Frumkvöðull Stóuspekinnar var Zenon frá Kýpur, sem uppi var í Aþenu á árunum 332 til 262 f. Kr. Í þann tíð tóku lærimeistarar gjarnan herbergi á leigu og stefndu þangað nemendum sínum að hlýða á fyrirlestra. En Zenon hafði annan hátt á; oft reikaði hann um á strætum og gatnamótum og talaði til vegfarenda, ekki ólíkt því sem götuprédikarar gera nú á dögum.
Í Aþenu var mikið um súlnaþök yfir hofum, sölubúðum og samkomstöðum. Orðið “súlnagöng” er á grísku “stóa.” Og þar eð Zenon safnaði nemendum sínum saman undir súlnaþaki voru hann og meðhaldsmenn hans kallaðir “Stóumenn.” Chrysippus frá Soli (kringum 280-205 f. Kr.), og hér sést á myndinni, lærði hjá nemanda Zenons, Cleanthesi frá Assos. Chrysippus er talinn einn fremstur Stóumanna eldri.
Stóumenn litu svo á, að alheimurinn væri lifandi vera, gædd guðlegri hugsun sem hefði ákveðið markmið. Þennan guðdómlega tilgang kölluðu þeir “náttúru.” Öllum mönnum bæri skylda til þess að lifa í samræmi við náttúruna og óbrigðul lögmál hennar, enda gætu þeir það ef þeir vildu. Þessi hæfni manna hét í munni þeirra “samviska.” Líf þeirra, sem lifðu í samræmi við náttúruna, yrði fullt gæsku og friðar. En væri hið gagnstæða uppi á teningnum, þá væri styrjalda og tortímingar að vænta. Stóumenn kenndu, að menn gætu náð tökum á lífi sínu og líðan, ef þeir gætu lært að bregðast rétt við hlutunum. Þeir hvöttu til þess, að fólk hætti að reyna að stjórna því, sem ekki væri á þess valdi, heldur tæki því sem að höndum bæri “með stóískri ró.” Sú væri leiðin til þess að lifa án ótta við það sem framtíðin færir. Allt sem gerist er líka óhjákvæmilegt, og því stoðar lítt að harma hlutskipti sitt.
Sumar hugmyndir Stóumanna höfðu mikil áhrif á Gyðinga, svo sem sést greinilega hjá höfundi Speki Salómons (á 1. öld f. Kr.). Í heimabæ Páls postula, Tarsus í Litlu-Asíu (sjá Post 21.39), bar og mjög mikið á kenningum Stóumanna. Ræða Páls á Aresarhæð í Aþenu hefur enda inni að halda ýmislegt það, sem hefur hljómað kunnuglega í eyrum einhverra viðstaddra sem handgengnir voru fræðum þeirra (Post 17.16-34). Og í Galatabréfi sínu skrifar Páll um verk Guðs anda í lífi manna. Þar er hið sama á ferð og Stóumenn álitu að prýddi þá sem næðu að lifa í samræmi við náttúruna: Langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska og sjálfsagi (Gal 5.22-23).