Heilög ritning kennir, að syndin eigi rót sína að rekja til óhlýðni Adams og Evu, er þau átu af skilningstré góðs og ills (1Mós 3.9). Í helgiritum Gyðinga, sem kristnir menn nefna Gamla testamenti, segir að syndin birtist í mörgum myndum:
- Það er synd að brjóta gegn lögmáli Móse og lifa ekki að Guðs vilja (2Mós 20.20; 32.31-34), eða snúa baki við Guði og elta skurðgoð (Es 44.10).
- Það er synd að sýna Guði þverúð (Jer 22.22-24, 29-37), svo að afleiðingin verði ósætti við hann.
- Það er synd að koma fram við aðra með rangindum (1Mós 6.10-12) eða sitja á svikráðum við þá (Slm 64.1-6).
- Það er synd að færa ekki réttar fórnir samkvæmt fyrirmælum Móselaga. Þeir sem ekki gæta þessa,verða óhreinir og mega ekki ganga í inn í helgidóm Guðs (3Mós 4-5; 4Mós 5.1-4).
- Syndarar eru gjarnan hreyknir af því að hafa breytt illa (Jes 2.12). Spámennirnir segja þessa drýldni spretta af svikulu og forhertu hjarta (Jer 17.9-11).
- Það er synd að skila ekki til annarra þeirri gæsku Guðs, sem menn njóta sjálfir. Þess á að verða greinilega vart, að mennirnir eru skapaðir í Guðs mynd (1Mós 1.27; Slm 8.3-8). Syndarar fara ekki að guðslögum né heldur elska þeir náunga sinn. Því segir Páll í Róm 3.23: „Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð.“
- Syndir eins geta geta komið öðrum í koll. Þegar húsbóndinn braut af sér, bakaði hann öllum heimilimönnunum sekt (Jós 7; 5Mós 22.21,22). Guð hegndi illmennum og þyngsta refsingin var dauðadómur (1Mós 2.17; 2Mós 21.15-17; 3Mós 24.10-17).
Í Nýja testamenti kveður við annan tón, gjörólíkan þessum. Allir menn eru afkomendur Adams og hafa því tekið að erfðum syndina, en laun hennar eru dauðinn. Jesús færir aftur á móti nýtt líf af því að hann fyrirgefur syndirnar. Dauðir eru reistir upp til lífs (1Kor 15.22,23). Í dauða Jesú brýtur Guð afl syndarinnar á bak aftur þar eð Jesús þjáðist og var gerður að synd vegna allra manna (1Kor 15.3; 2Kor 5.21). Jesús var sonarfórnin til syndafyrirgefningar (Róm 3.25,26; Heb2.17; 9.25-28). Hann greiddi sektina fyrir syndir mannanna og Guð hefur nú gert nýjan sáttmála, náðargjöf, sem er eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum (Róm 6.23). Í stað þess að vera þrælar syndarinnar eru allir þeir, er heyra til hinum nýja lýð Guðs, orðnir þjónar Drottins (Róm 6.20-22).