Í Nýja testamenti lesum við á nokkrum stöðum um Samverja.  Þeir voru komnir af þeim tíu ættkvíslum  Ísraelsmanna sem risu gegn  Rehabeam, syni Salómons konungs, og settu á laggirnar sér  konungsríki, sem kallað var Ísrael eða Norðurríkið.  Þeir höfðu líka musteri út af fyrir sig á fjallinu Garísím nálægt Síkem-þorpi, og eigin prestastétt.  Þeir virtu hvíldardagshelgina út í æsar og staðhæfðu að fjallið þeirra helga, Garísím, væru miklu merkilegra en Síonarfjall, þar sem musterið í Jerúsalem stóð.  Gyðingar höfðu andúð á Samverjum og álitu þá ekki tilheyra Guðs útvöldu þjóð.  Höfundar guðsðpjallanna kunna aftur á móti frá því að segja, að Jesú hafi geðjast vel að þeim (Lúkas 17:11-19; Jóh. 4:3-9), og þegar hann útskýrði fyrir sérfræðingi í Móse-lögmáli hvernig góðviljaður og hjálpsamur maður kæmi fyrir af skepnunni, tók hann dæmi af Samverja (Lúkas 10:25-37).

Fyrir þessum sundurþykka almenningi reyndi Jesús að prédika fagnaðarerindið um Guðs ríki.  Þegar hann stóð með þeim snauðu og blandaði fúslega geði við tollheimtumenn, Samverja og skækjur, þá misbauð hann leiðtogum safnaðanna.  Af því spruttu deilur og fjandskapur milli trúflokkanna, sem lesa má um í Nýja testamenti, að hver einn vissi ævinlega betur en hinir hverjir teldust fallnir til Guðs lýðs og hverjir lítt.  Rómverjar réðu fyrir Palestínu en höfðu engan áhuga á þessum núningi öllum.  Þeir skiptu sér ekki af honum, nema þegar hætta var á að leiddi til uppreisnar gegn Rómarvaldinu.