Í Orðskviðunum segir svo á einum stað: “Drottinn veitir speki, af munni hans kemur þekking og hyggindi. Hann geymir hinum ráðvöndu gæfuna og er skjöldur þeirra sem breyta grandvarlega” (Okv 2.6,7). Hér er minnst á tvennt, sem einkennir spekina að skilningi helgirita Gyðinga, sem kristnir menn kalla Gamla testamenti. Í fyrsta lagi á öll sönn speki uppruna sinn í Guði. Og í annan stað rís speki Guðs á lögmálinu, sem Móse veitti viðtöku á Sínaífjalli (2Mós 19-34). Þessa speki, byggða á lögmáli Drottins, ber foreldrum að innræta börnum sínum kostgæfilega (5Mós 5.16; 6.4-9).
Jeremía spámaður ráðlagði mönnum að stæra sig ekki af visku sinni, afli eða auði, heldur skyldu þeir hrósa sér af þeim hyggindum einum að þekkja Guð (9.23,24). Jeremía segir ennfremur, að Guð hafi skapað heiminn með speki, sem muni gera að engu fyrirætlanir þeirra sem treysta á eigin vitsmuni og elta hjáguði (10.1-15).
Í aldanna rás öðluðust einstakir menn speki fyrir atbeina Guðs. Þeirra fremstur var Salómon konungur, sem bað Guð að gefa sér vitsmuni (1Kon 3.1-15; 10.1-10). Salómon hafði m.a. til að bera skarpa dómgreind, lögspeki, glögga sýn á samskipti manna í milli og þekkingu á dýrum og plöntum. Margt í Orðskviðunum er eignað honum (Okv 1.1).
Í Jobsbók ræðir um hegðun manna og fyrirætlanir Guðs með börn sín um leið og sagt er frá góðum og guðhræddum manni, sem heldur áfram að vera trúr og staðfastur þrátt fyrir hinar mestu þjáningar og erfiðleika. Prédikarinn hefur líka að geyma íhuganir, vangaveltur og spakmæli, og sams konar efni getur að lesa í Apókrýfu bókunum svonefndu í Gamla testamenti. Meðal þessara rita, sem sumir Gyðingar hafa um hönd og prentuð eru í ýmsum biblíuútgáfum kristinna manna, eru Speki Salómons, sem ritað var á grísku og í má greina veruleg grísk áhrif (t.d. í afstöðunni til ódauðleika sálarinnar), og Síraksbók, en í henni er litið svo á, að lögmál Móse sé samnefnari og undirstaða allrar visku. Þá skal og nefna Barúksbók, sem svipar mjög til spámannarita Gamla testamentis. Í henni birtist það viðhorf, að viska sé sama og lögmál Drottins, hin einstæða gjöf hans til Ísraels (Bar 3.27-4.4).
Í Nýja testamenti er því haldið fram, að Jesús sé vitrari en Salómon (Matt 12.41). Svo er viska hans mikil, að sveitungarnir botna ekkert í hvaðan honum kemur hún (Matt 13.54; Mrk 6.2). Höfundur Kólossubréfsins segir Jesú ljúka upp leyndardómum Guðs og bætir við: “Í honum eru allir fjársjóðir spekinnar og þekkingarinnar fólgnir” (Kól 2.3). Páll kvað vísdóm mannanna og visku Guðs vera andstæður, enda væri speki manna oft heimskan einber (1Kor 1.18-2.16). Það er speki Guðs, að hann sendi Jesú til þess að deyja á krossinum til syndafyrirgefingar og til þess að frelsa þá sem trúa þeirri góðu frétt. Hinum, sem ekki trúa, finnst þessi boðskapur fásinna. Þeir aðhyllast hyggindi heimsins, en ekki speki Guðs.