Ísraelsþjóðin var heilög, „tekin frá handa Guði,“ og bar að hlýða boðorðum hans. Í 2. Mósebók, 19. kapítula, 5. og 6. versi greinir frá því, að Guð hafi falið Móse að segja Ísraelsmönnum: „Þið skuluð verða sérstök eign mín, konungsríki presta og heilög þjóð.“ Jesaja spámaður ræðir það, sem af þessu fyrirheiti leiðir, er hann segir við hina harmþrungnu í Jerúsalem: „Þér verðið nefndir prestar Drottins og kallaðir þjónar Guðs vors“ (Jes 61.6).
Þótt allir ættu að vera sem prestar, mælti Guð svo fyrir, að menn af ættbálki Leví skyldu greindur frá öðrum til helgrar þjónustu, fyrst í tjaldbúðinni og síðan musterinu í Jerúsalem (4Mós 1.49-51; 3.5-13). Þessi stétt skipti svo með sér verkum: 1) Levítar voru aðstoðarmenn prestanna, sáu um þrif helgidómsins og undirbjuggu fórnarathafnir. 2) Prestar báru fram fórnir og þjónuðu að helgihaldinu. 3) Æðsti presturinn var yfir helgidóminum og mátti enginn nema hann ganga fyrir auglit Drottins inni í „hinu allrahelgasta“ (2Mós 28.29).
Prestar skrýddust helgum skrúða (2Mós 28.4-39) og settu upp gullið höfuðdjásn, sem í var grafið: Helgaður Drottni. Þeir báru og brjóstskjöld með nöfnum hinna tólf ættkvísla Ísraels. Meginhluverk prestanna var tvíþætt: 1) Samfélag við Drottin í helgidómi hans (samfundatjaldinu og síðar musterinu). 2) Að hreinsa lýðinn af syndum sínum frammi fyrir Drottni.
Árið 538 f. Kr. hófu Gyðingar, íbúar Júdaríkis, heimförina úr útlegðinni í Babýlon. Skömmu síðar sögðu spámennirnir fólkinu að endurreisa musterið, sem Babýloníumenn höfðu lagt í eyði 586 f. Kr., og hefja þar helgihald að nýju (Hag 1.1,12,14; Sak 3.6,7; 4.14).
Á annarri öld f. Kr. reisti Antíokkus IV. Epífanes, konungur á Sýrlandi, líkneski af Seifi, sem var æðstur guða með Grikkjum og Rómverjum, í musterinu og reyndi að þröngva Gyðingum til þess að færa því fórnir. Þetta varð til þess að Gyðingar, undir stjórn Makkabea, gerðu uppreisn 168-165 f. Kr. Í kjölfar hennar endurheimtu þeir musterið og urðu sjálfs sín ráðandi um hríð (165 til 63 f. Kr.). Sumir prestanna gengu fram fyrir skjöldu í uppreisninni.
Árið 63 f. Kr. réðust Rómverjar inn í Palestínu og hertóku landið. Þá gengu prestar Gyðinga til liðs við Rómverja, sem höfðu leyft Heródesi konungi að byggja nýtt og stórfenglegt musteri í Jerúsalem. Prestastéttin í Ísrael leið undir lok árið 70 e. Kr., þegar Rómverjar lögðu musterið í rúst eftir aðra uppreisn Gyðinga, og hefur það ekki verið endurbyggt síðan.
Það var atvinna prestanna að færa Drottni þakkarfórnir fyrir velgjörðir hans og syndafórnir til að friðþægja fyrir afbrot þegns og þjóðar og fá fyrirgefningu Drottins. Nýja testamentið kennir, að Jesús hafi á krossinum látið líf sitt til lausnargjalds fyrir alla menn (Mrk 10.45) og hafi Guð sent hann til þess að bera sjálfan sig fram sem fórn og leysa með því lýð sinn frá syndum hans (Róm 3.25,26). Hebreabréfið kallar Jesú mikinn æðsta prest, sem hafi í eitt skipti fyrir öll afmáð syndina með fórninni, sem hann færði á krossinum (Heb 4.14-5,7; 10.1-18).