Orðið dæmisaga (á ensku: parable) á uppruna sinn í grísku orði (parabole) sem þýðir “að setja eitthvað við hlið annars í því skyni að bera það saman.”  Dæmisaga er venjulega stutt frásögn sögð til þess að koma ákveðnum boðskap til skila.  Stundum er dæmisaga aðeins einstök ummæli sem líkja einhverju sem fólk tekur sér fyrir hendur við eitthvert fyrirbrigði í náttúrunni eða einhverja algenga hversdagsreynslu manna aðra. Í Orðskviðunum 6.6-8 er mönnum ráðlagt að taka sér maurinn til fyrirmyndar; hann aflar vista til að geyma og á sama hátt ættu menn að vera vinnu- og fyrirhyggjusamir. Spámaðurinn Jesaja líkti Ísraelsmönnum samtíma síns við víngarð sem  engin vínber bar (Jes 5.1-5), svo að eigandinn hætti að hirða um hann.  Eins mun Guð, segir Jesaja, hætta að annast Ísraelsþjóðina, beri líf hennar ekki góðan ávöxt (geri hún ekki það sem rétt er).

Í guðspjöllum Matteusar, Markúsar og Lúkasar notar Jesús gjarnan dæmisögur til þess að lýsa Guði og því hvers konar lífernis Guð væntir af þeim sem heyra ríki hans til.  Sumar þeirra eru einasta örfá orð, eins og t.d. þar sem sagt er að blindur leiði blindan (Matt 15.14), eða um heimilið sem er sjálfu sér sundurþykkt og fær því ekki staðist (Matt 12.25), eða um að kasta perlum fyrir svín (Matt 7.6), eða augað sem lampa líkamans (Matt 6.22,23).  Rúmlega 40 dæmisagnanna eru stuttar frásagnir, svo sem þegar Jesús líkir komu Guðs ríkis við bónda sem sáir niður sæði sínu (Matt 13.3-9), falinn fjársjóð (Matt 13.44) og illgresi meðal hveitis (Matt 13.24-30).  Stundum er bætt við útskýringu sem lýkur upp merkingu dæmisögunnar, eins og t.d. í Matt. 13.36-43.  Útlistunin auðveldaði nýjum lærisveinum Jesú að skilja boðskap hans.

Af öðrum kunnum dæmisögum Jesú má nefna Miskunnsama Samverjann (Lúk 10.30-37), Ríka bóndann (Lúk 12.16-21), Rangláta dómarann (Lúk 18.1-8), Brúðkaup konungssonarins (Matt 22.1-10) og Týndu synina (Lúk 15.11-32).