11.3 höfuð: Síðar í bréfi sínu kallar Páll lærisveina Jesú (söfnuðinn, kirkjuna) „líkama Krists“ (12.12). Jesús er höfuð þessa líkama. En þótt Páll haldi því fram í Gal 3.28 að að allir séu eitt í Kristi, karlar jafnt sem konur, þá minnti hann hina kristnu í Korintu líka á það sem segir í helgiritum Gyðinga, að fyrsta konan hafi verið mynduð af rifi úr síðu karlmannsins (1Mós 26,27; 2.18-25).

11.6,10 hafi hún á höfðinu: Páll skrifar, að konur skuli annað hvort vera með uppsett hár ellegar hylja það með einhverju móti þegar þær biðja eða spá opinberlega, enda hafi Gyðingar í gamla daga löngum sett slegið hár í samband við hórdóm eða vændi. Í 11.10 á Páll trúlega við það, að kona skuli bera höfuðfat þegar hún biður eða spáir, svo að bæði menn og englar megi vita að þessi iðja sé á hennar „valdsviði“ og hún ætli ekki að trufla guðsþjónustuna (sjá og Ef 3.10 og 1Tím 5.21).

11.17 samkomur ykkar: Það sem Korintumenn greindi á um, þegar þeir komu saman til guðsþjónustu, var meðal annars hvern skilning ætti að leggja í máltíð Drottins (11.20-34). Þar við bættist, hve óskipulega og handahófskennt þeir notuðu andagáfurnar. Þetta varð til þess að uppi var fótur og fit á samkomum þeirra (12.1-14.40).

11.20-22 verður það ekki til þess að neyta máltíðar Drottins: Sundurþykkjan með safnaðarmönnum í Korintu kom greinilega í ljós þegar þeir komu saman til þess að neyta máltíðar Drottins, brauðsins og vínsins. Sumir þeirra gleyptu í sig allt brauðið og kláruðu vínið, áður en aðrir viðstaddir vissu hvaðan á þá stóð veðrið. Það var meira að segja til í dæminu, að einhverjir yrðu blindfullir. Greinilegt var, að þeir höfðu ekki réttan skilning á máltíð Drottins. Sjá athugagrein við 10.16,17.

11.23 Nóttina, sem Drottinn Jesús var svikinn: Frásögn Páls af orðum og athöfnum Jesú við síðustu kvöldmátlíðina með lærisveinum sínum kemur vel heim við það sem lesa má um þetta í Lúkasarguðspjalli 22.19-20. Sjá athugagrein við 10.16,17. Í hvert sinn sem lærisveinar Jesú neyta máltíðar Drottins sameinar þá minningin um dauða hans þangað til hann kemur. Sjá athugagreinar við 1.7 og 4.5.

11.29 sér til dómsáfellis: Sjá athugagrein við 11.20-22. Páll brýndi fyrir Korintumönnum að prófa sjálfa sig, áður en þeir neyttu máltíðar Drottins. Slík sjálfskoðun minnti þá á að þeir væru líkami Guðs og bæri að lifa svo sem Guði er þóknanlegt (sjá 3.16,17). Orsakir sjúkdóma voru raktar til illra anda (11.30).

11.34 þegar ég kem: Páll hafði í hyggju að heimsækja kristna menn í Korintu öðru sinni (4.18,19; 16.5-7).