Líf í ljósi Guðs

Jóhannes segir frá því í upphafi er orð Guðs (Jesús Kristur) varð hold hér í heimi.  Vitni að þeim atburði urðu menn, sem sáu, heyrðu og snertu hann.   Lýður Guðs á að ganga í ljósinu með því að játa syndir sínar (1.8-10), varðveita orð Guðs og fylgja fordæmi Krists (2.5).  Sannir lærisveinar auðsýna Guði hlýðni með því að elska hver annan eins og Jesús elskaði þá;  hann, sem gerði erindi Guðs frá örófi alda að nýju boðorði.

1.1 orð lífsins:  Gríska orðið „logos“, sem hér er á íslensku þýtt með „orð“, þýðir einnig „vit, skynsemi, tilgangur.“  Hér er „orðið“  Jesús Kristur, sem gefur heiminum líf.  Jesús var sannur Guð, í upphafi hjá Guði.  Allt varð til fyrir hann (Jóh 1.2), en hann var líka sannur maður, sem menn sáu, heyrðu í og snertu.

1.1  frá upphafi:  Sjá 1Mós 1.1-2.4, þar sem segir frá sköpun heimsins.

1.2 lífið eilífa:  Með „lífinu eilífa“ er átt við Krist Jesú.  Guð hefur og heitið þeim, sem trúa á Jesú, eilífu lífi með sér. Sjá og „Eilíft líf“ á bls. 1976.

1.2 föðurnum:  Í Jóhannesarguðspjalli kallar Jesús Guð oft „föður“ (3.35; 5.20-30; 15.1,16; 17). Af því má skilja hið nána samband hans við Guð, sem hefur veitt syninum vald til þess að ríkja yfir lýð sínum.

1.3 son hans Jesú Krist:  Bréfritarinn kallar Jesú „son föðurins“ og fer ekki milli mála, hve nánir faðir og sonur eru.  „Kristur“ er sama og gríska orðið christos,  en það er á hebresku „Messías“, sem þýðir „hinn smurði“ eða „hinn útvaldi.“ Það er messíasar-titill Jesú og má ýmist hafa á undan nafni hans eða á eftir.  Sjá „Messías (hinn útvaldi)“ á bls. 1086 og „Sonur Guðs“ á bls. 1947.

1.4 vor:  Í sumum handritum „ykkar.“  

1.5 „Guð er ljós og myrkur er alls ekki í honum“:  Sjá athugagrein á bls. 2291.

1.6   sannleikann:   Þótt synd og dauði hafi verið sigruð, þegar Jesús dó og var reistur upp frá dauðum, þurfa þeir sem honum fylgja samt að játa syndir sínar.  Þessi sannindi mæla þeirri villukenningu í móti, að Jesús hafi einasta virst vera sannur maður og lærisveinar hans séu frjálsir að því að lifa eins og þá lystir.  Sjá og „Sannleikur“ á bls. 1992.

1.7 blóð Jesú, sonar hans, hreinsar oss af allri synd:  Nýja testamentið kennir, að dauði Guðs sonarins, Jesú Krists, hafi verið syndafórn til friðþægingar fyrir afbrot mannanna (sjá Post 2.23;  Róm 3.25,26; Heb 2.16,17; 9.25,26).  Þá var úthellt blóði Jesú, sem var sannur maður, en ekki himnesk eilífðarvera.  Þeir, sem „syndga“ snúa baki við sannleika Guðs og fyrirheitum hans.  Sjá og „Synd“ á bls. 2089.

1.10 orð hans er ekki í okkur:  Eða „af því að við höfum ekki veitt  boðskap hans viðtöku.“

1.10 Ef við segjum:  „Við höfum ekki syndgað“:  Sýnilega hafa einhverjir falskennendur haldið því fram, að þeir sem fylgdu Jesú þyrftu ekki að játa syndir sínar.  Þeir hafa trúlega kennt, að siðareglur væru handa þeim einum, sem jarðbundnir væru. Það var trú þeirra, að sjálfir byggju þeir yfir æðri, andlegri speki, sem ylli því að þeim væri ógjörningur að syndga og hefðu þeir þar af leiðandi engar syndir að játa.