Í Biblíunni er sannleikur það áreiðanlega, óyggjandi og trúverðuga. Hann stendur stöðugur og er óumbreytanlegur. Sumar grískar heimspekikenningar fara nokkuð í bága við þetta. Samkvæmt þeim er sannleikurinn hugmynd eða meginregla utan og ofan við þann raunheim, sem gengur úr sér og úreldist. Í Biblíunni rís sannleikurinn aftur á móti á óhagganlegum fyrirætlunum Guðs með heiminn, sem hann hefur skapað og manninn í þessum heimi. Því er andsvarið við sannleika Guðs eitt og aðeins eitt: Traust á fyrirheitum hans.

Þetta traust er meginstoð sambands Guðs og manns. Abraham trúði Guði (1Mós 15.6). Jakob þakkaði kærleika og trúfesti Guðs, sem hann varð aðnjótandi þrátt fyrir óhlýðni sína (1Mós32.9-12). Móse lofaði Drottinn á Sínaífjalli fyrir óbrigðulan kærleika hans til kynslóða Ísraelsmanna (2Mós 34.6,7). Drottinn er trúfastur Guð, svikalaus, réttlátur og hreinlyndur (5Mós 32.3,4). Eins og jurtir spretta úr jörð og sól og stjörnur skína um aldur, þannig eru og elska og trúfesti Drottins (Slm 85.11,12).

Jesús frá Nasaret, sem sagt er frá í Nýja testamenti, hélt því fram að orð Jesaja spámanns hefðu ræst í þeim verkum sem andi Drottins fól honum að vinna (Lúk 4.16-21). Þegar Jesús var að kenna, greip hann iðulega til hebreska orðsins “amen” (sem þýðir “já, það er vissulega satt”) til þess að gera áheyrendum sínum ljóst að það sem hann segði um fyrirætlanir Guðs með lýð sinn væri áreiðanlegur sannleikur (Matt 5.18; 5.2; 8.10; 18.15; 19.23; 24.2; 25.12). Jesús segir lærisveinum sínum að dauði hans á krossi og síðan upprisan frá dauðum sé fylling fyrirheita í helgiritum Gyðinga og þau fyrirheit séu óvefengjanleg (Lúk 24.27, 45-47).

Samkvæmt Jóhannesarguðspjalli er Jesús hið sanna ljós (1.9), í heiminn komið til þess að bera sannleikanum vitni (18.37). Hann er líka brauð lífsins (6.35), hinn sanni vínviður (15.1) og vegurinn til Guðs (14.6), sem leiðir í allan sannleikann (14.6). Það eru verk Guðs og fyrirheit, sem gefa börnum hans líf. Þau heyra hið lifandi orð Jesú og eru því sannleikans megin (18.37).

Í yngri bréfum Nýja testamentis tekur hugtakið “sannleikur” að merkja það sem er rétt, gagnstætt hinu sem er rangt. Þessi skilningur kemur vel heim við nútímahugsun. Varað er við villukenningum (1Tím 1.3,4; 2Tím 2.16-18), sömuleiðis þeim sem standa í gegn sannleikanum (2Tím 3.6-9) og “gefa sig að bábiljum og blaðra um hégóma” (Tít 1.10-14). Í þessum bréfum segir að kirkjan skuli berjast fyrir sannri trú (1Tím 6.11-21) og vera “söfnuður lifanda Guðs, stólpi og grundvöllur sannleikans” (1Tím 3.14,15).