10.1 forfeður okkar…gengu allir yfir hafið: Forfeðurnir eru Ísraelsmenn, sem flýðu burt úr þrældóminum í Egyptalandi. Guð kom þeim til bjargar með því að kljúfa hafið og gera það að þurrlendi (2Mós 14.21-29).

10.2 Móse: Sjá „Móse„.

10.11 það er ritað: Hér er átt við helgirit Gyðinga, sem kristnir menn nefna Gamla testamenti.

10.16,17 bikar blessunarinnar…brauðið sem vér brjótum: Við síðustu kvöldmáltíðina ræddi Jesús um brauðið og vínið og sagði að það táknaði líkama hans og blóð, sem yrði fórnað og úthellt til syndafyrirgefningar (sjá 11.23-26).

10.19-21 skurðgoðum…illra anda: Einhverjum hinna kristnu í Korintu hefur trúlega verið boðið að taka þátt í hátíðahöldum í hofum heiðinna goða. Líklegt er að þar hafi verið á borðum matur og drykkur, sem þessum skurðgoðum hafði verið færður að fórnargjöf. Páll minnir hér á, að það jafngildi því, að þessum kosti hafi verið fórnað illum öndum. Það gengur ekki að taka þátt bæði í borðhaldi Drottins og borðhaldi illra anda.

10.23 Allt er leyfilegt: Sjá athugagreinar við 6.12 og 5.1,2.

10.26 jörðin er Drottins og allt sem á henni er: Hér vitnað Páll í upphaf 24. Davíðssálms. Hann á við það, að öll fæða sé frá Guði komin og því óhætt að neyta hennar. Sjá og Mrk 7.15,16; Post 10.1-11.18.

10.28-29 etið ekki…vegna samviskunnar: Þótt safnaðarfólk Guðs þurfi nú ekki lengur að halda lögmál Móse, verður það samt sem áður að gæta þess að íþyngja ekki öðrum með breytni sinni. Þótt ekki sé að marka skurðgoð, getur það farið fyrir brjóstið á þeim lærisveinum sem áður tilbáðu þau, að horfa upp á trúbræður sína eta kjöt sem þeim hefur verið fórnað.

10.33-11.1 Ég…reyni…að þóknast öllum…breyti eftir Kristi: Páll var á því að stundum væri nauðsynlegt að láta ýmislegt ógert til þess að hneyksla ekki nýja lærisveina Krists (9.22,23). Sjálfur kenndi Jesús, að lærisveinar hans skyldu vera fúsir til þess að þjóna öðrum (Mrk 10.23-25).