2.2 andlegu, ómenguðu mjólk: Átt er við orð Guðs, sem styrkir menn í trúnni og kennir Guðs veg til hjálpræðisins. Sjá athugagrein við 1.9.
2.4,5 lifanda steins…lifandi steinar: Jesaja spámaður jafnaði Messíasi (hinum smurða, útvalda) sem Guð mundi setja í Síon (Jerúsalem) við traustan hornstein (Jes 28.16). Hornsteinar voru undirstöðusteinar undir horni byggingar (og var þá oft múruð inn í þá forsaga bygginarinnar). Síðar átti Jesús eftir að líkja sjálfum sér við slíkan stein (Mrk 12.1-12). Sjá og Post 4.8-12; Róm 9.30-33).
Þeir, sem treysta Jesú og trúa því, að hann sé hornsteinninn mikli (hin traustasta undirstaða), verða sjálfir að “lifandi steinum.” Af þeim steinum rís “andlegt hús”, þ.e. musteri, helgidómur, þar sem Guð er tilbeðinn. Fleiri höfundar Nýja testamentis kalla lýð Guðs “musteri” hans (sjá 1Kor 3.16,17; Ef 2.19-22; Opb 3.12).
2.5 heilags prestdóms…til að bera fram andlegar fórnir: Hinn nýi Guðs lýður er ekki einasta musteri hans, heldur og prestarnir sem þar þjóna. Í Ísrael til forna voru prestarnir afkomendur Leví ættföður (sjá “Prestar Ísraels” á bls. 2249). Hér segir, að nýr söfnuður Guðs muni ekki fórna skepnum á altari eins og fyrrum, heldur bera fram andlegar fórnir, sem lýsa sér í lofgjörð og þökk til Guðs og kærleika meðal manna innbyrðis.
2.6 Síon: Svo hét Jerúsalemsborg til forna og fjallið, þar sem musterið var reist.
2.9 konunglegur prestdómur, heilög þjóð….til síns undursamlega ljóss: Í 2Mós býður Guð Móse að segja Ísraelslýð að hann eigi að verða “heilög þjóð” og “konungsríki presta” er þjóni sér (2Mós 19.6). Þannig kjöri Drottinn Ísraelsmenn fyrrum til þess að verða hans útvalda þjóð, en nú eru allir þeir, sem trúa á Jesú Krist, hinn nýi lýður Guðs (Róm 11.1-29; Gal 3.22-29). Sjá og athugagrein við 2.5.
Víða í Biblíunni táknar ljósið Guð eða Guðs orð (1Jóh 1.5; Slm 119.105), en auk þess fólk og viðburði sem birta sannleika Guðs (Jes 49.6). Myrkrið táknar aftur á móti illsku (Ef 5.8-12), þjáningu, eymd (Slm 107.10) og heimsku (Préd 2.14).
2.11 gesti og útlendinga: Sjá athugagrein við 1.1 (hinum útvöldu…sem útlendingar dreifðir).
2.13-17 hlýðin allri mannlegri skipan, bæði keisara: Keisarinn í Róm og stjórnkerfi hans verndaði líf og eignir löghlýðins fólks og refsaði brotamönnum. Ef kristnir menn gerðu sér far um að virða lög og reglur og reynast góðir grannar nábýlismönnum sínum, uppskáru þeir virðingu í stað ótta og tortryggni, sem sprottið gat af sérleik þeirra í trúarefnum. Myndin á myntinni hér að neðan er af Neró keisara, sem ríkti á árunum 54-68 e. Kr. og hefur því verið keisari um það leyti sem Pétur postuli dó.
2.18 Þjónar, hlýðið húsbændum ykkar: Þrælahald var alvanalegt í rómverska ríkinu. Meðal safnaðarfólks í frumkirkjunni voru bæði húsbændur, ánauðugir menn og ambáttir. Trú utankirkjufólks, viðhorf þess til Guðs, gat að nokkru oltið á því, hvernig samskipti húsfeðra og þjónaliðs komu því fyrir sjónir. Sjá og Ef 6.5-9 og “Þrælar og þjónustufólk á dögum Jesú“.
2.21 lét ykkur eftir fyrirmynd: Kristnir menn mega búast við andstreymi og áníðslu, en þeir skyldu ekki taka á móti þeim, sem leika þá hart, heldur fylgja fordæmi Jesú, sem var tekinn af lífi án þess að bera hönd fyrir höfuð sér.