Sögnin „að skíra“ þýðir „að hreinsa.“ Skírn er á grísku „baptisma“ og merkir „að dífa niður í vatn.“ Í Móselögum var kveðið svo á, að prestar skyldu þvegnir úr vatni áður en þeir þjónuðu í musterinu (2Mós 40.12-15). Æðsti presturinn átti og að lauga líkama sinn áður en hann gékk inn í helgidóminn í samfundatjaldinu og hið allrahelgasta í musterinu að færa fórnina á friðþægingardaginn, og eins eftir að hann kom þaðan út aftur (3Mós 16.4,23,24).
Spámenn Ísraelsþjóðarinnar buðu fólki að baðast til marks um að illskubreytni væri þvegin af og nú vildi það taka háttaskipti og hegða sér í samræmi við vilja Guðs (Jes 1.16,17). Í Qumran við Dauðahafið fundu fornleifafræðingar merki um vatnslaug og þrep sem hafa legið ofan í hana. Þarna hafa bræðurnir laugast og sýnt með því að þeir vildu lifa hreinlífi. Um sama leyti tók Jóhannes skírari til starfa í Jórdandalnum. Hann prédikaði iðrunarskírn til fyrirgefningar synda. Hann hvatti menn til þess að búa sig undir komu þess, sem væri honum máttugri. Sá mundi skíra lýð Guðs með heilögum anda (Lúk 3.15-17).
Óvíst er hvort Jesús sjálfur skírði nokkurn mann (sjá Jóh 4.1-2). En hitt er ljóst, að hann sagði þeim sem hann hafði læknað að hlíta lögmáli Móse um hreinsun (Jóh 9.6,7). Síðar, áður en hann steig upp til himna, bauð hann postulum sínum að gera allar þjóðir að lærisveinum og skíra í nafni föður, sonar og heilags anda (Matt 28.18-20). Postularnir hlýddu þessu boði. Postulasagan geymir fjölda frásagna af því er þeir skírðu menn og gerðu þá með því að félögum í kristinni kirkju. Menn þágu skírn til þess að láta í ljósi, að þeir vildu ekki framar þjóna syndinni, heldur láta af óguðlegu líferni og byrja nýtt líf, helgað hlýðni og þjónustu við Drottin og vilja hans (Róm 6.1-4).
Í upphafi Postulasögunnar er sagt frá því hversu heilagur andi var sendur kirkjunni á hvítasunnudag. Þann dag tóku um þrjú þúsund manns skírn (Post 2.41). Er fagnaðarerindið tók að breiðast út í Júdeu og Litlu-Asíu, var fjöldi manna skírður, þar á meðal margir sem ekki voru Gyðingar: Samverjar (Post 8.12), hirðmaður frá Eþíópíu (Post 8.38), rómverskur hundraðshöfðingi (Post 10.47,48), og grísk kona, Lýdía að nafni (Post 16.15). Í bréfum sínum útskýrði Páll postuli það fyrir lesendunum að þeir sem skírðust ættu að breyta alveg um hátterni og lifa upp frá því nýju lífi (Róm 6.1-4; Kól 2.11,12). Í skírninni er hinn nýi lýður Guðs leystur frá gröfinni, gerður þóknanlegur Guði og boðinn velkominn sem þegnar Guðs ríkis, á sama hátt og þegar Guð bjargaði Nóa undan syndaflóðinu og reisti Jesú upp frá dauðum (1Pét 3.18-22).