. ávarp í upphafi. Þar sem Jesús er í þessu riti nefndur „orð Guðs“ og hinir kristnu eru hvattir til þess að bera elsku hver til annars, hefur Fyrsta Jóhannesarbréf um margt þótt líkjast Jóhannesarguðspjalli. Í bréfinu gefst og innsýn í það, hvernig menn í frumkirkjunni jöfnuðu misklíð á milli sannra lærisveina Jesú og þeirra, sem aðhylltust ranghugmyndir.
Hvert var tilefni Fyrsta Jóhannesarbréfs?
Fyrsta Jóhannesarbréf, og raunar einnig hin Jóhannesarbréfin tvö, virðast hafa verið skrifuð til þess að brýna fyrir lærisveinum Krists að halda fast við það, að Jesús, sonur Guðs, hafi verið sannur maður og blóði hans úthellt til syndafyrirgefningar (1.7). Sumir lærisveinar héldu því ranglega fram, að Jesú hefði einasta virst vera maður, en hefði í raun verið andavera. Þeir hinir sömu voru á því, að líf andans skipti meiru en siðgæði og andleg þekking vægi þyngra en siðareglur. Þeir kenndu, að siðareglur væru handa þeim einum, sem bæru einungis skyn á hið jarðnesku í lífinu. Þeir staðhæfðu ennfremur, að þeir hefðu endurfæðst í anda, og það gerði þeim ómögulegt að syndga, og hefðu þeir þarafleiðandi enga þörf fyrir að játa yfirsjónir eða biðja fyrirgefningar á þeim (1.9,10).
Auk þess að játa, að Jesús hafi verið „Kristur, kominn sem maður“ (2.22; 3.23), hlýða börn Guðs („börn ljóssins“) vilja Guðs og elska hvert annað (3.11-24). Eilíft líf eignast þeir einir, sem trúa því og treysta, að Jesús Kristur hafi verið sannur maður, og bera elsku hver til annars.
Nánar um Fyrsta Jóhannesarbréf
Ritið er trúlega til orðið á ofanverðri fyrstu öldinni eftir Krists burð ellegar þá snemma á öndverðri annarri öld. Á þeim dögum var frumkirkjan að fást við að skilgreina það, hverjir gætu í sannleika talist vera Guðs börn. En á þessum tíma komu líka fram mörg ný trúarbrögð. Gnostisismi hét stefna þeirra á meðal og taldi hina efnislegu veröld vonda, en heim andans góðan. Gnostíkar trúðu því, að tilgangur lífsins væri sá, að menn öfluðu sér sérstakrar þekkingar, sem leysti þá úr fjötrum jarðlífsins. Þeir staðhæfðu, að þessi æðri viska verndaði þá fyrir spilltri veröld. En höfundur Fyrsta Jóhannesarbréfs sýnir fram á, að Guð hafi skapað heiminn, gefið mönnunum anda sinn og sent Jesú til þess að frelsa þá frá illu og því megi þess vegna treysta, að mennirnir séu í Guði og Guð í mönnunum.
Efnisyfirlit Fyrsta Jóhannesarbréfs:
- Líf í ljósi Guðs (1.1-2.17)
- Andkristur og börn Guðs (2.18-3.10)
- Elskum hvert annað (3.11-4.21)
- Trúin, sem sigrað hefur heiminn (5.1-21)
* Ljós og myrkur: Jesús kallaði sig „ljós heimsins“ (Jóh 8.12). Guð er og ljós, enda sagði Jesús: „‘Eg og faðirinn erum eitt.“ Í helgiritum Gyðinga (Gamla testamenti) segir, að Drottinn sé „ljós“ (Slm 27.1; 139.11,12). Í Biblíunni táknar ljósið Guð og Guðs orðs (Jóh 1.3,4; Slm 119.105), en jafnframt fólk eða fyrirbæri, sem birta sannleika Guðs (Jes 49.6). Lærisveinar Jesú eru nefndir „börn ljóssins“ (Ef 5.8) og „ljós heimsins“ (Matt 5.14).
* Myrkrið táknar þjáningu, eymd (Slm 107.10) og heimsku (Préd 2.14). Andstæðingar Guðs eru kallaðir „heimsdrottnar myrkursins“ (Ef 6.12) og þeim sem ekki gjöra vilja hans kann að verða „varpað í ystu myrkur“ (Matt 22.13). Hér eru þeir, sem segjast eiga samfélag við Guð, en ganga þó í myrkrinu, sagðir lygarar, sem ekki iðka sannleikann (1.6).
* djöfullinn: Djöfullinn, öðru nafni Satan, er höfðingi andstæðinga Guðs og lýðs hans. Orðið „djöfull“ þýðir rógberi og „Satan“ ákærandi. Jesús var af Guði sendur til þess að bera sigurorð af djöflinum og gera að engu öll verk hans ( 3.7,8).