Aþeningurinn Sókrates var uppi á árunum í kringum 469 til 399 f. Kr. Grísku heimspekingarnir á undan honum veltu því einkum fyrir sér af hvaða efni heimurinn væri gerður og hvernig hann væri settur saman. Sókrates taldi að heimspekin ætta líka að kenna fólki að lifa góðu lífi. Í því skyni notaði hann einkum tvær aðferðir til þess að afla þekkingar og miðla henni, í fyrsta lagi svokallaða aðleiðslu (almennar reglur leiddar af einstökum dæmum eða staðreyndum) og í öðru lagi skilgreiningu (nákvæm útlistun á merkingu orðs, hugtaks eða hlutar). Þá var honum og tamt að nota hárbeitta rökvísi í samræðum, svo að úr varðþrætulist, þar sem spurt er og svarað og hver skoðun kallar á andmæli. Af því hve dyggðirnar voru Sókratesi hugleiknar er vant að kalla hann föður siðfræðinnar.