Hver ræður þér heilt, þegar þú þarft á því að halda? Lestu þetta bréf Páls og komstu að því hver heilræði Tímóteusi, sem leiðtoga í kirkjunni, voru gefin.
Hver eru séreinkenni Fyrra Tímóteusarbréfs?
Fyrra og Síðara Tímóteusarbréf, ásamt með Títusarbréfinu, eru nefnd einu nafni „Hirðisbréfin.“ Ástæðan er sú, að í þeim er sérstaklega fjallað um hlutverk þeirra sem gegndu hlutverki leiðtoga í frumkirkjunni. Þótt Fyrra Tímóteusarbréf sé stílað á Tímóteus persónulega, þá varð það í raun eins konar kennslubók handa forystumönnum frumkirkjunnar, enda er í því að finna ótal ráðleggingar og heilræði, sem þessum nýju trúarsöfnuðum og framámönnum þeirra komu mjög að gagni.
Hvert var tilefni Fyrra Tímóteusarbéfs?
Bréfið var skrifað í þeim tilgangi að vara við villukenningum og ráða að öðru leyti heilt öllum Guðs lýð. Þá eru og í því fyrirmæli um það, hvernig leiðtogar safnaða skuli kosnir, hverjar skuli nafnbætur þeirra og hver ábyrgðin, sem þeim sé lögð á herðar.
Nánar um bréfið
Tímóteus var sonur gyðing-kristinnar móður og heiðins föður frá Lýstru (Post 16.1). Páll postuli var lærifaðir hans í trúnni (1Kor 4.17). Páll nefnir Tímóteus á nafn í ýmsum bréfa sinna og kallar hann samverkamann sinn (2.Kor 1.1; 1Þess 1.1; Flm 1). Hann bar mikið og ótakmarkað traust til Tímóteusar (1Kor 16.10; 2Kor 1.19); hann fól honum að bera mörg bréfa sinna og nefnir hann enda oft sem höfund þeirra ásamt sér (2Kor, 1.2 Þess, Fil, Flm). Tímóteus var traustur ferðafélagi Páls á kristniboðsferðum hans (Róm 16.21; Fil2.19; Post16.1-3). Af öllu þessu leit Páll á Tímóteus sem „skilgetið barn sitt í trúnni“ (1.2).
Fyrra bréf Páls til Tímóteusar, að því er sumir fræðimenn álíta, er líklega ritað skömmu áður en postulinn dó. Aðrir halda því fram, að einhver lærisveina hans hafi skrifað bréfið, eftir að Páll andaðist. Kirkjuskipanin, sem bréfið ber með sér,svo og vissar kenningar sem settar eru fram í því, benda til þess að það hafi jafnvel verið skrifað einni eða tveimur kynslóðum eftir að Páll var allur. Það var raunar alsiða til forna, að lærisveinn heiðraði meistara sinn með því að skrifa í nafni hans.
Efnisyfirlit Fyrra Tímóteusarbréfs
- Leiðbeint um safnaðarlífið (1.1-3.13)
- Rétt trú og varað við villukenningum (3.14-4.5)
- Tímóteusi og öðrum safnaðarleiðtogum ráðlagt.
Safnaðarleiðtogar settir inn í embætti sín: Í Fyrra Tímóteusarbréfi fræðumst við um það, þegar menn völdust til þess að hafa forystu í frumkirkjunni (þeir voru ýmist nefndir biskupar, djáknar, öldungar eða prestar). Nýr leiðtogi var vígður (eða blessaður) með því að eldri forystumenn safnaðarins lögðu yfir hann hendur (4.14). Þessu sama er lýst í Gamla testamenti (sjá 1Mós 48.13-20 og 4Mós 27.23). Í Nýja testamenti segir frá því, hvernig þessi sama háttsemi var notuð við lækningar (Mrk 1.41), þegar sérstök blessun var veitt (Mrk 10.16), við útvalningu manns til þess að vinna ákveðið verk (Post 6.6; 1Tím 5.22), eða þegar náðargjafir heilags anda voru gefnar (Post 8.17; 19.6). Nú á dögum, þegar menn eru valdir til sérstaks hlutverks í kirkjunni, heitir það „vígsla“.