Það er hægt að hneppa erindreka Guðs í fangelsi. En sannleikurinn um Krist verður ekki byrgður inni. Lestu Bréf Páls til Filippímanna og sjáðu hvernig postulinn hélt hugrekki sínu óskertu þrátt fyrir mikinn andbyr.
Hver eru sérkenni Filippíbréfsins?
Þegar Páll postuli skrifaði játendum Krists í Filippí þetta bréf, sat hann í fangelsi, en ekki er vitað hvar. Þótt hann hefði sjálfur storminn mjög í fangið um þessar mundir vildi Páll ekki láta undir höfuð leggjast að minna Filippímenn á að vera trúir því fagnaðarerindi um Krist, sem hann hafði boðað þeim fyrstur manna (Post 16.12-40; Fil 4.15-17). Hann segir Filippímönnum að vel kunni að vera að þeir þurfi að líða þjáningar, alveg eins og hann sjálfur að sínu leyti (1.30; 2.17,18), en þeir skuli ekki óttast neinar hörmungar, heldur hafa í huga, að „allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir“ (4.13). Ekki þarf að undra, að trúarstyrkur Páls í þessum stutta pistli hefur um allar aldir og allt fram á þennan dag orðið kristnum mönnum til mikillar hugsvölunar og uppörvunar.
Hvert var tilefni Filippíbréfsins?
Í bréfi sínu þakkar Pál Filippímönnum fyrir að hafa stutt sig með gjöfum og fyrirbænum (1.5; 4.10-19) og segir þeim það sem á daga hans hefur drifið síðan hann var tekinn höndum og hnepptur í varðhald Rómverja. En hann gengur þess ekki dulinn, að lærisveinar Krists í Filippí, meðlimir safnaðarins sem hann kom sjálfur á fót nokkur fyrr, eiga við vandkvæði að etja. Þeir deila um það, hvort nýjum játendum Krists beri að hlýða lögmáli Móse – eða ekki.
Nánar um bréfið
Höfundur Postulasögunnar skrifar, að Filippí hafi verið fyrsti áfangastaður Páls, þegar hann sigldi frá Litlu-Asíu til Suðaustur-Evrópu (Post 16.11,12). Þetta litla sveitaþorp var staður verslunar og herflutninga við austurmörk Egnatíu-vegarins svokallaða, frægrar þjóðbrautar sem Rómverjar lögðu um helstu borgir Makedóníu á milli Adríahafsins í vestri og Eyjahafsins í austri. Það var nefnt eftir Filippusi II. Makedóníukonungi, föður Alexanders mikla. Filippus víggirti staðinn á 4. öld f. Kr. og gerði að höfuðborg konungsríkis síns, en það fór sífellt stækkandi.
Bréf Páls til Filippímanna er eitt fjögurra „fangelsisbréfa“ hans, sem svo eru kölluð, því talið er að hann hafi verið „í fjötrum“ þegar hann ritaði þau. Hin eru Efesusbréfið, Kólossubréfið og Fílemonsbréfið. Ekki er vitað með vissu, hvar Páll var hnepptur í varðhald, eða hve oft. Þó greinir Postulasagan frá því, að honum hafi verið varpað í dýflissu í Efesus (Post 19.1-21) og Sesareu (Post 24.24-26.32) og ennfremur, að hann hafi setið í stofufangelsi í Róm (Post 28.11-30). Vera má, að Páll hafi verið staddur í einni þessara borga þegar hann skrifaði Filippíbréfið, eða þá í einhverri borg við Miðjarðarhafið austanvert, þar sem var rómverskt setulið (1.13).
Efnisskipan bréfsins
Páll byrjar bréfið á postullegri heilsun, byggðri á hefðbundnu upphafi sendibréfs hjá Grikkjum, og lýkur því með kveðjum játanda Krists (4.21-23). Síðan er Guði þakkað fyrir lesendurna og beðið fyrir þeim, eins og Páls var siður í flestum bréfa sinna. Þá segir hann Filippímönnum tíðindi af sér sjálfum, uppörvar þá og gefur þeim heilræði og loks þakkar hann þeim fyrir hjálpina á liðinni tíð. Efnisyfirlit bréfsins er að öðru leyti svofellt:
- Páll heilsar Filippímönnum og þakkar Guði fyrir þá (1.1-11)
- Kristur er líf trúaðs manns. Niðurlæging Krists til eftirbreytni í auðmýkt (1.12-2.18)
- Hvatning og hollráð (2.19-4.9)
- Þakkir og kveðjur (4.10-23)