Þegar Guð fól Móse á Sínaífjalli að leggja fyrir Ísraelsmenn lögmál sitt, bauð hann honum jafnframt að gera sér helgidóm, samfundatjald, sem líka er nefnt „tjaldbúðin“ (2Mós 25.1-27.21;  36.1-38.31). Í tjaldinu skyldi guðsdýrkun þjóðarinnar fara fram.  Þar áttu menn að færa Guði gjafir og fórnir.  Fólkið mátti safnast saman í forgarði tjaldbúðarinnar, en svo hét svæðið innan trégirðingar umhverfis hana. Í gegnum fortjald fyrir „hinu heilaga“ máttu engir fara nema prestarnir einir (sjá teikninguna á næstu blaðsíðu hér að framan).  Þeir sáu um ljósastikuna, en ljósið á henni táknaði návist Guðs.  Þeir gættu þess líka, að hveitikökurnar tólf (skoðunarbrauðin) á skoðunarbrauðaborðinu væru nýjar á hverjum helgidegi.  Brauðin minntu á lífgefandi himnabrauðið í eyðimörkinni og þau lágu frammi fyrir augliti Drottins sem sífelld fórn (2Mós 16.1-26; 3Mós 11.4-9).  Reykelsisfórn báru prestarnir fram á gullnu altarinu og reykurinn, sem upp af henni lagði, táknaði bænir safnaðarins.

Annað fortjald, innar, skildi að „hið heilaga“ og „hið allrahelgasta.“  Inn fyrir það leyfðist engum að ganga, nema æðsta prestinum einu sinni á ári, er hann á friðþægingardaginn stökkt blóði syndafórnarhafursins á lok sáttmálsarkarinnar til þess að friðþægja fyrir syndir lýðsins (3Mós 16; Heb 9.7).  Gulli lögð sáttmálsörkin, helgasti gripurinn í tjaldbúðinni,  stóð í „hinu allrahelgasta.“  Í henni voru þessir hlutir geymdir:  Gullker, fullt af manna (himnabrauði), stafur Arons (4Mós 17) og boðorðin tíu, rituð á steintöflur.  Á loki arkarinnar sátu tveir englar (kerúbar) úr gulli.  Lokið nefndist „náðarstóll“ og táknaði hásæti Drottins á jörðinni (2Mós 25.8; 2Kon 19.14,15; Jes 6.1-8).

Í fyrstunni var tjaldbúðin einfaldrar gerðar, af dúki og húðum.  Hún var ekki stærri en svo, að Móse gat reist hana hjálparlaust.  Það gerði hann í nokkurri fjarlægð frá áningarstöðum fólksins í eyðimörkinni, þegar það var á leið til fyrirheitna landsins (2Mós 37.7-11). Í Síló (1Sam 1.1-4) mátti gamla tjaldið víkja fyrir nýrri og haldbetri tjaldbúð.  Voru gömlu helgigripirnir (örkin, ljósastikan og skoðunarborðið) bornir inn í hana.