Nú á dögum merkir orðið “von” yfirleitt að þess sé vænst, að eitthvað gott muni henda í framtíð, jafnvel sama og óskhyggja. Þetta innihald orðsins er einnig að finna í Biblíunni (sjá t.d. Lúk 23.8). Þau orð í helgiritum Gyðinga (Gamla testamenti), sem þýdd eru með “von” hafa merkinguna “að bíða einhvers með eftirvæntingu” eða “að treysta einhverju staðfastlega.”
Þessi góða von er traust manna til Drottins og frelsunar hans (Slm 71.5; Jer 14.8; 17.13). Drottinn vakir yfir þeim og blessar þá og verndar, sem vona á miskunn hans (Slm 33.18). En þeir sem reiða sig á annað en Drottin einan og setja í staðinn von sína á falsguði, munu skera upp eins og til var sáð (2Mós 20.3-5; Slm 49.5-14; Jes 44.9-11).
Eftir herleiðinguna til Babýlon kenndu spámennirnir, að Ísraelsþjóðin skyldi ekki lengur vonast eftir að hljóta veraldlegt vald á ný, heldur ganga í sig, taka sinnaskiptum og iðrast af öllu hjarta (Jer 29.10-14; 31.31-33).
Á öldunum síðustu fyrir Krists burð var það trú margra, að von Ísarelsþjóðarinnar um nýtt líf rættist ekki fyrr en sjálfur Guð bæri sigurorð af andstæðingum sínum og þeim, sem kúguðu lýð hans. Mundi hann þá setja á stofn nýtt konungsríki handa þjóð sinni. Þessarar vonar gætir mjög í svonefndum opinberunarritum (sjá Dan 7.12; Sak 9-14; og “Opinberunarritin” á bls. 1554).
Vonin er víða umtalsefni í Nýja testamenti, einkum í bréfum Páls postula. Að skilningi hans er hún nátengd trú og kærleika. “Vonin um frelsun” er “hjálmur” hins kristna manns, á sama hátt og trú og kærleikur eru honum sem “brynja” (1Þess 5.8). Að trúa er að vera “staðfastur í voninni á Drottin vorn Jesú Krist” (1Þess 1.1). Og í 1Kor 13.13 ritar Páll: “Nú varir trú, von og kærleikur.” Kristnir menn eiga von, af því að Guð reisti Jesú upp frá dauðum. Allir, sem á hann trúa, munu rísa upp til eilífs lífs og vera með Drottni alla tíma (1Þess 4.13-18). Jesús dó á krossinum til þess að frelsa mennina frá syndum þeirra, svo að þeir yrðu fyrir Guði réttlættir fyrir trúna á hann (Róm 3.25,26). Samt sem áður þurfa þeir, sem trúa þessu fyrirheiti, á voninni að halda. Hún hjálpar þeim að reynast trúir, fagna í þrengingum og bíða þess með þolinmæði að öðlast verðlaunin á himnum, hina fullkomnu frelsun og endurlausn (Róm 5.1-5; 8.23-25; Fil 3.10-14).
Bæði í Gamla og Nýja testamenti setur lýður Guðs von sína á hann, (Heb 3.6; 6.11; 10.23), en trúin er fullvissa um það sem menn vona (Heb 11.1). Þannig glæðir trúin vonina, en trúin þarf að sínu leyti líka á voninni að halda, því að vonin styrkir trúna og veitir Krists vinum kjark til þess að takast á við freistingar, andstreymi og erfiðleika (1Pét 1.3-9; 3.14-16).