Pontíus Pílatus var landshöfðingi (landstjóri) í Júdeu frá 26 til 36 e. Kr. Þá var Tíberíus keisari í Róm (14 til 37 e. Kr.) og Heródes Antípas fjórðungsstjóri (landstjóri) í Galíleu (4 f.Kr. til 39 e. Kr.). Rómverski sagnaritarinn Tacitus segir frá því íAnnálumsínum að á stjórnarárum Tíberíusar hafi Pílatus látið krossfesta Jesú. Gyðingur frá Egyptalandi, stjórnmála- og fræðimaður, sagði öðrum keisara síðar (Gajusi, 37 til 41 e. Kr.) að Pílatus hefði reitt Gyðinga í Jerúsalem til reiði með því að hafa til sýnis í landshöfðingjahöllinni skammt frá musterissvæðinu málmskildi með goðumlíkri mynd af keisaranum. Jósefus, sagnaritari Gyðinga, segir frá hörðum mótmælum Jerúsalemsbúa, þegar Pílatus lét setja þar upp viðhafnarsúlur með myndum af keisaranum í guðalíki og eins þegar hann tók fé úr fjárhirslu musterisins til þess að borga fyrir vatnsleiðslu sem hann lét leggja inn í borgina.
Pílatus er nokkrum sinnum nefndur í Nýja testamenti (Post 3.13; 4.27; 13.28 og 1Tím 6.13), en þó einkum í frásögnum guðspjallanna af réttarhöldunum yfir Jesú og krossfestingu hans (sjá Mrk 15.1-15; Matt 27.1-26). Þegar lýðurinn heimtaði að Jesús yrði krossfestur, þvoði Pílatus hendur sínar í augsýn fólksins til þess að sýna að hann ætlaði ekki að taka á sig sökina á dauða Jesú. Hjá Lúkasi kemur Heródes Antípas líka við sögu og er svo að sjá, að hann hafi ráðið Pílatusi frá því að lífláta Jesú. Samt lætur Pílatus undan vilja fjöldans (Lúk 23.21-25).
Hefði Jesús verið dæmdur til dauða fyrir brot á lögum Gyðinga, hefði hann verið grýttur til dauða. Lögmál Móse mælti fyrir um að sá háttur skyldi hafður á framkvæmd dauðarefsingar og þannig var Stefán, „fyrsti píslarvottur“ kristinnar kirkju, líflátinn (Post 7.54-60; 5Mós 13.9-10; 21.18-20). En Pílatus lét taka Jesú af lífi með krossfestingu og var það rómversk aðferð. Yfir höfði hans var fest sakargift svo skráð: Jesús frá Nasaret, konungur Gyðinga (Matt 27.37; Mrk 15.26; Jóh 19.19).